Grillað að loknum páskum

Grillað að loknum páskum

Það er jú eitt megineðli kirkjunnar. Hún er samfélag sem mætir fólki á þess eigin forsendum. Rétt eins og Kristur gerði á starfstíma sínum hér á meðal manna.

Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: Ég fer að fiska. Þeir segja við hann: Vér komum líka með þér.

Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.

Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: Drengir, hafið þér nokkurn fisk?

Þeir svöruðu: Nei.

Hann sagði: Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir. Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: Þetta er Drottinn. Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík hann var fáklæddur og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.

Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.

Jesús segir við þá: Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða.

Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir.

Jesús segir við þá: Komið og matist. En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: Hver ert þú? Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum. Jóh. 21.1-14

Þá er hátíðin að baki. Þó ekki alveg hér í kirkjunni þar sem við viljum gjarnan halda dagana hátíðlega ögn lengur. Hér er ennþá hvítur litur á altari og klæðum en hvítur er litur gleðinnar í kirkjunni. Það er litur hátíðarinnar og er hann einmitt hafður uppi á páskum og jólum. Gleðin hér í kirkjunni hófst þó eiginlega nokkru fyrr með sex fermingarguðsþjónustum þar sem ungmennin gengu fram fyrir altari Guðs og játuðu skírnarheiti sitt. Vel á annað þúsund manns sóttu messur þá þrjá sunnudaga og þar var hátíðin og gleðin alls ráðandi.

Hvar geyma þeir prestinn?

Þetta er sú mynd sem margur hefur af kirkjunni: stórar stundir í lífi þjóðar og einstaklinga rammaðar inn í helgidómi Guðs. Þarf svo sem ekki að kvarta undan því. En á móti kemur að gjarnan er raunin sú að fólk lítur á þennan vettvang sem hinn eina fyrir kirkjuna okkar. „Hvar geyma þeir prestinn til næstu jóla?“ spurði strákurinn mömmu sína eftir hina árlegu jólamessu fjölskyldunnar. Það er kannske ekki að undra að svo sé spurt! Kirkjan er fyrir mörgum fjarlægur og upphafinn heimur hátíðleika og æðri sanninda. Sem slík á hún vissulega lítið erindi til fólks svona dags daglega.

Og eru páskarnir sjálfir ekki besta dæmið um það hve boðskapur kristinnar trúar sveimar hátt yfir hinum hversdagslega heimi? Upprisan og sigurinn á dauðanum, hvert er erindi þess boðskapar inn í líf okkar sem veltum vöngum yfir því hvað á að vera í matinn, hvert á að halda í ferðalag eða hvernig mæta eigi næstu afborgunum af húsnæðislánunum. Geta slík tíðindi höfðað til fólks sem fæst við dagleg vandamál, stundar sína vinnu og hefur áhyggjur af amstri hversdagsins?

Kveðjan hversdagslega

„Drengir hafið þér nokkurn fisk?“ Svona ávarpaði Kristur lærisveinana þegar hann vitjaði þeirra eins og frá er sagt í guðspjalli dagsins. Þeir voru þarna samankomnir: Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans, eins og segir í ítarlegri frásögninni. Sannarlega ofurhversdagsleg kveðja þar sem stórir atburðir höfðu átt sér stað. Dásamlega hófstillt og vinarleg þegar viðburðurinn stóri er liðinn og saga mannsins varð ekki söm á eftir.

Þarna hittast þeir að nýju eftir þau gerningaveður sem á undan höfðu gengið. Stórfenglegustu atburðir mannkynssögunnar voru nýafstaðnir. Innreiðin í Jerúsalem, píslarsagan og loks hin stórkostlega upprisa – allt þetta var um garð gengið.

Þar áður – ferðalag lærisveina með meistara sínum. Ferðin um eyðimerkur, þorp og vötn. Kraftaverk unnin, vitnisburður fenginn um hið stærsta og merkilegasta sem nokkurn tíma hefur orðið hér á jörðu – þetta var allt liðið. Gleðin og sorg, hugrekki og nagandi ótti. Bjartsýni og þrúgandi vonbrigði. Þetta hafði drifið á daga hópsins góða sem fylgdi Kristi eftir á leið hans.

Hversdagurinn tekinn við

Og hvað nú? Þeir eru aftur farnir að sýsla við sín gömlu verk. Það er eins og ekkert hafi í skorist. Jú, lífsbaráttan heldur áfram. Það þarf að brauðfæða sig og sína og nú eru þeir aftur komnir út á vatnið eins og þeir höfðu gert áður en þeir fengu kallið og áður en þeir fengu köllunina sem hafði hrifsað þá burt frá öllu sínu og sent þá á vit æðri köllunar. Og aftur er aflabrestur. Þá kemur hann aftur á fund þeirra og kastar á þá þessari hversdagslegu kveðju.

Það er eins og Kristur rammi inn þessar nýju aðstæður með þessari kveðju sinni. Hann vísar þeim á aflann og svo til að kóróna kringumstæðurnar býður hann þeim í grill. Hann grillar handa þeim mat – sem hefur nú aðra merkingu fyrir nútímamanninn en það gerði þar forðum daga. Þessir atburðir eru eins og samræður hins háleita og hins hversdagslega. Þarna kemur Kristur upprisinn inn í aðstæður þeirra sem fylgt höfðu honum eftir á för hans. Þarna mætir hinn upprisni hversdagslegum mönnum sem fást við sín hefðbundnu störf. Veiða fisk rétt eins og þeir höfðu gert áður en hann vitjaði þeirra og opnaði fyrir þeim leyndardóma Guðs ríkisins.

Hið upphafna og hið hversdagslega

Boðskapur kirkjunnar er sannarlega lífgefandi og hann hefur þá sérstöðu að hann talar til okkar í hverjum þeim aðstæðum sem við erum í. Fréttirnar um sigur lífsins á dauðanum ná inn í líf okkar og auka gæði þess. Þannig segir skáldið í Davíðssálmu:

Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun. Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

Trúin á sigur lífsins teygir sig yfir í líf okkar. Því þótt við séum manneskjur af holdi og blóði býr engu að síður í okkur sú dýpt tilverunnar sem kallar á æðri veruleika. Og þar kemur trúin sannarlega inn í myndina. Hún fyllir okkur þrótti í mótlæti og gefur fegurðinni í sköpunarverkinu enn dýpri merkingu. Upprisan í kristinni trú, sá mikli leyndardómur, nær til manneskjunnar allrar. Það er lífið allt sem rís upp frá dauðum og er ekkert þar undanskilið. Kristin trú lítur á mannin sem eina heild þar sem nauðsynlegt er að hlúa að hverjum þætti fyrir sig. Hún er í anstöðu við þær upphöfnu hugmyndir sem fjarlægja trúna hversdagslífi mannsins. Þvert á móti höfðar hún til þeirra vídda tilverunnar. Grillið

Í lok frásagnarinnar setjast þeir niður og snæða: Jesús segir við þá: „Komið og matist.“

Það er þessi umgjörð sem kallar þá saman til hins nýja upphaf kirkjunnar. Máltíðin – þetta látlausa og einfalda form mannlegra samskipta sem ristir þó dýpra og tengir okkur nánari böndum en svo ótal margt annað sem við setjum á svið og framköllum með ærnum tilkostnaði. Það er þetta sem staðfestir það fyrir þeim að þetta var Kristur– þegar hann settist niður með þeim og sænddi með þeim fiskinn og brauðið þá voru þeir fullvissir um nálægð hans.

Þetta er leiðarljósið fyrir kirkjuna. Jú, vissulega fögnum við því þegar hún er sú kjölfesta sem samfélagið þarf á að halda og veitir rétta og eðlilega umgjörð utan um hátíðir hennar og helstu viðburði. En hún er líka hitt: þetta vinarlega viðmót, hversdagslega samfélag að ógleymdri máltíðinni þegar einstaklingar koma saman frammi fyrir Drottni, ólíkir með margvíslegan farangur og væntingar og setjast saman sem ein fjölskylda að máltíð Drottins.