23. sunnudagur eftir trinitatis: - Kirkjan í heiminum
23. sunnudagur eftir trinitatis:
- Kirkjan í heiminum
Konungi konunganna og Drottni drottnanna sem einn hefur ódauðleika honum sé heiður og
eilífur máttur. (sbr. 1. Tím. 6,15-16).
Bæn dagsins / kollektan
Guð, þú sem einn ert Drottinn, gef okkur kjark til að fylgja kalli þínu og taka þá áhættu sem
felst í frelsinu sem þú kallar okkur til, fyrir Jesú Krist, bróður okkar og Drottinn. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía, Sálm. 50. 14-15, 23
Færðu Guði þakkarfórn
og efndu heit þín við Hinn hæsta.
Ákalla mig á degi neyðarinnar
og ég mun frelsa þig
og þú skalt vegsama mig.“
Sá sem færir þakkarfórn heiðrar mig
og þann sem breytir grandvarlega
læt ég sjá hjálpræði Guðs.
Pistill 2. Kor. 8. 1-8
En svo vil ég, bræður mínir og systur skýra ykkur frá þeirri náð sem Guð hefur sýnt
söfnuðunum í Makedóníu. Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna
hefur hin ríka gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get vottað
það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín. Af eigin hvötum lögðu þeir fast
að mér og báðu um að mega taka þátt í samskotunum til hinna heilögu. Og þeir gerðu betur
en ég hafði vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni og síðan mér að vilja Guðs. Það
varð til þess að ég bað Títus að hann skyldi og leiða til lykta hjá ykkur þessa gjöf eins og
hann hefur byrjað. Þið skarið fram úr í öllu, í trú, í mælsku og þekkingu, í allri alúð og í elsku
ykkar sem ég hef vakið.Þannig skuluð þið skara fram úr í þessari gjöf. Ég segi þetta ekki sem
skipun heldur er ég að ganga úr skugga um hvort kærleiki ykkar sé einlægur samanborið við
ósérplægni annarra.
Guðspjallið Matt. 6. 1-4
Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður
yðar á himnum.
Þegar þú gefur ölmusu skaltu ekki láta þeyta lúður fyrir þér eins og hræsnarar gera í
samkunduhúsum og á strætum til þess að hljóta lof af mönnum. Sannlega segi ég yður, þeir
hafa tekið út laun sín.
En þegar þú gefur ölmusu viti vinstri hönd þín ekki hvað sú hægri gerir svo að ölmusa þín sé
í leynum og faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.
Sálmur Sb 566
1 Frá þér er, faðir, þrek og vit,
öll þekking, ást og trú.
Kenn oss að þakka einum þér
það allt sem gefur þú.
2 Og allt sem hver úr býtum ber
er bróðurskerfur hans
sem bæta skal í þökk til þín
úr þörfum annars manns.
3 En lát þann dag oss ljóma brátt
er losna böndin hörð
og réttur þinn og ríki fær
öll ráð á vorri jörð.
4 Þá allt sem lifir lofar þig
og lýtur þinni stjórn
og brosir heiðum himni við
í helgri þakkarfórn.
T Charles Kingsley um 1871 – Sigurbjörn Einarsson – Sb. 1972