25. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.“ (2Kor 6.2b)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Miskunna þú oss, að vér, sem eigum ekki traust á eigin verðleika, þurfum eigi að mæta þér í ströngum dómi, heldur í mildi og náð. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Jes 2.1-4
Þetta er það sem Jesaja Amotssyni vitraðist um Júda og Jerúsalem.
Það skal verða á komandi dögum
að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki,
það ber yfir hæstu fjallstinda og gnæfir yfir allar hæðir.
Þangað munu allar þjóðir streyma
og margir lýðir koma og segja:
„Komið, göngum upp á fjall Drottins,
til húss Jakobs Guðs
svo að hann vísi oss vegu sína
og vér getum gengið brautir hans.“
Því að fyrirmæli koma frá Síon,
orð Drottins frá Jerúsalem.
Og hann mun dæma meðal lýðanna
og skera úr málum margra þjóða.
Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum
og sniðla úr spjótum sínum.
Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð
og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
Pistill: 1Þess 4.13-18
Ekki vil ég, systkin, láta ykkur vera ókunnugt um þau sem sofnuð eru, til þess að
þið séuð ekki hrygg eins og hin sem ekki eiga von. Því að ef við trúum því að Jesús
sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þau sem sofnuð
eru. Því að það segi ég ykkur, og það er orð Drottins, að við, sem verðum eftir á
lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en þau sem sofnuð eru. Þegar Guð
skipar fyrir, þegar raust erkiengilsins kveður við og básúna Guðs hljómar, mun
sjálfur Drottinn stíga niður af himni og þau sem dóu í trú á Krist munu fyrst upp
rísa. Þá munum við sem eftir lifum verða hrifin burt ásamt þeim í skýjum til fundar
við Drottin í loftinu. Og síðan munum við vera með Drottni alla tíma. Uppörvið því
hvert annað með þessum orðum.
Guðspjall: Matt 24.15-28
Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðileggingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa
á helgum stað” -; lesandinn athugi það -; “þá flýi þeir sem í Júdeu eru til fjalla.
Sá sem er uppi á þaki fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. Og sá sem er á akri
skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn
hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið að flótti yðar verði ekki um vetur eða á
hvíldardegi. Þá verður sú mikla þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi
heims allt til þessa og verður aldrei framar. Ef dagar þessir hefðu ekki verið
styttir kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu verða þeir dagar styttir.
Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur, eða: Þar, þá trúið því ekki. Því að
fram munu koma falskristar og falsspámenn og þeir munu gera stór tákn og undur svo
að þeir gætu leitt hin útvöldu afvega ef það er unnt. Athugið að ég hef sagt yður
það fyrir. Ef menn segja við yður: Hann er í óbyggðum, þá farið ekki þangað. Ef þeir
segja: Hann er í leynum, þá trúið því ekki. Mannssonurinn kemur eins og elding sem
leiftrar frá austri til vesturs. Þar munu ernirnir safnast sem hræið er.
Sálmur: 66
Hefjum upp augu’ og hjörtu með,
hjálpræðisstund vor er nærri.
Jesú vér fáum sjálfan séð,
sorg öll og kvíði’ er þá fjarri.
Senn kemur eilíf sumartíð,
sólunni fegri’, er ljómar blíð
Drottins í dýrðinni skærri.
Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Guð alls lífs, þú kveikir í okkur þrá eftir endurnýjun þessa heims. Kenn okkur að þekkja hvar ríki þitt er mitt á meðal okkar hér og nú. Gef okkur kraft og þor til að gera það sem þjónar friði þínum, og vænta hjálpræðis þíns, fyrir Jesú Krist, bróður okkar og Drottin. Amen.