Að syrgja hefur sinn tíma

Að syrgja hefur sinn tíma

Kappkostum að sinna vel köllun okkar að ganga í fótspor Krists og uppfylla boð hans um að hugga syrgjendur.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
01. nóvember 2013

Allraheilagra- og allrasálnamessa, þessir fornu messudagar, hafa fengið nýtt líf í kirkjunni síðustu árin sem minningardagar látinna. Sá siður hefur breiðst út í kirkjustarfi hér á landi að gefa þeim sem hafa misst einhvern nákominn tækifæri til að koma og heiðra minningu þeirra með því að tendra ljós í kirkjunni. Það hefur og sýnt sig að slíkir siðir og ritúöl sem tengjast dauðanum hjálpa fólki og takast á við sorgina.

Það er og mjög í anda fagnaðarerindis kristinnar trúar að hlúa að syrgjendum. Eitt sæluboða Jesú fjallar um syrgjendur; sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða” segir hann í Fjallræðunni. Í seinni tíð hafa guðfræðingar einnig beint sjónum í auknum mæli að hinni kristnu þjónustu – díakoníu – um að sinna þurfandi. Endurkomuræða Jesú í 25. kafla Mattheusarguðspjalls brýnir einnig kristna menn í að sinna skyldum sínum gagnvart þurfandi til líkama og sálar, sínum minnsta bróður og systur: “…sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín”. Í ljósi þessara orða og fleiri í Biblíunni sinnum við skyldum okkar við náungann, þann sem er þurfandi, hver svo sem hann er.

Þörf þeirra sem hafa misst er oft mikil. Eftir því sem missirinn er er nær, eftir því sem hann er ótímabærari eða skyndilegri, þeim mun meira verður áfallið og sorgin í kjölfarið.

Sleit mar bönd minnar ættar snaran þátt af sjálfum mér

Segir Egill Skallagrímsson í Sonartorreki þegar hann tekst á við dauða sonar síns Böðvars. Hér kallast reynsla hins forna skálds við reynslu allra þeirra sem missa ótímabært einhvern sem stendur þeim nærri. Eftir slíkt andlát getur það tekið þau sem næst standa mörg ár að ná aftur jafnvægi á líf sitt og þó hverfur sorgin aldrei.

Fagfólk sem kemur að stuðningi við syrgjendur hefur gert sér grein fyrir að fylgja þarf syrgjendum mikið lengur en talið var hér áður fyrr. Þegar um erfið, ótímær andlát er að ræða, s.s. við barnsmissi, sjálfsvíg, ótímabært andlát maka eða foreldris þá varir fylgdin stundum nokkur ár.

Þá hefur líka orðið áherslubreyting seinasta aldarfjórðunginn varðandi sorgarvinnu. Áður var stuðningur fagfólks, presta og annarra mjög lítill og tilviljunarkenndur en nú er betur reynt að styðja fólk eftir erfiðan missi á skipulagðan hátt, þótt ennþá vilji brenna við að stuðningurinn byggist á tilviljunarkenndum viðbrögðum.

Þær stofnanir sem veita syrgjendum stuðning eru einkum heilbrigðiskerfi og þjóðkirkjan, einnig í nokkrum mæli skóli og félagsþjónusta. Í hugum alls þorra fólks er sá stuðningur sem prestar og djáknar veita syrgjendum mikils virði og fólk er oftast mjög þakklátt fyrir. Skýrsla um eftirfylgd í söfnuðum sem unnin var fyrir kirkjuþing fyrir nokkrum árum kom með góðar tillögur að því hvernig bæta mætti þessa þjónustu, ekki síst samræma hana. Samt virðist stuðningur okkar presta og djákna við syrgjendur enn vera tilviljunarkenndur; fer gjarnan eftir tíma og framtaki einstaka prests eða djákna. Þá er stundum borið við tímaleysi vegna of margra jarðarfara.

Tímaleysið vekur athygli á því hvernig við forgangsröðum. Ef við prestar höfum tíma til að taka að okkur jarðarför en ekki sinna nauðsynlegri eftirfylgd þá er einfaldlega eitthvað rangt við þá forgangsröðun. Á vettvangi Nýrrar dögunar þar sem ég hef starfað síðustu árin hef ég heyrt marga þakka góðan stuðning presta og djákna. En ég hef líka heyrt alltof margar sögur af því að hvernig þessar fagstéttir hafa brugðist í eftirfylgdinni. Móðir sem missti son sinn í sjálfsvígi sagði um eftirfylgd prestsins sem jarðaði hann: “Hann hringdi ekki einu sinni eftir jarðarförina”.

Nú þegar við sem þjóðkirkja vinnum að því að endurheimta laskað traust eftir erfið mál síðustu ára og áratuga, kemur ekkert í staðinn fyrir góða þjónustu við fólk. Og það ætlast til þess að fá góða þjónustu við að ganga í gegnum erfið dauðsföll, ekki bara í jarðarförinni heldur líka að fá stuðning við að takast á við lífið á eftir. Kappkostum því við að sinna vel köllun okkar að ganga í fótspor Krists og uppfylla boð hans um að hugga syrgjendur.