22. sunnudagur eftir trinitatis: Í skuld við Guð / / Ótakmörkuð fyrirgefning
22. sunnudagur eftir trinitatis:
Í skuld við Guð / / Ótakmörkuð fyrirgefning
Hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttist þig. Sálm. 130,4.
Litur: Grænn.
Bæn dagsins / kollektan
Heilagi Guð, kærleikur þinn vinnur bug á valdi hins illa. Við biðjum þig: hjálpa okkur að
breytast og batna, svo að við elskum hvert annað eins og þú elskar okkur, að við fyrirgefum
hvert öðru, eins og þú fyrirgefur okkur, og styðjum hvert annað eins og þú styður okkur, til
þess að fyrirgefningin megi móta heiminn. Þér sé lof að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían Nehemía 9. 16-20
(En þeir, )feður vorir, fylltust hroka,
urðu harðsvíraðir og hlýddu ekki boðum þínum.
Þeir vildu ekki hlýða
og minntust ekki máttarverka þinna sem þú vannst fyrir þá.
Þeir þverskölluðust og einsettu sér
að halda aftur í þrælkunina í Egyptalandi.
En þú ert Guð sem fyrirgefur,
náðugur og miskunnsamur,
seinn til reiði og gæskuríkur
og þú yfirgafst þá ekki.
Þeir gerðu sér meira að segja steyptan kálf
og sögðu: „Þetta er Guð þinn sem leiddi þig út úr Egyptalandi,“
og guðlöstuðu ákaflega.
En þrátt fyrir þetta yfirgafstu þá ekki í eyðimörkinni
vegna þinnar miklu miskunnsemi:
skýstólpinn vék ekki frá þeim
heldur leiddi þá um daga
og eldstólpinn um nætur
til að lýsa þeim veginn
sem þeir áttu að ganga.
Þú gafst þeim þinn góða anda til að auka þeim skilning.
Pistill Jóh. 3. 19-24
Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu
okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er
meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við
djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum
boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt.Og þetta er hans boðorð, að við skulum
trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið
okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann
er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.
Guðspjallið Matt. 5. 21-26
Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea komist þér aldrei í
himnaríki.
Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur
skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til
saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem
svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess
þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið,
fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.
Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum til þess að
hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í
fangelsi. Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan fyrr en þú hefur borgað síðasta
eyri.
Sálmur Sb 644
1. Mér er fyrirgefið,
Drottinn gaf sitt líf.
Þér sé dýrð og vegsemd,
mín er krossins hlíf.
2. Leiðir mig og styrkir,
lausnari ertu minn.
Þér sé dýrð og vegsemd,
lífgar andi þinn.
3. Þarf ég ei að óttast,
því þú ert mér.
Þér sé dýrð og vegsemd,
þér ég treysta má.
Gísli Jónasson