Jónsmessa – 24. júní
Jónsmessa – 24. júní
Lexía: Jes 40.1-8 Pistill: Post 17.22-31 Guðspjall: Lúk 1.57-66
Litur hvítur
Vers.
Hann á að vaxa en ég að minnka.“Jóh.3.10
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Guð, upphaf og skapari alls ljóss. Þú valdir Jóhannes í móðurlífi til að bera vitni
um ljósið sem upplýsir öll börnin þín. Við biðjum þig: Gef okkur náð til þess að helga
líf okkar því ljósi eins og Jóhannes, svo að Kristur vaxi og verði máttugur í okkur
Fyrir son þinn Drottinn Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda frá eilífð
til eilífðar.
S Amen.
Lexían Jes. 40. 1-8
Huggið, huggið lýð minn,
segir Guð yðar.
Hughreystið Jerúsalem
og boðið henni
að áþján hennar sé á enda,
að sekt hennar sé goldin,
að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins
fyrir allar syndir sínar.
Heyr, kallað er:
„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,
sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
og hamrar að dalagrundum.
Þá mun dýrð Drottins birtast
og allt hold sjá það samtímis
því að Drottinn hefur boðað það.“
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“
Pistillinn Post. 19.1-7
Meðan Apollós var í Korintu fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir
nokkra lærisveina. Hann sagði við þá: „Fenguð þið heilagan anda er þið tókuð trú?“
Þeir svöruðu: „Nei, við höfum ekki einu sinni heyrt að heilagur andi sé til.“
Hann sagði: „Upp á hvað eruð þið þá skírðir?“
Þeir sögðu: „Skírn Jóhannesar.“
Þá mælti Páll: „Jóhannes skírði iðrunarskírn[ og sagði fólkinu að trúa á þann sem eftir sig
kæmi, það er á Jesú.“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú. Er Páll hafði lagt
hendur yfir þá kom heilagur andi yfir þá og þeir töluðu tungum og fluttu spámannlegan
boðskap. Þessir menn voru alls um tólf.
Guðspjallið Lúk. 1, 57-67 (68-75)76-80
Nú kom sá tími að Elísabet skyldi verða léttari og ól hún son. Og nágrannar hennar og
ættmenn heyrðu hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni og samfögnuðu henni.
Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið
á föður sínum. Þá mælti móðir hans: „Eigi skal hann svo heita heldur Jóhannes.“
En þeir sögðu við hana: „Enginn er í ætt þinni sem heitir því nafni.“ Bentu þeir þá föður
hans að hann léti þá vita hvað sveinninn skyldi heita.
Hann bað um spjald og reit: „Jóhannes er nafn hans,“ og urðu þeir allir undrandi. Jafnskjótt
laukst upp munnur hans og tunga. Hann fór að tala og lofaði Guð. En ótta sló á alla nágranna
þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu. Og allir, sem
þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: „Hvers má vænta af þessu barni?“ Því að hönd
Drottins var með honum.
Sálmur á Jónsmessu (er ekki lengur í Sálmabók) Lag: Skaparinn stjarna (Sb. 14)
Eilífum Föður öll hans hjörð
af hjarta syngi þakkargjörð,
með sinnar náðar sætu orð
sendi Jóhannes oss á jörð.
Hann öllum bauð að hafna synd,
hræddi dramblátra manna lund,
hæsta dómarans fengi fund,
fram til þess væri lítil stund.
Hér með þá lýður hræddur var,
hjálpar veg sannan predikar,
sjálft lamb með fingri sýnir þar,
sem mannkyn við Guð forlíkar.
Staðfastur þennan boðskap ber,
birti Krists komu fylgja sér.
Eins sem dagstjarnan undan fer
uppgöngu sólar kunngjörir.
Farisearnir fróman mann
fengu ei beygt né anda þann.
Elías annan héldu hann
hræsni djarflega straffa kann.
Ó, faðir þig áköllum vér
að þú vor hjörtu uppvekir
Svo öll vér trúum eflaust þér
eins sem Jóhannes vitni ber.