11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Farísei og tollheimtumaður. Trú og líf
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð.“ (1Pét 5.5b)
Kollekta:
Algóði, eilífi Guð. Þú ert fúsari að heyra en við að biðja og veitir okkur langt yfir allt það fram sem við óskum og verðskuldum: Lát gnægð gæsku þinnar og miskunnar koma yfir okkur svo að þú megir afmá það allt, sem hrellir samviskuna og að auki veita þá blessun sem við kunnum ekki um að biðja. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Lexía: 2Sam 12.1-10, 13-15
Drottinn sendi nú Natan til Davíðs. Þegar hann kom til hans sagði hann: „Í borg einni bjuggu tveir menn. Annar var ríkur en hinn fátækur. Ríki maðurinn átti fjölda sauða og nauta en sá fátæki átti aðeins eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann fóðraði það og það dafnaði hjá honum og með börnum hans. Það át af brauði hans, drakk úr krús hans, svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. Einhverju sinni kom gestur til ríka mannsins. En hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matreiða handa ferðamanninum sem kominn var til hans. Hann tók því lamb fátæka mannsins og matbjó það handa komumanni.“
Þá reiddist Davíð þessum manni ákaflega og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur. Hann skal bæta lambið með fjórum lömbum af því að hann sýndi slíkt miskunnarleysi.“
Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael og ég bjargaði þér úr hendi Sáls. Ég gaf þér fjölskyldu herra þíns og lagði konur herra þíns í faðm þinn. Ég gaf þér Ísrael og Júda og hafi það verið of lítið gef ég þér gjarnan margt fleira. Hvers vegna hefur þú lítilsvirt orð Drottins og gert það sem illt er í augum hans? Þú hjóst Hetítann Úría með sverði. Þú tókst eiginkonu hans þér fyrir konu og felldir hann með sverði Ammóníta. Vegna þess að þú smánaðir mig og tókst þér eiginkonu Hetítans Úría fyrir konu skal sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni.
Þá sagði Davíð við Natan: „Ég hef syndgað gegn Drottni.“
Natan svaraði: „Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja. En vegna þess að þú hefur gefið óvinum Drottins tilefni til að smána hann mun sonur þinn, sem fæðist innan skamms, deyja.“
Síðan fór Natan heim til sín.
Pistill: Róm 3.21-26
En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.
Guðspjall: Lúk 18.9-14
Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“
Sálmur: 189
Í Guðs hús forðum gengu tveir,
sinn Guð að biðja fóru þeir.
Um laun bað annar, sagðist sýkn,
hinn sekur kvaðst og bað um líkn.
Í herrans geng ég hús sem þeir,
en hvorum þeirra’ eg líkist meir?
Sem Farísei’ eg einatt er,
og oft ég hrósa sjálfum mér,
og þó ei neitt ég hrósvert hef,
ó, Herra Guð minn, fyrirgef,
og gef mér hreinna hugarfar,
sem hins, er stóð þar álengdar.
Ég þori varla að horfa hátt
til himins upp, en þú sér lágt.
Í skæru ljósi’ ei skynja ég þig,
í skugganum þó sér þú mig.
Ég veit þú telur tárin mín,
þó telja ei kunni ég ástverk þín.
Þá hryggur ég á brjóst mér ber,
ég ber á náðardyr hjá þér,
ég bið, að opnist brjóstið mitt,
ég bið, að opnist ríki þitt,
ég bið mín synd sé burtu máð,
en brjóst mitt fyllist þinni náð.
Valdimar Briem