Sumardagurinn fyrsti (Fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl).
Sumardagurinn fyrsti (Fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl).
Litur rauður.
Vers.
Svo lengi sem jörðin stendur skal hvorki linna sáningu né uppskeru, frosti né hita, sumri né
vetri, degi né nóttu. 1M 8.22
Bæn dagsins / kollektan
Miskunnsami Guð og faðir, þú seður allt sem lifir með blessun. Gef að við minnumst ætið
forsjónar þinnar og þjónum þér í ábyrgð og trúmennsku. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist
sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda. Einn Guð um aldir alda. Amen
Lexía: Slm 67
Guð sé oss náðugur og blessi oss,
hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor
svo að þekkja megi veg þinn á jörðinni
og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
Lýðir skulu lofa þig, Guð,
þig skulu allar þjóðir lofa.
Lýðir skulu gleðjast og fagna
því að þú dæmir þjóðirnar réttvíslega
og leiðir lýði á jörðinni.
Lýðir skulu lofa þig, Guð,
þig skulu allar þjóðir lofa.
Jörðin hefur gefið ávöxt sinn,
Guð, vor Guð, blessi oss,
Guð blessi oss
svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
Pistill: Fil 4.4-9
Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum
mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir
ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum
skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.
Að endingu, systkin,[ allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert
og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera
þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með
ykkur.
Guðspjall: Lúk 17.11-19
Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er
hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp
raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá
svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og
lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var
Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess
að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann:
„Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“
Sálmur Sb.759
1 Dýrðlegt kemur sumar með sól og blóm,
senn fer allt að vakna með lofsöngsróm,
vængjaþytur heyrist í himingeim,
hýrnar yfir landi' af þeim fuglasveim.
2 Hærra' og hærra stígur á himinból
hetja lífsins sterka - hin milda sól,
geislastraumum hellir á höf og fjöll,
hlær svo roðna vellir og bráðnar mjöll.
3 Gróðurmagnað lífsaflið leysist skjótt,
læsir sig um fræin er sváfu rótt,
vakna þau af blundi' og sér bylta' í mold,
blessa Guð um leið og þau rísa' úr fold.
4 Guði' sé lof er sumarið gefur blítt,
gefur líka' í hjörtunum sumar nýtt,
taka' að vaxa ávextir andans brátt
eilíf þar sem náðin fær vöxt og mátt.
5 Blessuð sumardýrðin um láð og lá
lífsins færir boðskap oss himnum frá:
„Vakna þú sem sefur, því sumar skjótt
sigrað kuldann hefur og vetrarnótt.“
T Friðrik Friðriksson, 1917 – Sb. 1945