Sjómannadagurinn Fyrsti sunnudagur í júní,eða annar þegar sá fyrsti er Hvítasunnudagur
Sjómannadagurinn
Fyrsti sunnudagur í júní,eða annar þegar sá fyrsti er Hvítasunnudagur
Lexía: Slm 107.1-2, 20-31, Pistill: Post 27.13-15, 20-25 Guðspjall: Matt 8.23-27
Litur hvítur eða rauður.
Vers:
Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu
að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Matt. 8.23-24.
Bæn dagsins / kollektan
Almáttugi Guð. Þú vakir í kærleika yfir öllu því sem þú hefur skapað á sjó og landi. Náð þín
er ný á hverjum morgni. Ger okkur minnug á gjafir þínar svo að við færum þér líf okkar að
þakkarfórn. Hjálpa okkur að lúta vilja þínum og treysta forsjón þinni eins og fiskimennirnir,
fyrstu lærisveinar Jesú forðum. Við biðjum í nafni hans. Amen
Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra,
sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
Pistill: Post 27.13-15, 20-25
Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og
sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn
illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan
og létum reka.
Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll
von um að við kæmumst af.
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir
menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá
hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun
lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég
heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur
gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að
svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.
Guðspjall: Matt 8.23-27
Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu
að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn,
bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á
vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða
honum.“