Nýársdagur – 1. janúar – Í Jesú nafni - Áttidagur jóla - Í nafni Drottins. Í Jesú nafni. Á Guðs vegi
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. (Heb 13.8)
Kollekta:
Drottinn Guð, eilífi faðir sem gafst okkur einkason þinn að frelsara og bauðst að hann skyldi heita Jesús: Veit okkur af náð þinni, að við sem tignum heilagt nafn hans á jörðu fáum hann sjálfan að sjá og tilbiðja á himnum því að hann lifir og ríkir með þér í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Slm 90.1b-4, 12
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Pistill: Gal 3.23-29
Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
Guðspjall: Lúk 2.21
Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi.
Sálmur: 75
Í Jesú nafni áfram enn
með ári nýju, kristnir menn,
það nafn um árs- og ævispor
sé æðsta gleði’ og blessun vor.
Í nafni hans æ nýtt er ár,
því nafni’, er græðir öll vor sár,
í nafni hans fá börnin blíð
Guðs blessun fyrst á ævitíð.
Í nafni hans sé niður sáð
með nýju vori’ í þiðnað láð,
í nafni hans Guðs orði á
á æskuvori snemma’ að sá.
Í nafni hans sé starf og stríð,
er stendur hæst um sumartíð,
í nafni hans sé lögð vor leið
um lífsins starfs- og þroskaskeið.
Í nafni hans, þótt haust sé kalt,
vér horfum glaðir fram á allt,
í nafni hans, er þróttur þver,
vér þráum líf, sem betra er.
Í nafni hans vér hljótum ró,
er hulin jörð er vetrarsnjó,
í nafni hans fær sofnað sætt
með silfurhárum ellin grætt.
Í Jesú nafni endar ár,
er oss er fæddur Drottinn hár,
í Jesú nafni lykti líf,
hans lausnarnafn þá sé vor hlíf.
Á hverri árs- og ævitíð
er allt að breytast fyrr og síð.
Þótt breytist allt, þó einn er jafn,
um eilífð ber hann Jesú nafn.
Valdimar Briem