Veröldin og börnin

Veröldin og börnin

Maður og náttúra tengjast órjúfanlegum böndum. Ég veit að náttúran skartaði sínu fegursta á Betlehemsvöllum þegar Guð kom til okkar sem lítið barn. Í varnarleysi lítils barns og vanmætti. Inn í þær aðstæður sendi Guð son sinn. Í því felst mikið traust og mikill kærleikur. Vanmátturinn og varnarleysið gerir ábyrgð okkar enn skýrari.

Gleðilega hátíð!

Hin helga jólahátíð er gengin í garð, í hvert hreysi hverja höll. Í hvert hjarta. Við finnum fyrir nærveru barnsins - lausnara heimsins og lútum jötunni í Betlehem.

I

Það er ávallt stórkostleg tilfinning að aka hingað upp að Ingjaldshólskirkju. Kirkjan rís hátt og tignarlega. Stendur þarna stöðug eins og klettur og sést víða.

Kennileiti sem hefur vísað veginn í áranna rás.

Þessi mynd er römmuð inn af stórbrotinni náttúru og jökulinn ber hæst, þar sem hann gnæfir yfir kirkjuna. Hún er síbreytileg þessi mynd. Stundum er umhverfið litað dökkum litum, kaldranalegt og hrjóstrugt. Þá stafar hvað mest ljóma af kirkjunni.

Stundum skrýðist náttúran hvítu og björtu klæði. Er þá stundum eins og kirkjan okkar renni saman við umhverfið og verði sem draumsýn. Þegar vorið hrekur á brott fjötra vetrarins hefst samspil lita og birtu sem bylgjast um hæðir og móa og mitt í gróandanum stendur hún – kirkjan, stöðug áminning um þann sem vísar veginn.

II

Maður og náttúra tengjast órjúfanlegum böndum. Ég veit að náttúran skartaði sínu fegursta á Betlehemsvöllum þegar Guð kom til okkar sem lítið barn.

Í varnarleysi lítils barns og vanmætti. Inn í þær aðstæður sendi Guð son sinn. Í því felst mikið traust og mikill kærleikur.

Vanmátturinn og varnarleysið gerir ábyrgð okkar enn skýrari. Ábyrgð gagnvart okkur sjálfum, samferðamönnum og heiminum sem skapaður hefur verið okkur til handa. Jörðinni sem við erum með að láni og eigum að skila af okkur lífvænlegri til komandi kynslóða.

Mikilvægi lífsins sem birtist í náttúrunni kemur fram hjá börnum í hinu stríðshrjáða Líbanon.

Najawa sem er níu ára gömul sagði: “ég held að allir fuglar hafi flutt frá Líbanon og að blómin okkar hafi verið brennd” En svo hugsaði hún sig aðeins um og bætti við: “en ég held að fuglarnir komi einhvern daginn til baka.”

Þetta er frásögn frá flóttamannabúðum Alþjóðarneyðarhjálpar kirkna í Líbanon. Þar hafa börn verið að teikna myndir af framtíðardraumum sínum. Í fyrstu teiknuðu þau myndir af sprengjum og stríði. Eftir nokkrar vikur fóru þau aftur að teikna blóm, tré og fugla.

Með aðhlynningu sem grundvallaðist á kærleika tók vonin í hjörtum barnanna að vakna og dafna. Í stað stríðstóla sáu þau fegurð náttúrunnar í framtíð sinni. Þau sáu lífið sjálft.

Biðjum að svo megi verða. Leggjum okkar að mörkum til að tryggja velferð, afkomu og öryggi allra barna framtíðarinnar. Í þessum heimi.

Eftir tíu ár sem framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur Kofi Annan sagt að hann hafi lært fimm lærdóma og þeir snúast allir um ábyrgð og réttlæti.

Eins og hann áréttar berum við sameiginlega ábyrgð á öryggi og velferð hvers annars og grundvöllur þess er að mannréttindi séu virt.

Fyrirmyndin okkar er Jesús Kristur. Allt sem stendur gegn ábyrgð, kærleika og mannréttindum, stendur gegn honum.

III

Á jólanótt fæddist konungur heimsins – sjálfur frelsari mannsins sem lítið barn. Háð ummönnun, ábyrgðarkennd og kærleika manna.

Hvernig má það vera? Eða er það kannski táknrænt? Frelsunarsagan birtir okkur vissulega andstæður og þversagnir. Vanmátt, styrkleika, sigur og ósigur, dauða og líf.

Það er helgi sem svífur yfir frásögninni af fæðingu frelsarans. Kyrrð og friður. Andspænis henni standa fangabrögð óttans og ógnin grúfir yfir. Barnamorðin í Betlehem eru handan við hornið. (Mt. 2:16)

Heródes óttasleginn vegna spádóma Gamla testamentisins um hinn fyrirheitna Messías, fer gegn lítilmagnanaum. Þeim varnalausustu.

Og eins og segir í sálminum sem kórinn syngur hér á eftir:

Heródes kóngur heiftar gjarn hermanna beitti þrótt. Hver móðir grætur gengið barn grand var því búið skjótt.

Frásögnin fagnaðarríka frá Betlehem er því blönduð harmi og sorg. Kærleiksverk Guðs stendur gegn óhæfuverki valdstjórans. En hefur sigur.

IV

Afstaða Heródesar til Messíasar var ólík afstöðu Jóhannesar skírara sem sagði: Hann á að vaxa, en ég að minnka. (Jh3:30).

Slíkt er veganesti kristins manns. Kristur einn er mælikvarði á líf og breytni okkar. Hann á að vaxa í lífi okkar og öllum gjörðum.

Á veginum sem liggur að Ingjaldshólskirkju gerist svolítið táknrænt. Í fyrstu gnæfir jökullinn yfir kirkjuna. Á vegferðinni minnkar hins vegar jökullinn smátt og smátt þar til kirkja Krists rís yfir jökulinn sjálfan.

Þannig rís Kristur og stendur eins og klettur er hann varðar veg okkar manna.

Því lífið er svolítið eins og náttúran með öllum sínum margbreytileika. Ljós og myrkur takast á um rýmið. Skuggar og birta glíma.

Allt litróf mannlífsins hefur áhrif. Við tímamót staldra menn gjarnan við og líta yfir farinn veg. Ýmsislegt sem snertir okkur öll hefur sín áhrif. Stundum höfum við litið undan og kveinkað okkur undan grimmd og miskunnarleysi.

En við höfum líka upplifað stundir sem tengdu og gáfu tilfinningu bræðralags. Tilfinningu fyrir því að þrátt fyrir allt værum við öll systkin, deildum sömu jörð og sama himni.

Allir eiga sama rétt, nær og fjær, sem og komandi kynslóðir. Ráðsmennska okkar felst í samvinnu við Guð og náttúruna og allt sem skapað er. Gjafir Guðs eru ætlaðar öllum börnunum hans. Það kenndi Frelsarinn sem fæddist á jólanótt.

Einmitt í því ljósi verða aðstæður Jesú á hinum fyrstu jólum okkur hugstæðar, er við skynjum umkomuleysið sem höfðar til hins góða í sérhverri sál. Guð sjálfur er kominn til okkar í Kristi. Hljóðlega og friðsamlega varð hin mikla breyting sem öllu breytti í heimi manna.

Það er engin draumsýn, heldur raunveruleiki. Því frá jötunni í Betlehem stafar birta sem lýsir upp dimma skugga á hverfulum stundum lífsins. Ljós sem minnir á að jólin eru fyrsti kaflinn í atburðarás páskanna. Sigurstundarinnar. Þegar Drottinn sigraði dauðann og gaf manninum eilíft líf.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og blessun á komandi ári.