Þorláksmessa - 23. desember
Helgihald er lítið í lútherskum sið á Þorláksmessu. Í sumum fjölskyldum er þó venja að nota daginn meðal annars til að vitja um leiði ástvina sinna, ef það er ekki mögulegt á aðfangadag. Ritningartextar Þorláksmessu eru tilefni til umhugsunar jafnt þeirra sem minnast sinna nánustu eins og þeirra sem minnast vilja Þorláks helga. Hvers er minnst á Þorláksmessu? Því svaraði Gissur Einarsson biskup í Skálholti þannig: Að vér eftirfylgjum trú þeirra, kærleika, staðfestu og þolinmæði og höfum þá oss til eftirdæmis, af því að þeir fyrir einskæra náð Guðs trúðu á Krist, elskuðu náungann með glóandi ást, stóðu staðfastir í trúnni, og játningu trúarinnar og þoldu dauða í þolinmæði fyrir sakir Jesú Krists og eru meðteknir í Guðs ríki. Einnig skulum vér sem hvött erum með þessum dæmum biðja Guð auðmjúklega að hann gefi oss sem enn stríðum í þessu veraldar lífi einnig að hlutskipti slíka trú, kærleika, stöðuglyndi og þolinmæði og gæti vor með náð sinni, svo að eins og þeir eru geymdir í öruggum stað megum vér fylgja á eftir þeim um síðir er vér skulum vissulega deyja. Amen. (Úr umburðarbréfi Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti)
Vers vikunnar:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, lít í náð þinni til kirkju þinnar hér á jörðu. Styrk söfnuð þinn og gef kirkjunni eindrægni og frið. Kenn leiðtogum kirkjudeildanna að taka saman höndum yfir hindranir og múra. Leiðbein þeim sem freistast og vísa villráfandi á rétta leið. Styrk með huggun þinni þau sem líða skort til lífs eða sálar.Lát söfnuð þinn undirbúa í einlægni og trúartrausti hina helgu hátíð er þú kemur til mannanna lítið barn á jólum. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists. Amen.
Þriðja lestrraöð
Pistill: Heb 13.7-17
Minnist leiðtoga ykkar sem Guðs orð hafa til ykkar talað. Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Látið ekki ýmiss konar framandi kenningar afvegaleiða ykkur. Látið náð Guðs næra hjartað, ekki mat af ýmsu tagi. Þeir sem sinntu slíku höfðu eigi happ af því.
Við höfum altari og þeir er tjaldbúðinni þjóna hafa ekki leyfi til að neyta þess sem á því er. Æðsti presturinn ber blóð dýranna inn í helgidóminn til syndafórnar en hræ þeirra eru brennd fyrir utan herbúðirnar. Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.
Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát. Þeir vaka yfir sálum ykkar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlát til þess að þeir geti gert það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri ykkur til ógagns.
Guðspjall: Matt 24.42-47
Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.
Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.