Ég renndi yfir Hólaræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins, sem hann flutti á Hólahátíð fyrir skömmu. Ég nam staðar við nokkur orð úr ræðu hans, sem ég setti á Facebook, vegna þess að mig langaði til að fá viðbrögð við þeim. Facebook getur svo sem verið ágætur vettvangur til þess að svala forvitni og deila hugðarefnum, en nóg um það.
Orðin voru þessi: „Það fer illa á því að prestar hagi sér eins og pólitíkusar og takist á opinberlega. Kirkjan á hins vegar að skapa festu óháð dægursveiflum.“
Síðan bætti ég sjálfur við: Algjör óþarfi að prestar séu eins og stjórnmálamenn, en mér er spurn. Eru prestar ekki opinberir embættismenn? Eru kirkjunnar mál átakalaus? Hvað með trúna yfir höfuð, ekki er hún átakalaus? Prestar spegla líka samtímann.
Fáeinar athugasemdir bárust, allar góðar að mínu mati. Ég set ekki andlit á þær, en langar að hugsa aðeins út frá þeim hér í þessu pistilkorni.
Það liggur fyrir að átök um málefni, hvort sem það tengist kirkju eða einhverju öðru, þurfa ekki að vera skítkast eða dónaskapur. Ég vona sannarlega að Sigmundur Davíð sé ekki með þessu að halda því fram að átökin í stjórnmálaheiminum séu einkum í því formi. Þá er illa komið fyrir þeirri veröld.
Átök eru ekki það sama og dónaskapur, átök eru í eðli sínu góð. Það þarf auðvitað að halda rétt á þeim eins og svo mörgu öðru, þau geta vissulega verið eyðileggjandi, ef illa er farið með, en þau geta líka bætt andrúmsloft, hjálpað og stutt okkur áfram. Þau eiga ekki að vera særandi eða í formi niðurrifs, þau geta nefnilega verið heiðarleg, opin og styðjandi og í því sambandi skiptir gríðarlegu máli að halda sig við málefnið, varast persónulegar ásakanir og fleira í þeim dúr. Við getum m.a. horft á kærleika Krists, hann er ekki sprottinn úr átakalausum jarðvegi, það er nefnilega ótalmargt gott sem sprettur úr jarðvegi átaka.
Í þessu ljósi eiga prestar að takast á, því málefni kirkjunnar eru mikilvæg og krefjast málefnalegrar umræðu. Hvorki stjórnmálamenn né nokkrir aðrir geta sent þau skilaboð að prestar, ellegar aðrar stéttir, eigi að hafa sig hægar og eigi fremur að skapa festu óháð dægursveiflum, þetta er heldur ekki hægt að segja jafnvel þótt kirkja og ríki eigi enn í svolitlum tengslum.
Svo ég vitni beint í eina af athugasemdunum á Facebook, þá er krossinn engin pólitísk málamiðlun og upprisan er engin skiptimynt. Upprisan er nefnilega framsækin og orð framsóknarmannsins verða því undarlegri fyrir vikið.
Upprisan gerir þær kröfur að sannleikanum sé komið til leiðar, það er ekki átakalaust, upprisan krefst þess að við höldum vöku okkar fyrir því sem er mannlegt og það er bjargföst trú mín að það séu skýr skilaboð upprisunnar að við eigum ekki að forðast það sem er erfitt, ekki hörfa undan.
Þau fara því illa í mig þessi orð stjórnmálamannsins, sem virðast vera til þess fallin að örva varnarbaráttu kirkjunnar í staðinn fyrir að hvetja hana til framsækinna verka, til lifandi umræðu og til að stíga fram af myndugleik. Svo spyr ég mig að lokum. Hvernig er annað hægt með erindi eins og upprisu Jesú Krists?