Sumardagurinn fyrsti / Dagur jarðar (Fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl).
Sumardagurinn fyrsti / Dagur jarðar
Litur rauður.
Vers :
Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er,
heimurinn og þeir sem í honum búa, Sálm 24.1
Bæn dagsins / kollektan
Góði Guð, allt sem þú hefur skapað er undir þinni vernd. Hjálpa okkur til að taka þátt í
umhyggju þinni fyrir jörðinni og bera virðingu fyrir sköpun þinni. Gef okkur náð til að elska
hana eins og nákominn ættingja, þiggja með þökkum það sem hún gefur en ræna ekki því
sem hún þarf fyrir sig. Þess biðjum við í Jesú nafni. Amen
Lexía 1M 4.4b-8,15
Á þeim degi er Drottinn Guð gerði himin og jörð var enginn runni merkurinnar til á jörðinni
og engar jurtir spruttu því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina. Og þar var
enginn maður til þess að yrkja landið. En móðu lagði upp af jörðinni sem vökvaði allt
landið. Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig
varð maðurinn lifandi vera.
Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden, í austri, og setti þar manninn sem hann hafði
mótað. Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og
gæta hans.
Pistill 1.Kor.3. 18-23
Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur ykkar þykist vitur í þessum heimi verði hann fyrst
heimskur til þess að hann verði vitur. Því að speki þessa heims er heimska í augum Guðs.
Ritað er:
Hann er sá sem sér við klækjum hinna vitru. Og aftur:
Drottinn veit að hugsanir vitringanna eru fánýtar.
Þess vegna stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er ykkar hvort heldur er Páll, Apollós
eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er ykkar. En þið
eruð Krists og Kristur Guðs.
Guðspjall Mt. 5. 13-16
Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt,
menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur
ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós
yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.
Sálmur. Sb 448
1 Það sem augu mín sjá er þín sól
og þitt sumar um úthöf og lönd.
Ég á von og þú veist hvar ég stend,
ég á veröld sem talar sitt mál.
Ég elska, faðir, grasið grænt og gullið skin og hlýjan blæ,
ég elska, faðir, lind í mó og lítinn fugl við ský.
Mér skín við augum sköpun hrein og ný.
2 Með þér skapa ég umhverfið allt
sem er umgjörð míns lífs hér á jörð
og þú gafst mér þess auð og þess arð
og þess eyðing og vernd er mér skylt.
Ég elska, faðir ...
3 Blástu, vindur minn, þar sem þú vilt
um hinn víða og frjósama garð
því ég held þar í von minni vörð
hvort sem verða mun hlýtt eða kalt.
Ég elska, faðir ...
4 Lát anda þinn gæta hans, Guð,
og garðstíg hvern óma af söng.
Sjá, litrófið glóir. Ég geng
undir glitrandi regnbogans hlið.
Ég elska, faðir ...
T Hjörtur Pálsson 2007 – Vb. 2013