23. sunnudagur eftir trinitatis (Kristniboðsdagurinn) - Kirkjan í heiminum
23. sunnudagur eftir trinitatis (Kristniboðsdagurinn)- Kirkjan í heiminum
Litur: Grænn.
Konungi konunganna og Drottni drottnanna sem einn hefur ódauðleika honum sé heiður og eilífur máttur. (sbr. 1. Tím. 6,15-16).
Kollekta:
Drottinn Guð, við biðjum þig: Fyrirgef misgjörðir lýðs þíns. Leys okkur í mildi þinni úr viðjum syndanna sem við í breyskleika höfum á okkur lagt. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 1Kon 17.8-16
Þá kom orð Drottins til Elía:
„Búðu þig og farðu til Sarefta sem er rétt hjá Sídon og sestu þar að. Ég hef falið ekkju nokkurri, sem þar býr, að fæða þig.“
Elía bjóst til ferðar og hélt af stað til Sarefta. Þegar hann kom að borgarhliðinu var þar ekkja nokkur að tína saman sprek. Hann kallaði til hennar og sagði: „Færðu mér vatnssopa í krús að drekka.“ Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði hann til hennar: „Færðu mér brauðbita um leið.“ En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ Elía sagði við hana: „Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.“ Ekkjan fór og gerði eins og Elía hafði sagt. Höfðu hún, Elía og sonur hennar, öll nóg að borða um langa hríð. Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.
Pistill: Post 20.32-35
Og nú fel ég ykkur Guði og orði náðar hans sem getur styrkt trú ykkar og veitt ykkur hlutdeild í ríki hans ásamt öllum þeim sem helgaðir eru. Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns. Sjálfir vitið þið að þessar hendur unnu fyrir öllu því er ég þurfti með og þeir er með mér voru. Í öllu sýndi ég ykkur að með því að vinna þannig ber okkur að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú sjálfs er hann sagði: Sælla er að gefa en þiggja.“
Guðspjall: Mrk 12.41-44
Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“