24. sunnudagur eftir trinitatis: Sigrarinn dauðans sanni. / Endir allra tíma
24. sunnudagur eftir trinitatis:
Sigrarinn dauðans sanni. / Endir allra tíma
Þakkið með gleði föðurnum sem hefur gjört oss hæf til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í
ljósinu. Kol. 1,12.
Litur grænn
Bæn dagsins / kollektan
Kristur, upprisinn frá dauðum, við þökkum þér að ekkert getur skilið okkur frá þér. Hjálpa
okkur í óttanum við lífið. Hjálpa okkur frá óttanum við dauðann. Ekkert fær spillt lífi þínu
eða eyðilagt það. Gef okkur hlutdeild í því, þú sem lifir og ríkir með Guði föður í heilögum
anda í dýrð og heiðri að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían Amos 4.12-13
Þess vegna mun ég fara svona með þig, Ísrael,
og vegna þess að ég ætla að fara svona með þig
skaltu búa þig undir að mæta Guði þínum, Ísrael.
Sjá, hann mótar fjöllin, hann skapar vindinn,
hann boðar manninum það sem hann hefur í hyggju.
Hann breytir myrkri í morgunroða
og gengur yfir hæðir jarðarinnar,
Drottinn, Guð hersveitanna, er nafn hans.
Pistill 1.Kor 9. 16-23
Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá gefur það mér enga ástæðu til að miklast af því. Ég er
knúinn til þess. Vei mér ef ég boða það ekki. Geri ég þetta af frjálsum vilja ber mér að fá
laun. En finni ég mig til þess knúinn hefur Guð falið mér ráðsmennsku. Hver eru þá laun
mín? Þau að ég boða fagnaðarerindið án endurgjalds og hagnýti mér ekki það sem ég á rétt á.
Þótt ég sé öllum óháður hef ég gert sjálfan mig að þræli allra til þess að ávinna sem flesta. Ég
hef verið Gyðingum sem Gyðingur til þess að ávinna Gyðinga. Þótt ég lifi ekki eftir lögmáli
Móse breyti ég eftir því til þess að ávinna þá sem fara eftir því. Til þess að ávinna þá sem
þekkja ekki lögmál Móse breyti ég ekki eftir því enda þótt ég sé ekki laus við lögmál Guðs
heldur bundinn lögmáli Krists. Hinum óstyrku hef ég verið óstyrkur til þess að ávinna hina
óstyrku. Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra. Allt geri
ég vegna fagnaðarerindisins til þess að ég fái hlutdeild í blessun þess.
Guðspjallið Mark. 13. 5-13
En Jesús tók að segja þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. Margir munu koma
í mínu nafni og segja: Það er ég! og marga munu þeir leiða í villu. En þegar þér spyrjið
hernað og ófriðartíðindi þá skelfist ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með
kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum
stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér
húðstrýkt og þér munuð leidd fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna til þess að
bera vitni um mig. En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. Þegar menn
taka yður og draga fyrir rétt skuluð þér ekki hafa áhyggjur af því hvað þér eigið að segja
heldur talið það sem yður verður gefið á þeirri stundu. Það eruð ekki þér sem talið
heldur talar heilagur andi í yður. Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt.
Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. Allir munu hata yður af því að þér
trúið á mig. En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn.
Sálmur Sb 209
Ó, blessuð sýn, er Herrans hjörð
til himins komin er
frá öllum þjóðum, allri jörð
sá endurleysti her.
Hve blessuð sýn, er safnast heim
hans sendimenn af storð
og skarinn mikli með af þeim,
er mátu þeirra orð.
Ó, blessuð sýn, er sigurljóð
í söng og þakkargjörð
þar duna um himins dýrðarslóð
frá Drottins sælu hjörð.
Hve mikil, Guð, þín miskunn er,
sem milt mig laðar heim.
Ó, lát mig standa' í helgra her
á hálpardegi þeim.
Wexels - Friðrik Friðriksson