Páskadagur
Páskadagur
Litur hvítur eða gylltur
Vers vikunnar:
„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb 1.18b)
Andstef: Drottinn er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.
Bæn dagsins / kollektan
Lifandi Drottinn. Með upprisu Sonar þíns hefur þú tekið allan mátt frá dauðanum og lætur
kunngjöra öllum heimi fagnaðarboðskapinn um hjálpræðið í Jesú Kristi. Sendu okkur styrk
og kraft trúarinnar og sigra efann. Leyfðu okkur öllum að taka með fögnuði undir lofsöng
páskanna með öllum þeim sem bera vitni um að Kristur er risinn upp frá dauðum og lifir og
ríkir að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían 2Mós 15.2-3, 20-21
Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Hann er Guð minn, ég vil vegsama hann,
Guð föður míns, ég vil hylla hann.
Drottinn er stríðshetja,
Drottinn er nafn hans.
Þá tók spákonan Mirjam, systir Arons, trumbu sér í hönd og allar aðrar konur héldu á eftir
henni með trumbuslætti og dansi. Mirjam söng fyrir þeim:
Lofsyngið Drottni
því að hann er hátt upp hafinn,
hestum og riddurum
steypti hann í hafið.
1.Kor. 15. 19-28
Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna.
En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. Eins og dauðinn
kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni. Eins og allir deyja vegna
sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist. En
sérhver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn,[ næst koma þeir sem játa hann þegar hann
kemur. Síðan kemur endirinn er Kristur selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu
gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla
fjendurna að fótum sér. Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður. „Allt hefur
hann lagt undir fætur honum.“ Þegar segir að allt hafi verið lagt undir hann er augljóst að sá
er undan skilinn sem lagði allt undir hann. Þegar allt hefur verið lagt undir hann mun og
sonurinn sjálfur skipa sig undir föðurinn er lagði alla hluti undir hann svo að Guð verði allt í
öllu.
Guðspjall Jóh. 20. 1-10
Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur
og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins
lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við
vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En
hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og
sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór
inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans.
Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og
trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru
lærisveinarnir aftur heim til sín.
Sálmur Sb 146
1. Fullar hendur af blómum þú hefur,
hvaða vinur hlýtur þau öll að gjöf.
Út að gröf Jesú gekk ég með blómin,
fann þá tóma gröf, hann lá ekki þar.
:,:Hallelúja, hallelúja.:,:
2. Fullur lofsöngs er líka þinn munnur,
hvaðan sprettur lofgjörðaróður þinn?
Yfir gröfinni tómu ég gladdist,
hann, sem lifir, gefur mér fögnuðinn.
:,:Hallelúja, hallelúja.:,:
3. Full af gleði´ eru augu þín orðin,
seg mér hvaða undur þú hefur séð?
Ég sá ævinnar háleita markmið.
Jesús breytir myrkri í ljós og yl.
:,:Hallelúja, hallelúja.:,:
4. Jesús upprisinn okkar á meðal,
þú sem lifir, elskar og þjáist hér,
trúaraugu mín á þér ég festi,
hönd og munn gjör einlæg í starfi´ og bæn.
:,:Hallelúja, hallelúja.:,:
Marcello Ciombini Lars Åke Lundberg Lilja Kristjánsdóttir