7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Við borð Drottins.
7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Við borð Drottins.
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna
heilögu og heimamenn Guðs.“ (Ef 2.19)
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn dýrðarinnar, þú sem gefur okkur allt sem við þörfnumst til að lifa, og gefur okkur
Jesú Krist, son þinn, hann sem er brauð lífsins. Opna hjörtu okkar og huga svo að við
meðtökum hversu ríkulega gæsku þú sýnir öllum mönnum í Jesú Kristi, bróður okkar og
Drottni. Amen.
Þriðja textaröð
Lexía Amos 8.11-12
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð,
að ég sendi hungur til landsins,
hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni,
heldur eftir orði Drottins.
Þá munu menn reika frá einu hafi til annars,
flakka frá norðri til austurs
og leita að orði Drottins
en þeir munu ekki finna það.
Pistill Hebr 13.1-6
Bróðurkærleikurinn haldist. Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst
engla án þess að vita. Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist
þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir.
Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla
og frillulífismenn mun Guð dæma.
Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun
ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ 6 Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Guðspjall Mt 16.5-12.
Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. Jesús sagði
við þá: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea.“ En lærisveinarnir ræddu sín á milli
að þeir hefðu ekki tekið brauð. Jesús varð þess vís og sagði: „Hvað eruð þið að tala um það,
trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna
fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Eða brauðanna sjö
handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Hvernig má það vera að þið
skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og
saddúkea.“ Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur
kenningu farísea og saddúkea.
Sálmur Sb 615
Gegnum hættur, gegnum neyð
göngum, Krists menn, vora leið.
Hvorki blöskri böl né kross,
brauðið lífsins styrkir oss.
Hræðumst engin sorgarsár,
sérhvert bráðum þornar tár.
Ótti hreki' oss ei af braut,
orkan vaxi' í hverri þraut.
Hugprúð gleðjist, hjörtu mædd,
herskrúðanum Drottins klædd.
Berjumst hart, ei hríð er löng,
hún mun enda' í gleðisöng.
Áfram því með dug og dáð,
Drottins studdir ást og náð.
Sé hann með oss, ekkert er
óttalegt. Þá sigrum vér.
Gegnum hættur, gegnum neyð
göngum, Krists menn, vora leið.
Hvorki blöskri böl né kross,
brauðið lífsins styrkir oss.
White - Maitland - Sb. 1886 - Stefán Thorarensen