6. (Síðasti) sunnudagur eftir þrettánda – Ummyndun / Bænadagur á vetri
Litur: Hvítur.Vers vikunnar: Jes 60.2
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Kollekta:
Guð, sem staðfestir leyndardóma trúarinnar fyrir dýrlega ummyndun þíns elskaða sonar: Veit af náð þinni að við megum verða samarfar ríkis hans og hluttakendur í dýrð hans sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 5Mós 18.15-19
Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Hann mun að öllu leyti uppfylla það sem þú baðst Drottin, Guð þinn, um á Hóreb daginn sem þið komuð þar saman og þú sagðir: „Lát mig ekki heyra aftur þrumuraust Drottins, Guðs míns, né líta aftur þennan mikla eld svo að ég deyi ekki.“ Þá sagði Drottinn við mig: „Það sem þeir segja er rétt.
Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.
Pistill: 2Pét 1.16-21
Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.
Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.
Guðspjall: Matt 17.1-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“
Sálmur: 119
Þótt holdið liggi lágt og læst í dróma,
fær andinn hafist hátt
í himinljóma.
Hann fylgir Drottni
fjalls á tindinn bjarta,
þar fögur útsjón er,
Guðs undradjúp þar sér
hið hreina hjarta.
Hér niðri’ á láði’ er lágt
og ljósi fjarri,
í trúarhæð er hátt
og himni nærri.
Þar er svo hátt,
að hverfur allt hið smáa,
hið lága færist fjær,
en færist aftur nær
hið helga’ og háa.
Hér niðri’ í djúpum dal
er dimman svarta,
þar uppi’ í svölum sal
skín sólin bjarta.
Þar er svo bjart,
að birtast huldir vegir,
í gegnum grafarhúm,
í gegnum tíma’ og rúm
þá augað eygir.
Ó, hér er hark og stríð
og hávær glaumur,
en þar er þögn svo blíð
sem þögull draumur.
Þar er svo hljótt,
að hverfur tímans niður,
Guðs hjarta heyrist slá,
í hjarta mínu þá
býr fró og friður.
Þar tignartindi á
ég tjald vil gera,
þar góðum Guði hjá
er gott að vera
og ummyndast
og búast björtum klæðum
og öðlast eilíft skart,
með andlit sólarbjart,
á helgum hæðum.
Ég bjart lít blika ský
á banadegi,
raust heyri eg þar í:
“Minn elskulegi”!
Þá skyggir dauðans
ský á lífsins blóma,
mig enginn ótti slær,
mér einn er Jesús nær
í ljóssins ljóma.
Sb. 1886 – Valdimar Briem