Uppstigningardagur Herra himins og jarðar. Hann mun ríkja.
Litur: Hvítur.
Vers Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Jóh. 12.32
Kollekta:
Alvaldi, eilífi Guð. Við biðjum þig: Gef að við sem trúum því að einkasonur þinn, Jesús Kristur, frelsari okkar sé upp stiginn til himna megum alltaf vera hjá honum með hug og hjarta og eilíflega fylgja honum sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Dan 7.13-14
Ég horfði á í nætursýnum
og sá þá einhvern koma á skýjum himins,
áþekkan mannssyni.
Hann kom til Hins aldna
og var leiddur fyrir hann.
Honum var falið valdið,
tignin og konungdæmið
og allir menn, þjóðir og tungur
skyldu lúta honum.
Veldi hans er eilíft
og líður aldrei undir lok,
á konungdæmi hans verður enginn endir.
Pistill: Post 1.1-11
Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt sem Jesús gerði og kenndi frá upphafi, allt til þess dags er hann varð upp numinn. Áður hafði hann gefið postulunum, sem hann hafði valið með heilögum anda, fyrirmæli sín. Hann birtist þeim eftir dauða sinn og sýndi þeim með órækum sönnunum að hann lifði. Hann lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki. Er Jesús neytti matar með þeim bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem heldur bíða eftir því sem faðirinn gaf fyrirheit um „og þér hafið heyrt mig tala um. Því að Jóhannes skírði með vatni en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“
Meðan þeir voru saman spurðu þeir hann: „Drottinn, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Hann svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir sem faðirinn hefur sjálfur ákveðið. En þér munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir yður og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Þegar hann hafði mælt þetta varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra. Er þeir störðu til himins á eftir honum þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“
Guðspjall: Mark 16.14-20
Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn. Jesús sagði við þá: „Farið út um allan heim og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða en sá sem trúir ekki mun dæmdur verða. En þessi tákn munu fylgja þeim er trúa: Í mínu nafni munu þeir reka út illa anda, tala nýjum tungum, taka upp höggorma og þó að þeir drekki eitthvað banvænt mun þeim ekki verða meint af. Yfir sjúka munu þeir leggja hendur og þeir verða heilir.“
Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði. Þeir fóru og prédikuðu hvarvetna og Drottinn var í verki með þeim og staðfesti boðun þeirra með táknum sem henni fylgdu.
Sálmur: 163
Vér horfum allir upp til þín,
í eilíft ljósið Guði hjá,
þar sem að dásöm dýrð þín skín,
vor Drottinn Jesús, himnum á.
Vorn huga, Drottinn, drag til þín
í dýrðarljómann jörðu frá,
því ekkert hnoss í heimi skín,
sem hjartað friða’ og gleðja má.
Og ekkert löngun hjartans hér
af heimsins gæðum seðja má.
Vér þráum líf, sem eilíft er,
og ætíð þér að vera hjá.
En styrk oss til að stríða hér,
að stríða synd og löstum mót.
Æ, veit oss náð að þóknast þér
og þig að elska’ af hjartans rót.
Páll Jónsson