Gamlárskvöld 31. desember - Tími fyrir Guð
Vers vikunnar:
Í þinni hendi eru dagar mínir. Sálm. 31.16a
Litur: Hvítur.
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, þú sem hefur verið okkur athvarf á liðnu ári: Við felum okkur forsjón þinni á hinu komanda, svo að líf okkar megi vegsama þig. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda. Einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Hlj 3.21-26, 40-41
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.
Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum.
Pistill: Róm 8.31b-39
Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Guðspjall: Lúk 13.6-9
Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“
Sálmur: 71
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.
En hvers er að minnast og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.
Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.
Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.
Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.
Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir,
gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.
Valdimar Briem