Slíkra er Guðs ríki

Slíkra er Guðs ríki

Við erum í sporum málleysingjans, hins veikburða og þess sem getur í raun ekkert gert nema að taka við og þiggja.

Meiri flensan sem hrjáir landsmenn dagana, þvílík ósköp.

Á mínu heimili veiktist yngsti fjölskyldumeðlimurinn nú fyrir jól og var öll jólahátíðin undirlögð í þeim veikindum. Loks þegar hitinn rénaði steyptist líkaminn allur út í rauðum flekkjum og við hjónin sáum okkur þann kost vænstan að æða með hann á fund læknis. Þetta reyndist vera ofur eðlilegt og við vörpuðum öndinni léttar. Fýluferðir til læknis eru fagnaðarefni.

Svo tók unglingurinn við þessu flensukefli. Er búinn að vera í viku með hitasótt, kaldsveittur og ómögulegur. Það sér nú loks fyrir endanum á því.

Margir hafa sömu sögu að segja þessa dagana og heilbrigðisstarfsfólk hefur verið upptekið með áhyggjufulla foreldra á biðstofum með hóstandi og kjökrandi afkvæmin. Lítið er við þessu að gera, aðeins hægt að slá á einkennin og reyna svo að vera þakklát þegar allir verða komnir á ný til fullrar heilsu.Við leiðum víst sjaldan hugann að gæðum lífsins þegar allt er eins og það á að vera!

Það er eitthvað merkilegt við það að vera með veikt barn. Sá stutti vaknaði öllum stundum að næturlagi og dagslúrarnir voru stuttir. Við þurftum að arka með hann um gólfið. Svo þegar hann lagði vangann ofan á öxlina þá var gert hlé göngunni og raulinu, kannað hvort augun væru nú lokuð og andardrátturinn takfastur, en þá oftar en ekki tók hann við sér og byrjaði að umla að nýju svo gangan hélt áfram.

Þegar mætt var til vinnu að morgni dags eftir þrautargöngur um stofugólfið var þrátt fyrir allt notaleg kennd í skrokknum. Það var eitthvað sem minnti á að þessum stundum var sannarlega ekki illa varið þótt sjáöldrin væru rauð og þreytuverkir í liðum.

Reyndar er fátt eins gagnlegt ef út í það er farið. Það gefur tilverunni tilgang að hlúa að veikburða lífi sem aðeins hefur lokið agnarlitlum hluta ævinnar ef Guð lofar og á allt sitt undir ákvörðunum okkar og umhyggju. Djúpt í sálu okkar býr sú tilfinning að í þessu felist hlutverk okkar og markmið.

Börnin eru spegill á okkur sjálf. Ekki bara börnin okkar heldur börnin í kringum okkur sem við getum hlúð að með beinum eða óbeinum hætti. Fátt snertir okkur eins mikið og það þegar börnin eru annars vegar. Fátt sýnir betur siðferði okkar og upplegg en það hvernig við sinnum þeim sem þurfa á kröftum okkar að halda.

Þess vegna verðum við sem lömuð þegar við kynnumst hinu gagnstæða, heyrum sögur af því þegar fólk misnotar það traust sem börnin sýna. Ekkert veldur meiri óhug og hryllingi, fyllir okkur reiði en það þegar siðlausir menn skaða börn fyrir lífstíð. Hvernig er slíkt mögulegt? Hvaða úrræði eru nógu ströng til þess að koma í veg fyrir slíkt athæfi? Hvernig getum við verið örugg með börnin okkar? Slíkar spurningar sækja á okkur núna og reiðin beinist ekki síst að því stjórnkerfi sem ekki gat verndað þau sem mest á þurftu að halda – sjálf börnin.

Óbeitin fyrir slíku býr jafn djúpt í brjóst okkar og umhyggjan.

Við finnum þessum kenndum sannarlega stað í boðskap Jesú frá Nazaret. Ekki vandaði hann þeim kveðuna sem slík fólskuverk unnu:

„Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls. Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur."

Ekkert er nýtt undir sólinni. Og ekki voru allir í umhverfi Jesú ræktarsamir í garð barna. Sú skoðun var viðtekin að börn væru aðeins ófullkomnir einstaklingar. Í ríkjandi kennisetningum var lítil rækt lögð við að sinna þeim sem áttu framtíðina fyrir höndum. Þetta var menning hinna sterku, lærðu og reyndu og þá máttu börnin sín lítils.

Líklega var það ástæðan fyrir því að lærisveinarnir brugðist svo ókvæða við þegar fólkið vildi láta Jesú snerta börnin. Þeim hefur vafalaust fundist það vera langt fyrir neðan virðingu hins vitra meistara að sinna óþroskuðum börnum.

En börn vekja tilfinningar og í þessum texta guðspjallanna lesum við að Jesú sárnuðu viðbrögð lærisveinanna. Viðbrögðin voru sterk þegar hann sá þá vísa börnunum frá sér. Hann útskýrði fyrir félögum sínum afstöðu sína og þá sneri og enn eitt skiptið sneri hann því á hvolf sem þeir höfðu talið vera rétt og satt. Já, hann dró upp mynd af hinum sönnu verðmætum sem var svo gerólík þeirri sem þeir höfðu.

„Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“

Hvað var þetta? Var Guðs ríki ekki fyrir þá sem voru lærðir og nutu virðingar fyrir verk sín og dáðir? Hvernig gátu börnin sem fátt vissu og fátt höfðu afrekað tekið við Guðs ríki? Hvernig eigum við að vera eins og börn? Sannarlega var boðskapurinn frábrugðinn því sem þeir áttu að venjast.

Hvað er þetta með börnin sem gerir það að verkum að jafnvel þrautpíndir foreldrar komnir af léttasta skeiðinu finna fyrir mikilvægi sínu og ábyrgð við það að sinna þeim næturlangt við lýjandi aðstæður? Barnið getur lítið gert, liggur á öxl þeirra en miðlar samt svo miklu bara með veru sinni.

Er það þannig sem við tökum við Guðs ríki? Já, því í gagnvart Guði erum við ekki jafningjar. Við erum óralangt frá því. Við erum í sporum málleysingjans, hins veikburða og þess sem getur í raun ekkert gert nema að taka við og þiggja. Okkar hlutskipti er að nærast af þeim kærleika sem Guð gefur okkur. Gjafir Guðs eru eins og gjafirnar sem við færum þeim minnstu. Þær veita okkur gleði, bara við það að afhenda þær.

Ekkert væri fráleitara en að ganga til samninga við lítinn óvita, segja – nú sinni ég þér fyrstu árin, í veikindum, í skóla, keyri þig á íþróttaæfingar, held afmæli og svo fram eftir götunum og í staðinn ...

Nei, þannig ganga ekki heilbrigð samskipti fyrir sig. Gjafir sem við færum börnunum færum við án nokkurra skilyrða. Og ef þær hafa fengið góða viðtöku, ef vel hefur tekist til við það starf uppbyggingar sem að hefur verið stefnt þá eru afkvæmin rík að ábyrgð og sjálf vel nestuð af kærleika. Þá miðla þau til okkar góðum gjöfum þegar kvölda tekur í lífi okkar og við verðum háðari þeim en þau okkur.

Hvort tveggja eru gjafir sem gefnar eru án skilyrða. Þannig eru gjafir Guðs. Við bara tökum við þeim. Og ef viðtökurnar eru að sönnu góðar þá gefum við sjálf á móti til þeirra sem þurfa á okkur að halda.

Við finnum gleðina í hjartanu þegar við höfum sjálf sinnt veikburða lífi. Ekki bara okkar börnunum, heldur gert samfélagið, jafnvel heiminn, að betri stað fyrir börnin. Þá mætum við köllun okkar og tilgangi.

Guðs ríki snýst um þetta. Að gefa af hjartanu, miðla af gleði og finna það hvernig kærleikurinn vex þegar við miðlum honum áfram.