Japani, Kanadamaður og Jesús Kristur

Japani, Kanadamaður og Jesús Kristur

Var þetta svipur látins manns? Þegar búið var að klípa í manninn brutust gleðióp út og sorgarstjarfinn umpólaðist í hinn mesta fögnuð. Maðurinn hafði ekki risið upp úr gröf sinni, heldur úr sorg ættingja sinna. Prédikun í Neskirkju 15. apríl 2007.

Hinn látni kemur

Í apríl árið 2000 varð bílslys í Japan og maður lést. Lögregla kom til að rannsaka aðstæður og lögreglumennirnir könnuðust strax við bæði bíl og hinn látna, þrátt fyrir að líkaminn væri illa farinn. Hringt var í aðstandendur og mágur kom til að bera kennsl á líkið. “Þetta er mágur minn,” sagði hann, fór heim og sagði aðstandendum hinar hryllilegu fréttir. Fjölskyldufólkið safnaðist svo saman til að gráta, faðmast, segja sögur og taka fyrstu útfararskrefin.

Eins og gefur að skilja voru allir í sjokki. Þegar sorgin hafði hríslast í öll sálarskot opnuðust allt í einu útidyrnar og inn gekk maðurinn, sem allir héldu að væri látinn. Hann var skipasmiður og hafði verið í vinnunni í skipakví allan daginn. Ekkert hafði komið fyrir hann, einhver allt annar og á eins bíl hafði lent í slysinu voðalega. Þegar blessaður maðurinn kom svo þreyttur heim úr vinnunni varð hann hissa á bílamergð ættingjanna á hlaðinu heima. Hann mundi ekki eftir að fjölskylduviðburður væri á döfinni og var því nokkuð langleitur í framan, þegar hann kom inn í hús sitt heima og mætti starandi augum í grátbólgnum andlitum. Enn slegnari varð hann af veinunum og viðbrögðum fólksins, sem brást við og eins og það sæi draug! Maðurinn, sem var talinn af, kom allt í einu heim fullfrískur, spyrjandi, reyndar þreyttur eftir puð dagsins, en heill heilsu.

Viðbrögð ættingja voru mikil þegar maðurinn birtist. Átökin hið innra voru gríðarleg. Var þetta hann sjálfur eða var hann svipur, líkamningur látins manns? Svo þegar búið var að klípa í manninn og faðma komu hljóðin, gleðióp brutust út og sorgarstjarfinn umpólaðist í hinn mesta fögnuð. Sá látni var kominn til lífs. Maðurinn hafði ekki risið upp úr gröf sinni, en hann hafði risið upp úr sorg ættingja sinna.

Reis upp úr sorginni

Þessi atburður á ýmsar hliðstæður, t.d. í Kanada árið 2004. Maður var talinn af og jarðarför hans var undirbúinn. Ættingjarnir voru komnir í útfararklæðin og á leið í útförina þegar í ljós kom að hinn meinti látni maður hafði týnst og verið fársjúkur fjarri heimili. Hann hafði verið svo veikur, að hann gat ekkert látið af sér vita. En svo kom til síns heima rétt fyrir útför og gat afstýrt henni!

Fiskidagurinn mikli

Texti dagsins er úr Jóhannesarguðspjalli og varðar reynslu þeirra, sem hafa misst allt. Lærisveinarnir voru ekki búnir að vinna úr hryllingsreynslu af aftöku meistarans á föstudeginum langa og höfðu lagt á flótta, farið í heimahagana norður í landi við Genesaretvatn, sem í textanum er kennt við keisarann Tíberíus. Og hvað gerðu sorgbitnir og ruglaðir lærisveinar? Hvernig var þeirra sorgarúrvinnsla? Jú, þeir helltu sér í vinnu - voru komnir í puðið á ný.

Þeir voru óhappamenn. Jú, vissulega hafði samveran og námstíminn með Jesú verið merkilegur, en samt komust þeir ekki hjá að horfast í augu við, að þeir höfðu veðjað á rangan málstað og mann. Báturinn var þarna enn og þeir kunnu til verka við veiðar. Svo fóru þeir bara “á sjó” og aðstaðan var svo sem þessi gamla og kunnuglega. Þeir köstuðu en ekkert gekk. Þá var kallað til þeirra – og það er kunnuglegt líka – kastið hinum megin við bátinn, hægra megin, sem heitir á íslensku stjórnborðsmegin. Þeir hlýddu og þetta er okkur algerlega fyrirsjáanlegt mál. Netið auðvitað fylltist af fiski og lá við, að það rifnaði. Og hvað gátu menn sagt annað en: Þetta er Drottinn - það er Jesús, sem kallar og veldur. Pétri varð svo mikið um, að hann bara rauk út í vatn, líklega til að vaða í land og komast sem hraðast til meistarans, sem var dáinn, en kom svo allt í einu. Var hann ekki dáinn eða hvað?

Grillið við Genesaretvatn

Og þegar þeir komu í land var á vegum Jesú búið að efna til grillveislu á bakka Genesaretvatns. Brauð og fiskar – stórtáknin, sem fylgt hafa kirkju Krists síðan, tákn um mettun til líkama, samfélags og sálar. Tákn um að Guði er annt um líf og mannfélag, velferð í þessum heimi og um alla eilífð, líka tákn um, að trú varðar hina raunverulegu tilveru mannsins, líka skrokk, vellíðan, nautn og hvunndagsleg gæði.

Upprisinn Jesús er ekki eitthvert ský, sem líður yfir fjöll og firnindi, heldur vera sem býður í partí þar sem góður matur er matreiddur. Þegar undrið mesta varð í veröldinni og Jesús hitti fyrir sitt fólk bauð hann þeim í mat. Það er á grundvelli slíkrar reynslu, sem lærisveinarnir umbreyttust úr vonlausum mönnum með dáinn meistara og fulltapaðan málstað í djarfhuga menn, sem prédikuðu heimi líf og breyttu þar með sögu og veröld.

Hrun eða tækifæri?

Hvað gerist í lífi fólks, sem verður fyrir mikilli reynslu? Hvernig hefur þér orðið við þegar mikil umskipti og mikil mál hafa dunið yfir þig? Þá verður gjarnan einhver stökkbreyting í fólki og líka fjölskyldum. Oft verða breytingar, eins og lát eða áfall, til að annaðhvort splundra og eyðileggja, opinbera mein - eða - til að fólk fer að vinna með sín mál, tekur nýja stefnu, tekur ákvörðun um breytingu, sem verður til mikils góðs. Stórkostlegt áfall getur leitt til algers hruns eða orðið upphaf hamingjugöngu. Áfall getur verið tækifæri, getur orðið tilefni hreinsunar og nýsköpunar.

Til að skilja upphafssögu kirkjunnar er nauðsynlegt, að setja sig í spor ógæfufólks, sem hafði fylgt miklum meistara, en síðan tapað honum og trúnni líka. En svo varð það fyrir fullkominni upprisu. Þar er skýringin á krafti frumkirkjunnar. Hún hefði ekki átt nokkurn séns ef hún hefði bara þóst hafa orðið fyrir einhverju undarlegu og stórfenglegu. Plat og þykistuleikrit hefur aldrei verið og getur aldrei orðið kraftur til lífs.

Japani, Kanadamaður og Jesús Kristur

Fjölskyldur Japanans og Kanadamannsins, sem taldir voru látnir, gátu fagnað. Dauðasamkomur breyttust í sigurgleði, erfidrykkja í lífsveislu. En meiri hefur þó undrunin yfir Jesú verið, þegar lærisveinarnir gerðu sér grein fyrir að hann var á lífi. Mennirnir dóu ekki, en Jesús dó. Honum var svo potað í steingröf og með bjarg fyrir munna.

Ættingjar Kanadabúans og Japanans fögnuðu yfir, að dauðinn kom ekki. En lærisveinarnir urðu fyrir þeirri einstöku reynslu, að lífið kom þrátt fyrir dauðann. Margir sleppa úr krumlum háskans, sleppa við dauða um tíma, en Jesús var og er hinn einstaki, sem lifir þrátt fyrir líkamsdauðann. Það var tilefni ofurreynslu, sem hafði svo gagnger áhrif á Jesúvinina og ekkert megnaði að stöðva þá, ekki andróður, kúgun, fangelsun, barsmíðar eða líflátshótanir. Í krafti altækrar lífsreynslu voru þeir tilbúnir að fara með fréttirnar á heimsenda og jafnvel deyja fyrir þær – að Jesús lifði og að líf hans væri orðinn sannleikur lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir – það er boðskapur dagsins og á við alla menn, alla dauðlega menn – líka okkur.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 1. sunnudag eftir páska, 15. apríl 2007.

Lexían; Sl. 116. 1-9

Ég elska Drottin, af því að hann heyrir grátbeiðni mína. Hann hefir hneigt eyra sitt að mér, og alla ævi vil ég ákalla hann.

Snörur dauðans umkringdu mig, angist Heljar mætti mér, ég mætti nauðum og harmi. Þá ákallaði ég nafn Drottins: Ó, Drottinn, bjarga sál minni!

Náðugur er Drottinn og réttlátur, og vor Guð er miskunnsamur. Drottinn varðveitir varnarlausa, þegar ég var máttvana hjálpaði hann mér. Verð þú aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gjörir vel til þín. Já, þú hreifst sál mína frá dauða, auga mitt frá gráti, fót minn frá hrösun. Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda.

Pistillinn: 1. Kor. 15.12-21

En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp? Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp. Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna. En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru. Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.

Guðspjallið: Jh. 21. 1-14

Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. Símon Pétur segir við þá: Ég fer að fiska. Þeir segja við hann: Vér komum líka með þér. Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. Jesús segir við þá: Drengir, hafið þér nokkurn fisk? Þeir svöruðu: Nei. Hann sagði: Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir. Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: Þetta er Drottinn. Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík hann var fáklæddur og stökk út í vatnið. En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. Jesús segir við þá: Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða. Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. Jesús segir við þá: Komið og matist. En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: Hver ert þú? Enda vissu þeir, að það var Drottinn. Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.