18. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Æðsta boðorðið - Að hlusta í trú
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur. “ (1Jóh 4.21)
Kollekta:
Miskunnsami Guð við biðjum þig: Lát verk miskunnar þinnar stjórna hjörtum okkar því að án þín megnum við ekki að þóknast þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 2Mós 20.1-17
Drottinn mælti öll þessi orð:
„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
Þú skalt ekki morð fremja.
Þú skalt ekki drýgja hór.
Þú skalt ekki stela.
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“
Pistill: 1Kor 1.4-9
Ávallt þakka ég Guði mínum fyrir ykkur, hann hefur veitt ykkur náð sína í Kristi Jesú. Hann hefur auðgað ykkur á allan hátt svo að þið búið yfir allri mælsku og allri þekkingu. Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal ykkar svo að ykkur brestur ekki neina náðargjöf meðan þið væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun einnig styrkja ykkur allt til enda og gera ykkur óaðfinnanleg á degi Drottins vors Jesú Krists. Trúr er Guð sem hefur kallað ykkur til samfélags við son sinn Jesú Krist, Drottin vorn.
Guðspjall: Mrk 12.28-34
Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“
Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“
Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“
Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Og enginn þorði framar að spyrja hann.
Sálmur 458
Í gegnum lífsins æðar allar
fer ástargeisli, Drottinn, þinn,
í myrkrin út þín elska kallar,
og allur leiftrar geimurinn,
og máttug breytast myrkraból
í morgunstjörnur, tungl og sól.
En skærast, Guð minn, skín og ljómar
í skugga dauðans vera þín,
er röddin þinnar elsku ómar
í endurleystri sálu mín
og segir: Þú ert sonur minn,
því sjá þú, ég er faðir þinn.
Og aldrei skilur önd mín betur,
að ertu Guð og faðir minn,
en þegar eftir villuvetur
mig vermir aftur faðmur þinn,
og kærleiksljósið litla mitt
fær líf og yl við hjarta þitt.
Lát undur þinnar ástar vekja
upp elsku hreina' í hverri sál
og öfund burt og hatur hrekja
og heiftrækninnar slökkva bál.
Lát börn þín verða í elsku eitt
og elska þig, sinn föður, heitt.
Matthías Jochumsson