17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Sigrandi trú / Auðug fyrir Guði
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað.“ (Ef 4.2)
Kollekta:
Drottinn Guð, við biðjum þig: Hjálpa okkur að forðast öll áhrif hins vonda, leita þín hreinum huga og lifa þér einum sönnum Guði. Fyrir son þinn Jesú Krist, frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Okv 16.16-19
Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
Háttur hreinskilinna er að forðast illt,
líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar.
Dramb er falli næst,
hroki veit á hrun.
Betra er að vera hógvær með lítillátum
en deila feng með dramblátum.
Pistill: Ef 4.1-6
Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
Guðspjall: Lúk 14.1-11
Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“
Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“
Þeir gátu engu svarað þessu.
Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“
Sálmur: 197
Hver fögur dyggð í fari manns
er fyrst af rótum kærleikans.
Af kærleik sprottin auðmýkt er,
við aðra vægð og góðvild hver
og friðsemd hrein og hógvært geð
og hjartaprýði stilling með.
Vér limir Jesú líkamans,
er laugast höfum blóði hans,
í sátt og eining ættum fast
með elsku hreinni’ að samtengjast,
því ein er skírn og ein er von
og ein er trú á Krist, Guðs son.
Og einn er faðir allra sá,
er æðstan kærleik sýndi þá,
er sinn hann eiginn son gaf oss
og síðan andans dýra hnoss,
þess anda’, er helgar hjarta manns
og heim oss býr til sæluranns.
Ó, látum hreinan hjörtum í
og heitan kærleik búa því,
að eins og systkin saman hér,
í sátt og friði lifum vér,
vor hæsti faðir himnum á
sín hjartkær börn oss kallar þá.
Helgi Hálfdánarson