4. sunnudagur í aðventu Fagnaðarhátíðin færist nær
4. sunnudagur í aðventu
Fagnaðarhátíðin færist nær
Litur: Rósbleikur eða rauðbleikur. Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)
Þriðja lestraröð
Bæn dagsins / kollektan
Eilífi Guð, við bíðum Jesú Krists sonar þíns og bróður okkar sem kemur til að dæma heiminn
og til að frelsa hann. Gef þú okkur fullvissu þess að hann úrskurðar í náð og vek með okkur
gleðina yfir því að hann frelsar. Þér sé lof að eilífu. Amen.
Lexían Jes. 62:1-3
Sökum Síonar get ég ekki þagað
og vegna Jerúsalem ekki verið hljóður
fyrr en réttlæti hennar brýst fram eins og ljómi
og hjálpræði hennar logar sem kyndill.
Þjóðirnar munu sjá réttlæti þitt
og allir konungar dýrð þína,
þér verður gefið nýtt nafn
sem munnur Drottins ákveður.
Þú verður vegleg kóróna í hendi Drottins
og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.
Pistillinn II. Kor. 1:18-22
Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það sem ég segi ykkur er ekki bæði já og nei. Sonur Guðs,
Jesús Kristur, sem við höfum prédikað á meðal ykkar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki
bæði „já“ og „nei“ heldur er allt í honum „já“. Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru þá
lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með „jái“. Þess vegna segjum við með honum amen Guði
til dýrðar. Það er Guð sem grundvallar trú okkar og ykkar á Kristi og hefur smurt okkur. Hann
hefur sett innsigli sitt á okkur og gefið okkur anda sinn sem tryggingu í hjörtum okkar.
Guðspjallið Lúk. 1:39-45
En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum
Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði
kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda og
hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan
kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum
mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem
Drottinn lét segja henni.“
Sálmur Sb 15
Tendrum lítið ljós,
ljós er boðar heilög jól.
Sannur jólafriður fagur
fer um byggð og ból.
Stjarna lýsir leið,
lýsir aðventunnar veg.
Jesús kemur, jörðu gefur
jólin gleðileg.
T: Annette Wikenmo. Pétur Þórarinsson