Hvítasunnudagur Kirkja Heilags anda.
HvítasunnudagurKirkja Heilags anda.
Litur: Rauður.
Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)
Kollekta:
Guð sem hefur uppfrætt hjörtu trúaðra með ljósi þíns heilaga anda: Veit okkur í sama anda þinum að vita hið rétta og ávallt gleðjast af hans heilögu huggun. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 104.24, 27-30
Hversu mörg eru verk þín, Drottinn?
Þú vannst þau öll af speki.
Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.
Öll vona þau á þig
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
Pistill: 1Kor 2.12-16
En við höfum ekki hlotið anda heimsins heldur andann sem er frá Guði, til þess að við skulum vita hvað Guð hefur gefið okkur. Enda segjum við það ekki með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir og útlistum andleg efni á andlegan hátt. Jarðbundinn maður hafnar því sem andi Guðs boðar, honum er það heimska. Hann getur ekki skilið það af því að andinn veitir skilninginn. En sá sem hefur andann dæmir um allt en enginn getur dæmt um hann. Því að hver hefur þekkt huga Drottins að hann geti frætt hann? En við höfum huga Krists.
Guðspjall: Jóh 14.15-21
Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“