5.sunnudagur í föstu (Iudica) Guðs lambið / Endurlausnarinn
5.sunnudagur í föstu.(Iudica)Guðs lambið / Endurlausnarinn
Ef boðunar Maríu er minnst með sérstakri messu 25. mars þá eru lesnir textar 5. sunnudags í föstu. Litur er þá fjólublár og Dýrðarsöngur/lofgjörð eru ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Ég helga mig fyrir þá svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.“ (Jóh 17.19)
Kollekta:
Almáttugi Guð, við biðjum þig. Lít í líkn til okkar, barna þinna og lát gæsku þína leiða okkur og vernda til lífs og sálar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1M 22.1-13
Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“
Og hann svaraði: „Hér er ég.“
Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“
Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“
Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd.
Og þeir gengu báðir saman.
Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“
Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“
Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“
Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“
Og þeir gengu báðir saman.
Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“
Og hann svaraði: „Hér er ég.“
Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“
Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.
Pistill: Hebr. 7. 24-27
En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá sem hann leiðir fram fyrir Guð þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.
Slíks æðsta prests höfðum við þörf sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll er hann fórnfærði sjálfum sér.
Guðspjall: Mrk 10.35-45
Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“
Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“
Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“
Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“
Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“
Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“
Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“