Jólanótt – 24.- 25. desember
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,“ (Jóh 1.14)
Kollekta:
Guð, þú sem hefur lýst upp þessa heilögu nótt með ljóma hins sanna ljóss, við biðjum þig: Gef að við sem skynjað höfum á jörðu leyndardóm þessa ljóss megum á himnum njóta fagnaðar þess. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og rikir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 9.1-6
Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma.
Pistill: Tít 2.11-14
Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
Guðspjall: Lúk 2.1-14
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.
Sálmur: 30
Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein,
það er nú heimsins þrautarmein
að þekkja’ hann ei sem bæri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Í Betlehem var það barnið fætt,
sem best hefur andar sárin grætt,
svo hafa englar um það rætt
sem endurlausnarinn væri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Fjármenn hrepptu fögnuð þann,
þeir fundu bæði Guð og mann,
í lágan stall var lagður hann,
þó lausnarinn heimsins væri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Lofið og dýrð á himnum hátt
honum með englum syngjum þrátt,
friður á jörðu og fengin sátt,
fagni því menn sem bæri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Þér gjöri’ eg ei rúm með grjót né tré,
gjarnan læt ég hitt í té,
vil ég mitt hjartað vaggan sé,
vertu nú hér, minn kæri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Umbúð verður engin hér
önnur en sú þú færðir mér,
hreina trúna að höfði þér
fyrir hægan koddann færi.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Á þig breiðist elskan sæt,
af öllum huga’ eg syndir græt,
fyrir iðran verður hún mjúk og mæt,
miður en þér þó bæri.
:,: Með vísnasöng ég vögguna þína hræri. :,:
Einar Sigurðsson í Heydölum