Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jh 10.11-16
I
Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn.“ Um leið og við heyrum þessi orð sjáum við Jesús fyrir okkur mildan yfirlitum og með lamb á öxlum sér. Einhvern veginn viljum við trúa því, að við séum lambið sem hann ber heim. Þessi mynd er svo sannarlega umvafin hlýju og kærleika, já og það er sem hún vilji miðla þeirri vissu að hjá honum séum við örugg. En stenst þessi mynd? Hefur ekki einmitt reynsla okkar af lífinu valdið því að við höfum tekið þessa mynd af Jesús sem góða hirðinum til endurskoðunar? Hún er vissulega barnsleg og falleg, en hún er glansmynd, sem er á skjön við raunveruleikann. Við komumst ekki fram hjá því að okkur er sjaldnast hlíft við erfiðleikum og það er ekki almenn reynsla að einhver komi sem lyftir okkur upp úr öllum vanda og setji á axlir sínar, svo að erfiðleikarnir og þjáning ná ekki til okkar. Við skulum leyfa okkur það, að halda eilítið áfram á þessari braut. Og nú spyrjum við beint út: „Er þessi samlíking - þ.e.a.s. annars vegar um Guð eða Jesú sem hirði og hins vegar okkur sem hjörð - ekki í eðli sínu varhugarverð?“
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að endanlega heldur hjarðmaðurinn fé sínu til haga af því að það er sláturfé. Hann gætir þess ekki bar af ást heldur af hagkvæmnisástæðum sem miðast við að viðhalda líf hirðisins, en ekki hjarðarinnar sem slíkrar. Hirðirinn nærist á hjörðinni, ekki öfugt. Þeim er slátrað svo hirðirinn lifi. Snúum við sjónum okkar að hjörðinni þá koma einnig fram þættir í líkingunni sem vekja upp spurningar. Fyrir það fyrsta er kindin hjarðdýr, sem virðist við fyrstu sýn skorta allt sjálfstæði, sem á að móta menn sem einstaklinga. Þannig gerir kindin allt sem aðrir gera, hún étur sitt gras og eltir hina án allrar umhugsunnar. Og hún vill ætíð vera þar sem hinar eru líka. Kind í hjörð, hennar er ekki að taka ákvarðanir, það gerir forustusauðurinn fyrir hana eða hirðirinn. Já, er kindin í þessari líkingu ekki frekar viljalaus og frelsisskert? Viljum við vera þannig? Er það ekki einmitt einkenni eða krafa nútímans að menn eigi að vera sjálfstæðir og ábyrgir, að þeir eigi að vera öðrum óháðir og þar með frjálsir.
II
Hvernig koma kindur okkur borgarbúum fyrir sjónir - við skulum meðvitað opinbera fáfræði okkar um búskap og kvikfjárrækt því hún skiptir ekki megin máli: Kindur og lömb minna óneitanlega á lítil börn með jarmi sínu, sérstaklega þegar þau eru svöng. Tónhæðin er svipuð. En hinn illskiljanlegi grátur og köll víkja strax og þegar barnið getur tjáð sig með orðum. Það lærir að setja vilja, óskir og langanir sínar í orð. Með orðum og tali greinum við okkur frá öðrum, við grenjum ekki fram óskir okkar, heldur erum fær um að mótmæla og setja skoðanir okkar fram. Málið opinberar svo að segja huga og sjálfstæði okkar fyrir öðrum. Að við getum tjáð okkur er trygging sjálfstæðis og frelsis okkar. Að við séum sköpuð í Guðs mynd hlýtur að fela í sér að við getum talað við Guð. Er það þetta sem hér er á ferðinni? Hvernig ber að skilja orð Jesú: „Mínir sauðir heyra raust mína og fylgja mér“ Eru þessi samskipti án samtals og mótmæla? Ef svo væri, veltur þá hjálpræði okkar á skilyrðislausri hlýðni? Verðum við að vera sauðhlýðnir til að við okkur sé tekið? Er slíkur skilningur ekki mjög svo varhugarverður og í hreinni andstöðu við mennsku mannsins?
Því ef við lítum yfir söguna þá er það einmitt þessi skilyrðislausa hlýðni við hina ýmsu hirða sem steypt hafa einstklingum og heilu þjóðfélögunum í glötum? Já, er ekki einmitt þessi túlkun á hirðismyndinni, sem gerir hana að henntugu tæki í höndum þeirra aðila sem vilja ala menn upp til undirgefni og undirlægjuháttar og þá við sig. Er ekki stórhættulegt að nota slíka mynd í samskiptum prests og safnaðar, þar sem presturinn á að tala og hinir að hlýða, því hann er hirðirinn? Er ekki fáranlegt að prestar og prelátar taki sér það vald að þeir einir skilji og geti miðlað sannleikanum eins og óskeikulir páfar sem allir verða að hlýða? Næg eru dæmin um slíkar kröfur úr kirkjusögunni og samtímanum.
Höldum áfram: Er þá kristindómurinn þegar allt kemur til alls hentugt tæki fyrir valdhafa til að halda lýðnum niðri? Vill Jesús virkilega stuðla slíku með þessari líkingu sinni? Vill hann að við söfnuðurinn fylgi honum í blindni og sauðheimskur?
Nei, það vitum við vel.
Jesús kallar sig ekki bara hirði heldur góða hirðinn. Í hverju felst gæska hans? Hún felst í því að „Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina“ Sauðina sem þekkja hann. Orðið sem Jesús notar hér hefur djúpa og afgerandi merkingu. Að þekkja er meira en að vita um eða skilja eitthvað, hér er um það að ræða að öðlast fulla hlutdeild í lífi þess við þekkjum og erum þekkt af. Orðið fyrir að þekkja á grísku, er í Biblínni notað um innilegt samband hjóna og um sambandið innan guðdómsins sjálfs — milli Guðs föður og sonar. Orðið merkir því hér: „Allt mitt er þitt og allt þitt mitt“. Hirðirinn og hjörðin eru eining. Í þessu samhengi ber okkur að hafa í huga, að það er ekki hægt að efast um að Jesús var sterkur og sjálfstæður einstaklingur. Hann var gagnrýninn og var fullkomlega ljóst fyrir hvern og hvað hann starfaði. Og ef við deilum öllu með Jesú þá er augljóst að við höfum einnig fulla hlutdeild í þessum eiginleikum hans. Við sem söfnuður Jesú Krists erum því ekki kölluð til blindni og gagnrýnislausrar hlýðni. Aldeilis ekki því Jesús er góð hirðirinn.
Berum hann því saman við þá hirða sem mótuðu hugmyndir samtíma manna hans. Tökum fyrst fyrir hugmyndir um stjórnendur sem hirða.
III
Að stjórnendur skilgreini sig sem hirða var útbreitt í fornöld. Og það gefur að skilja að álit manna á þeim var misjafnt eins og eftirfarandi saga ber með sér. Ég fór eitt sinn í skoðunarferð á safn sem sýndi muni er fundist höfðu við uppgröft í Ísrael frá tímum Gamla testamentisins. Mér er sérstaklega minnisstæð frásögn leiðsögumannsins um litla styttu sem ég hafði ekki tekið eftir. Hún hafði fundist innan um eldhúsmuni í húsi sem verið var að grafa upp. Styttan var af manni sem stóð teinréttur, og þó að hún væri snjáð og höfuð hennar skaddað, var vel hægt að greina stór eyru og að hendurnar sem voru krosslagðar á brjóst, styttan hélt auk þess á einhvers konar krókstaf og svipu eins og faróar halda ætíð á. Styttan var semsé af faraó. Krókstafurinn er hirðisstafur sem undirstrikar vald hans. Faráo er hirðirinn sem leiðir þjóðina bæði í andlegum sem veraldlegum efnum. Í raun var hann álitinn vera Guð í mannsmynd og sem slíkur hafði hann vald yfir himni og jörð. Boðskapurinn er skýr: Hjörðinn er alfarið á valdi hans og hennar er að hlýða og sjá hirðinum fyrir öllu sem hann vill hirða af henni. Þetta undirstrikaði svipa faraós, því hún vísar valds hans yfir þjóðinni og öllu er henni tilheyrði. En hvað var þessi stytta að gera inni í eldhúsi á venjulegu heimili í palestínu þar sem hún fannst. Skýringin er skemmtileg. Á þessum tímabili var Palestína á valdi Egypta. Faraó og embættismenn hans skipuðu svo fyrir að settar væru upp litlar styttur um allt ríkið og ættu þær helst að vera á öllum heimilum. Þetta var gert til að minna fólk á, hverjum það laut og var jafnvel talið að stjórnandinn væri nálægur í styttuni. Því bar að sýna henni lotningu. Leifar af þessum sið er að finna en þann dag í dag, enda eru allstaðar myndir af þjóðhöfðingjum.
Aftur að styttunni. Á 11. öld var hið svokallaða nýríki Egypta farið að riðla til falls og einmitt það bar höfuð styttunnar með sér, því það var nokkuð eytt. Orsökin þess reyndist vera sú að styttann hafði verið notaður sem steytir til að mylja með korn og annað við matargerð. Enda lá hún vel í hendi og þannig muldi húsmóðirin á heimilinu korn og annað með styttunni um leið og hún gaf til kynna álit sitt á hinum erlenda höfðingja sem hafði mergsogið þjóð hennar. Ef til vill er það táknrænt að faraóinn – sem vildi undirstrika með þessari styttu að hann væri sá er hefði allt vald bæði á himni og jörðu – skildi enda sem stytta með höfuðið niðri í skál að mylja korn. Þannig kennir okkur sagan að guðdóms- og valdakröfur þeirra sem vilja vera hirðar annarra manna gera oft mun minna gagn þessi stytta. Því hafnar biblían þeim aðilum sem vilja í hlutverki hirðis hefja sig upp yfir aðra og hún varar formlega við því að menn taki sér slíkt hirðisvald yfir samferðafólki sínu og segir: „Vei hirðum sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni“ (Jer 23.1).
IV
Í Ísrael er því konungnum aldrei líkt við hirði heldur einungis Guði og í þeim líkingum liggur áherslan á umhyggju hirðisins fyrir hjörðinni, en ekki drottnun. Og áberandi er að líkingin er sótt beint í til daglegs lífs hirða. Öll þekkjum við 23. Davíðssálm þar sem stendur: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta“ Guði er hér líkt við hirði að það ekki að ófyrirsynju. Starf hirðisins var ábygðarmikið og erfitt. Landsvæðin í Palestínu sem þeir ráku fé sitt um var harðbýlt. Veðurbreytingar miklar og skil milli hita dagsins og kulda næturinnar voru mikil. Hættur voru einnig margar í náttúrunni bæði af völdum manna og villtra dýra. Og í landi - milli kletta og eyðimerkur - krafðist leitin að vatni og grænum grundum fyrir hjörðina mikillar útsjónarsemi og þrautseigju. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þeirri leit fylgdi jafnan barátta og hættur. Umhyggjan fyrir hjörðinni byggði ekki einvörðu á velvilja, heldur krafðist áhættu, átaka og fórna. Hirðar í Palestínu voru því jafnan veðurbarnir og seigir einstaklingar, sem vissu að umönnun dýranna heimtaði mikið en færði þeim oft lítið. Þegar Guði er líkt við hirði í Gamla testamentinu er lögð áhersla á að hann ali önn fyrir hjörð sinni og það sé hann sem næri og vermdi hana. Hjörðin eða söfnuðurinn er ekki hans sláturfé, eins og hjá mörgum konugum þessa heims. Þessa áherslu yfir tekur Jesús. Þegar Jesús Kristur kallar sig góða hirðin, bendir hann á að umhyggja hans fyrir okkur kosti hann allt sem hann á og er. Hér aðgreinir hann sig alfarið frá leiguliðunum, þeir fórna að vísu oft tíma og erfiði fyrir hjörðina, en endanlega bregðast þeir henni. Eins og Jesús sjálfur segir: þegar þeir sjá „úlfinn koma yfirgefa þeir hjörðina og flýgja“. Við getum vissulega séð í leiguliðunum hina ýmsu leiðtoga sem vilja ná valdi yfir okkur og næra líf sitt á okkur. Í kirkjusögunni hafa þeir alla jafnan verið settir að jöfnu við eigingjarna stjórnendur og falsspámenn. Og þeir bregðast þegar á reynir. Eða þegar úlfurinn kemur, eins og segir í guðspjalli dagsins en í Biblíunni er úlfurinn tákn fyrir ranglæti (Sef 3.3) hið illa, dauða og glötun. Já, andspænis dauðanum þá yfirgefa okkur allir leiguliðar sama hve háa þóknun þeir hirða. En ekki góði hirðirinn, hann „leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina“ (Jh 10,11). Kristur fórnaði lífi sínu svo við megum lifa. Hér greinir Jesús sig frá öllum öðrum. Hirðishlutverk Jesú byggir því ekki á drotttnun og kröfu um hlýðni. Og inntak þess er heldur ekki hægt að setja alfarið jöfnu við velvild í garð hjarðarinnar. Nei, hér kemur það sem er óþekkt Jesús Kristur er góði hirðirinn sem gefur líf sitt fyrir hjörðina svo við megum lifa. Hann færir fórnina, ekki hjörðinn. Við þekkjum fórnina, með krossdauða sínum og upprisu ruddi Jesús Kristur okkur leið í gegnum dimman dal dauðans til eilífs lífs með sér. Vegna þess fylgjum við góða hirðinum sem er „vegurinn, sanleikurinn og lífið“.
Hann gerir okkur kleift að virða heiminn eins og hann er. Og takið eftir: Jesús hefur aldrei lofað því, að við lentum ekki í erfiðleikum og mótlæti í lífinu. Hann lyftir okkur ekki upp og ber okkur yfir erfiðleikanna eins og svo margir leiðtogar þessa heims lofa svo gjarnan upp í ermarnar á sér, um leið og þeir krefjast þess að við lútum þeim í skilyrðislausri hlíðni. Þannig er Kristur ekki, en hann lofar að leiða okkur í gegnum alla erfiðleika.
Og nú skiljum við orðin sem hann segir: „Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér“. Hjörðin og þeir sem henni tilheyra eiga að leitast við að vera skynsöm og notar allt sem þeir eiga til að greina kall Krists í gegnum tálvonir heimsins. Slíkt krefst áræðis, sjálfstæði og gagnrýnnar hugsunnar. Já og umfram allt trausts til Krists og sjálfs síns.
Og við erum aldrei ein því í skírninni kallar Jesús okkur hvert og eitt með nafni til fylgdar við sig. Hann leiðir okkur síðan í gegnum lífið, um hrjóstrugt land að grænum grundum og gegnum dimman dal til eilífs lífs með sér. Og það merkilega er að hann kallar okkur hér einmitt upp úr hjarðmennsku til sjálfstæðis með sér. Honum fylgjum við því fús.
Í Jesú nafni Amen.