Sunnudagur milli jóla og nýárs Símeon og Anna
Sunnudagur milli jóla og nýárs
Símeon og Anna /
Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans. Jóh. 1.14a
Litur: Hvítur.
Þriðja lestraröð
Bæn dagsins / kollektan
Almáttugi Guð friðarins og gleðinnar. Í barninu í jötunni lætur þú okkur sjá dýrð þína. Opna
augu okkar og eyru svo við tökum á móti henni. Opna varir okkar til lofsöngs. Opna hjörtu
okkar og bú þar til vöggu fyrir barnið Jesú. Þér sé lof og dýrð að eilífu.
Lexía I. Sam 2:18-20, 26
Þótt Samúel væri ungur að árum þjónaði hann frammi fyrir augliti Drottins, klæddur línhökli.
Þegar móðir hans fór upp eftir með manni sínum til að færa hina árlegu sláturfórn gerði hún
jafnan litla yfirhöfn og færði honum.
Elí blessaði þá Elkana og konu hans og sagði: „Drottinn gefi þér barn með þessari konu í stað
þess sem Drottinn bað um og hún gaf honum.“
Síðan fóru þau heim og Drottinn var Hönnu náðugur. Hún varð þunguð og fæddi þrjá syni og
tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni.
En sveinninn Samúel óx og dafnaði og var þekkur bæði Guði og mönnum.
Pistill II. Tim. 3:14-15
En halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á þar eð þú veist af
hverjum þú hefur numið það Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta
veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.
Guðspjall Matt. 12:46-50
Meðan Jesús var enn að tala við fólkið komu móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu
tala við hann. Einhver sagði við hann: „Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við
þig.“ Jesús svaraði þeim er við hann mælti: „Hver er móðir mín og hverjir eru bræður mínir?“
Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: „Hér er móðir mín og bræður mínir.
Hver sem gerir vilja föður míns sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir.“
Sálmur sb 226
Viðlag: Við setjumst hér í hringinn
og hendur mætast þá,
en systkin öll við erum
og engum gleyma má.
1. Því Jesús elskar alla
og alla jörð á hann.
Hann veitir okkur vini
og verndar sérhvern mann.
Við setjumst ...
2. Lof syngjum Guði góðum
sem gefur líf og von
og sendir hátt úr hæðum
til hjálpar eigin son.
Við setjumst ...
Margareta Melin, Kristján Valur Ingólfsson