Veruleiki himnanna

Veruleiki himnanna

"En það bar til um þessar mundir". Með þessum orðum erum við leidd út úr hversdagslegum veruleika okkar og inn í annan veruleika. Veruleika, þar sem himnarnir standa opnir. Veruleika, þar sem tíminn hættir að vera til. Veruleika þar sem kraftaverkin gerast. Veruleika, þar sem allt það, sem okkur veittist svo erfitt að skilja, fær tilgang, innihald og merkingu.
fullname - andlitsmynd Valdimar Hreiðarsson
24. desember 2006
Flokkar

"En það bar til um þessar mundir". Þannig byrjar hún, sagan heilaga um hin fyrstu jól.

Með þessum orðum hefst frásagan af atviki í langri og viðburðaríkri sögu rómverska heimsveldisins. Einn lítill atburður í einum fjarlægasta afkima þessa mikla heimsveldis.

Og aðilar máls ekki miklir eða merkilegir að heimsins mati. Þó hefur þessi atburður haft meiri áhrif en allar stórorrustur og landvinningar Rómaveldis. Og oftar vitnað til persónanna, sem þar koma við sögu heldur en allra keisara þessa sama ríkis.

"En það bar til um þessar mundir". Með þessum orðum erum við leidd út úr hversdagslegum veruleika okkar og inn í annan veruleika. Veruleika, þar sem himnarnir standa opnir. Veruleika, þar sem tíminn hættir að vera til. Veruleika þar sem kraftaverkin gerast. Veruleika, þar sem allt það, sem okkur veittist svo erfitt að skilja, fær tilgang, innihald og merkingu.

Frásagan af atburðum hinna fyrstu jóla segir okkur tvær sögur. Greinir frá tvenns konar veruleika. Annars vegar er okkur sagt frá honum Jósepi, sem var smiður í Nazaret og henni Maríu, kornungri unnustu hans, sem var þunguð.

Parinu unga er fyrirskipað af yfirvöldum, að þau þurfi að fara til heimaborgar Jósefs, því að nú eigi að fara fram manntal. En manntal var og er tæki stjórnvalda til að auðvelda þeim skattheimtu.

Þau fara til heimaborgar Jósefs, Betlehem. Þar eignast María barn sitt í fjárhúsi af því að það var ekki pláss fyrir þau í gistihúsi. María býr um barn sitt nýfætt og leggur í fóðurtrog. Ekki var um annan umbúnað að ræða.

Þetta er sagan af þeim Jósepi, Maríu og syni þeirra, Jesú. Í raun ósköp hversdagsleg saga. Við hefðum eflaust aldrei heyrt söguna af þeim Jósep, Maríu og Jesú, ef hún ætti sér ekki annan veruleika en veruleika hversdagsins.

Því þannig er það. Hinn veruleiki sögunnar litlu er veruleiki himnanna, saga Guðs. Unga parið, sem sagt er frá, þau Jósep og María, þau áttu sér aðeins stutta stund saman sem ösköp venjulegir foreldrar nýfædds barns.

Því fyrr en varði bar að fólk, sem hafði séð himnana standa opna. Hirðarnir á Betlehemsvöllum voru komnir. Þeim hafði verið sagt, að þeim væri frelsari fæddur, að þessi frelsari væri ungbarnið litla, sem lá í reifum í jötunni.

Þetta var boðskapur himnanna: "Yður er í dag frelsari fæddur".

Ein saga, eitt atvik. Tvenns konar veruleiki. Veruleiki jarðar og veruleiki himins. Í atburðinum mætast tveir heimar, himinn og jörð. Hið tímanlega og hið eilífa.

Himininn vitjar jarðarinnar í mynd lítils barns. Og eftir það er veruleiki jarðar og veruleiki himins orðinn einn og sami veruleikinn. Því í Jesú Kristi sameinast hið tímanlega líf eilífðinni.

"Yður er í dag frelsari fæddur". Vegna þess að í Kristi sam­ein­ast tími og eilífð, er okkur í dag, á þessum jólum árið 2006, boðaður þau sömu gleðitíðindi og hirðunum á Betlehems­völlum forð­um: "Yður er í dag frelsari fæddur".

Mér er frelsari fæddur. Þér er frelsari fæddur.

Sannarlega þörfnumst við frelsara, við þörfnumst þess að vita og upplifa, að það er tilgangur með þessu öllu.

Við þörfnumst þess, sem gerir það að verkum, að allt það, sem okkur veittist svo erfitt að skilja og meðtaka, fái tilgang, innihald og merkingu.

Við þörfnumst frelsunar frá tilgangsleysi, innihaldsleysi og merkingarleysi.

Margir leita frelsunar sinnar í hinu ver­ald­lega, í mýrarljósi neysluhyggjunnar.

En það er svo undarlegt með neysluhyggjuna, að því fleiri neysludraumar sem rætast, því meir sem við fáum og eignumst af veraldlegum gæðum, því sárar skynjum við þörf okkar fyrir annað og meira.

- Ef við erum heiðarleg gagnvart sjálfum okkur.

Aðeins Jesús færir okkur það sem er annað og meira. Aðeins hann getur frelsað okkur frá fánýti hlutanna og gefið okkur líf, sem er fullt anda og sannleika. Því líf, sem er bara líf hinna dauðu hluta, það líf mun aldrei gefa okkur sanna hamingju.

Auðvitað er það svo, að við þörfnumst líka hinna dauðu hluta, "yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa", segir í helgu orði. Og vissulega eru hinir svokölluðu dauðu hlutir gjafir hans, hluti af hans góðu sköpun, gefnir okkur öllum af kærleika góðs Guðs.

Þess vegna er enn sárara en ella að vita af fátækt í landinu okkar, vita af því, að þessi jól lifa börn, sem ekki njóta alls þess sem þau þarfnast til að verða hamingjusamir og gegnir þegnar landsins.

Fátæktin er líka hér, hér á þessu litla landi okkar, sem þrátt fyrir allt telst eitt ríkasta land heims. Fátækt fer meira að segja vaxandi hér á landi. Það er vissulega óþolandi ástand að sár fátækt fari vaxandi á sama tíma og almenn velmegun eykst.

"En það bar til um þessar mundir". Þessi litla saga segir frá því, er himinn Drottins kom niður til okkar mann­anna. Færir okkur nær himni Drottins. Færir himin Drottins nær okkur.

Jesús kom til okkar á hinum fyrstu jólum. Á föstudaginn langa lét hann lífið fyrir okkur mennina. Hann reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Hann hefur ekki yfirgefið okkur síðan. Enn á hann við okkur erindi. Erindi hans er ávallt það sama. Erindi hans er það, að eiga samfélag við okkur. Samfélag í kærleika. Hann kom í mynd lítils barns, í mynd Jesú. Þetta barn er sonur Guðs, þetta barn er Guð sjálfur, Guð með oss! Gleðileg jól í Jesú nafni! Amen.