Fullveldisdagurinn 1. desember
Vers vikunnar:
Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
sem einn vinnur máttarverk.
Lofað sé hans dýrlega nafn um aldur og ævi
og öll jörðin fyllist dýrð hans! (Sálm 72.18-19)
Kollekta:
Almáttugi Guð sem hefur gefið okkur land þar sem við höfum frelsi til að játa þitt heilaga nafn, tilbiðja þig og þjóna þér og leita ríkis þíns: Við biðjum þig að kenna okkur að meta þessa gjöf, varðveita hana og ávaxta til eilífra heilla fyrir okkur og komandi kynslóðir. Fyrir son þinn Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Lexía: Jer 7. 1-7
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“ Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.
Róm 13. 3- 8
Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdhafa heldur sá sem vinnur vond verk. Viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöld skaltu gera það sem gott er og þá færðu þeirra lof, því að þau þjóna Guði þér til góðs. En ef þú gerir það sem illt er þá máttu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverð sitt ófyrirsynju. Þau þjóna Guði og er skylt að refsa þeim sem illt fremja.Því er nauðsyn að hlýðnast, ekki aðeins af ótta við hegningu heldur og vegna samvisku sinnar. Enda er það þess vegna sem þið gjaldið skatta, að valdhafar eru þjónar Guðs í því sem þeir eiga að annast. Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt sem skattur ber, þeim virðingu sem virðing ber, þeim heiður sem heiður ber. Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.
Guðspjall: Jóh. 15. 9-12
(Jesús sagði) Ég hef elskað yður eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðug í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.
Sálmur 784
Ísland ögrum skorið,
eg vil nefna þig
sem á brjóstum borið
og blessað hefur mig
fyrir skikkan skaparans.
Vertu blessað, blessi þig
blessað nafnið hans.
Ísland ögrum skorið,
eg vil nefna þig
:,: sem á brjóstum borið
og blessað hefur mig. :,: