8. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Ávextir andans
8. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Ávextir andans
Vers vikunnar:
„Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti
og sannleikur.“ (Ef 5.8b-9)
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Jesús Kristur. Þú sem kallar söfnuð þinn til að vera salt jarðar og ljós heimsins, við
biðjum þig. Hjálpa okkur til að vera ekki treg heldur tilbúin til að þjóna þér og bera ljós
miskunnar þinnar inn í dimmu þessa heims. Lofað sé nafn þitt að eilífu. Amen.
Þriðja textaröð
Lexía Jes 2.1-5
Þetta er það sem Jesaja Amotssyni vitraðist um Júda og Jerúsalem. Það skal verða á komandi
dögum að fjallið, sem hús Drottins stendur á, bifast ekki, það ber yfir hæstu fjallstinda og
gnæfir yfir allar hæðir. Þangað munu allar þjóðir streyma og margir lýðir koma og segja:
„Komið, göngum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs svo að hann vísi oss vegu sína og
vér getum gengið brautir hans.“ Því að fyrirmæli koma frá Síon, orð Drottins frá
Jerúsalem. Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær
munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð
reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Ættmenn Jakobs, komið,
göngum í ljósi Drottins
Pistill 2Kor 4. 5-7
Ekki prédika ég sjálfan mig heldur prédika ég að Kristur Jesús sé Drottinn og hann sendi mig
til að vera þjónn ykkar. Því að Guð sem sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína
í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu
Jesú Krists. En þennan fjársjóð ber ég í leirkerum til þess að sýna að krafturinn mikli kemur
frá Guði en ekki frá mér.
Guðspjall Mt 7.12-14
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er
lögmálið og spámennirnir. Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn
breiður sem liggur til glötunar og margir þeir sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og
mjór sá vegur er liggur til lífsins og fáir þeir sem finna hann.
Sálmur Sb 404
Guð sem skapar líf og ljós,
lætur vakna hverja rós.
Hann er Guð sem gefur þér
góðan dag og einnig mér.
Myrkrið hrekur hann á braut,
hjálpar vel í sorg og þraut.
Hvert sem leiðin liggur þín
lýsir hann þér heim til sín.
Láttu, Drottinn, lýsa enn
ljósið þitt, svo allir menn
hér á jörðu, hvar sem er,
heiðri þig og fylgi þér.
Kristján Valur Ingólfsson