Siðbótardagurinn (31. október) – síðasti sunnudagur í október
Siðbótardagurinn (31. október) – síðasti sunnudagur í október
Bæn dagsins / kollektan
Guð, frelsa okkur frá okkar óttablöndnu þörf fyrir að réttlæta okkur fyrir augliti þínu.
Rétt og réttlát erum við eingöngu fyrir Jesú Krist sem lifir og ríkir með föður og anda og
hefur á öllu vald til eilífðar. Amen.
Lexía: Jer 31.31-34
Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn.
Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim
og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir
Drottinn. Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir,
segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð
þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og
segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun
fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.
Pistill: Róm 3.21-28
En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist
ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist.
Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án
þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð
hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær
syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er
sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú. Hver getur þá hrósað sér? Enginn. Eða af
hvaða lögmáli ætti það að vera? Verkanna? Nei, heldur af lögmáli trúar. Ég álít að maðurinn
réttlætist af trú án lögmálsverka.
Guðspjall: Jóh 8.31-36
Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi
eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera
yður frjálsa.“
Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns
þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“
Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll
syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og
ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir.
Sálmur Sb 728
Ljósfaðir, viltu lýsa mér
langan dag, myrka nótt,
vekja minn hug til varnar skjótt
ef vélráðin á mér tökum ná,
beina mér brautina á.
2. Ljósfaðir, viltu vera mér
vinarhönd, lífsins blóm,
opna míns hjarta helgidóm
og hamingjudaga minna á,
beina mér blekkingum frá.
3. Ljósfaðir, viltu vernda mig,
veita mér öruggt skjól,
hefja til vegs þitt höfuðból
svo heimurinn allur sjái það,
beina mér bjargráðum að.
4. Ljósfaðir, viltu leiða mig,
ljá mér þinn sterka arm,
svala þorsta og sefa harm,
í sannleika skapa undur ný,
beina mér birtuna í.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson.