Saga þernunnar

Saga þernunnar

En þegar eitthvað snertir okkur, snertir raunverulega við okkur, þá höfum við skoðanir og margir hrópa á torgum þegar kennivaldi þeirra er ógnað líkt og þegar rætt hefur verið um réttindi kvenna í ákveðnum kirkjudeildum, prestsvígslu jafnvel og réttindi samkynhneigðra svo eitthvað sé nefnt. Þá erum við fljót að veifa kennivaldinu í óttablandinni lotningu og berja fólk með því miskunnarlaust.

„Við vorum þjóðfélag í dauðateygjunum, sagði frænkan Lydía, vegna of mikils frelsis.“

Þessi orð birtast á einni af upphafsíðum bókarinnar „Saga þernunnar“ eða the handmaid´s tale eftir kanadísku skáldkonuna Margaret Atwood frá 1986. Þetta er skáldsaga sem flokkast sem dystópía en dystópía er sýn á framtíðarsamfélag sem hefur þróast í neikvæða mynd af útópíu. Dystópían segir frá samfélagi sem stjórnað er af alræðisvaldi, þar sem ríkir kúgandi félagslegt stjórnkerfi og tjáningarfrelsið er ekkert.

Í þessari bók reynir Atwood að sýna, á öfgafullan hátt samfélagslega niðurstöðu bókstafstrúarlegrar alræðishyggju. Hér er sýnt fram á afturkipp gegn kvenfrelsi og að sögn höfundar, hvað gerist þegar hversdagsleg, venjuleg viðhorf, sem við höfum oft í flimtingum, eru tekin alla leið, að sinni rökréttu niðurstöðu. Í bókinni gerir Atwodd grín að þeim sem tala fjálglega um hefðbundin gildi og gefa í skyn að konur eigi að verða eingöngu eiginkonur á ný. Hættan er sú að það sem þú boðar, verði að veruleika. Í bókinni segir frá byltingu sem á sér stað í mið-Ameriku. Byltingin hefst á því að forsetinn er skotinn, ríkistjórnin sett af og í framhaldi af því er stjórnarskráin afnumin úr gildi, tímabundið að því sem sagt er. Byltingarsinnarnir eru kallaðir synir Jakobs og úr byltingunni verður til lýðveldið Gílead. Í framhaldi af þessu missa konur vinnu sína utan heimilis. Eignir þeirra og annarra jaðarhópa eru frystar og opinber réttindi afnumin. Konur eru þannig fluttar undir yfirráð eiginmanna sinna eða náskyldra karlkyns ættingja. Konur glata þannig mennsku sinni og eina hjálpræði þeirra er í gegnum barneignir.

Lýðveldið Gílead er stjórnað af stigveldis hernámsstjórn og þar hafa allir þegnar sitt ákveðna hlutverk og eru hlutverk þeirra skilgreind eftir lit klæða þeirra. Bókin er sögð af munni konu. Hún hefur það hlutverk í hinu nýja ríki að vera þerna. Það er hún er frjó og á að eignast barn fyrir yfirstéttina. Hún hefur glatað sínu eigin nafni og er kennd við þann liðstjóra sem hún er þerna hjá á meðan sögunni stendur eða nefnd Hjáfreð. Eftir byltinguna hefur ófrjósemi grasserað og þess vegna er það eftirsóknarvert fyrir hverja þernu að verða barnshafandi því þá losnar hún við að vera send í nýlendurnar en þangað er þau send sem eru ekki nothæf í hinu nýja lýðveldi en þar eru á meðal órfjóar konur, feministar, samkynhneigðir, ekkjur, nunnur og vændiskonur. Þar deyr fólk hægt og rólega í mikilli erfiðisvinnu.

Þernur eru einkenndar með rauðum lit, annað fólk sem skiptir máli hér eru Mörtur en þær sjá m.a. um heimilið, elda og þrífa. Nafn þeirra er tilvísun í söguna af Mörtu og Maríu í LK. 10.38-42. Þær eru einkenndar með grænum lit. Aðrar persónur eru liðstjórinn sem þernan býr hjá og frúin liðstjórans, en hún er kölluð Heiðljúf sem er þó ekki hennar fyrra nafn. Nikki er varðliði sem þeirra heimili hefur verið úthlutað og hann er bílstjóri liðstjórans. Moira er einn karakter sem kemur fram í bókinni en hún er samkynhneigð vinkona þernunnar sem erfitt reynist að venja á hið nýja líf í Gílead. Lúkas er fyrrverandi eiginmaður þernunnar en þau urðu viðskila þegar þau reyna að flýja en komast ekki langt og eru fönguð og skilin að. Hans örlög verða aldrei kunn en þernan er alla bókina að velta örlögum hans fyrir sér og á alltaf von á að sjá hann látinn, á opinberum stað þar sem fangar eru látnir hanga eftir að þeir hafa verið teknir af lífi. Öðrum víti til varnaðar. Þar hanga óvinir ríkisins eins og fólk af öðrum trúarhreyfingum, andspyrnumenn, prestar, nunnur ofl.

Ein persónugerð í viðbót er sérstaklega áhugaverð í þessari bók en það eru hinar svo kölluðu frænkur. Þær eru eldri konur, klæddar í brúnt og hafa það hlutverk að kenna þernunum á nýtt hlutverk sitt. Þeirra rödd kemur fram reglulega í bókinni og í þessari rödd kemur fram hugmyndafræðin sem hið nýja ríki er byggt á. Þetta er rödd kennivaldsins sem við þekkjum svo vel í öllum trúarbrögðum. Öll trúarbrögð eru byggð á ákveðinni kenningu og hver kenning hefur rödd. Í þessu tilviki er það frænkan Lydía sem segir okkur hvernig hlutum er háttað í þessu nýja ríki.

Það sem vekur áhuga lesanda þessarar bókar strax er hve kunnuleg hugmyndafræðin er. Þó að þetta eigi að vera framtíðarsaga, þá er hún sögð þannig að margt af þessu gæti vel verið satt. Atwood sjálf segir í viðtali á einum stað að allt þetta hefur gerst á einhverjum tíma í sögunni. Þó að það komi aldrei fram í bókinni að þetta sé sérstaklega kristið ríki og flestar tilvísanirnar í Biblíuna komi út GT, þá þarf ekki að fara lengra en í hina kristnu hefð, í hið kristna kennivald til að sjá margt af hugmyndfræði frænknanna lifa góðu lífi. Margt af því sem við erum enn að kljást við í dag sem kirkja og kristið fólk. Hvaða stað hafa konur almennt í hinni kristnu hjálpræðissögu, hvað eigum við að gera varðandi vígslu kvenna, hvað eigum við að gera varðandi getnaðarvarnir, hvernig meðhöndlum við kynlíf fyrir hjónaband, skilnaði og síðast en ekki síst hvaða stað ætlum við samkynhneigðum innan kirkjunnar. Við erum enn að kljást við kennivaldið og óttumst að víkja frá því á nokkrun hátt. Þó að við sjáum það standa með tvær hendur tómar.

Þegar ég nefni hér kristið kennivald er ég ekki einvörðungu að tala um þann arf sem hvílir í nýja testamentinu. Ég er einnig að tala um það sem kirkjuhefðin hefur skilað okkur. Kirkjufeðurnir gömlu, miðaldakirkjan, siðbót og heimur nútímans. Saga trúarbragðanna og þar á meðal kristni er ekki gæfurík þegar kemur að meðhöndlum á konum og þeirra hlutverki í hjálpræðissögunni. Gamla testamentið kennir okkur að hjálpræði konunnar sé í gegnum barnsburð og hún skuli ala börn með þjáningu. Páll postuli kennir okkur í húsreglunum í Efesusbréfinu að karlinn sé höfuð konunnar og hún skuli sýna honum auðsveipni. Í fyrra Tímóteusarbréfi segir að konan skuli læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Hún eigi að vera kyrrlát. Því Adam var skapaður fyrst, síðan Eva. Stuttu síðar segir að konan muni verða hólpin sakir barnsburðarins. Kirkjufeðurnir koma í kjölfarið og Tertúllíanus kirkjufaðir kenndi meðal annars í riti sínu de Cultu feminarum að konur séu hlið djöflusins vegna þess sem átti sér stað í aldingarðinum Eden forðum daga.

Elaine Pagels, bandarískur nt-fræðingur segir í bók sinni “Adam, Eve and the Serpent” að með því að lesa inn í Genesis frásöguna á þennan hátt, sem reyndar er gert í stórum hluta kristinna kirkna, sanni sagan af Evu bæði náttúrulegan veikleika kvenna sem og trúgirni þeirra og þar af leiðandi skilgreini hún hlutverk kvenna í dag. Ávíttar af þeim sem minntust syndar Evu, voru konur sviptar sjálfstæði og áttu þögular að gefa sig undir vald eiginmanna sinna, þakklátar fyrir það að þeirra gæti hjálpræðið einnig orðið ef þær helguðu sig heimilishlutverkum sínum.

Tvíhyggja, andstæður milli efnis og anda, þar sem konan hefur staðið fyrir efnið og karlinn fyrir andann, tengslaleysi, ótti og afskiptaleysi er meðal þess sem þessi hefð hefur skilað okkur. Við höfum verið hrædd við að víkja frá þessum reglum af því að þau eru talin vera hluti af boði Guðs. Mörg hver viljum ekki kannast við þetta og teljum okkur lifa heimi jafnréttis, þar sem allir hópar samfélagsins sitja við sama borð. Þó eru til trúarhreyfingar þar sem þessi boð lifa góðu lífi bæði hér á landi og erlendis og er þá ekki lengra að líta en til rómversk kaþólsku kirkjunnar sem hefur átt í vandræðum með margt í kenningakerfi sínu sem hefur skilað sér í almennu tengsla og skilningsleysi þeirrar kirkju á kjörum fólks í dag og til fjarlægari trúarbragða þar sem við sjáum hluti eins og heiðursmorð á konum og umskurn kvenna. Þetta eru hlutir sem koma okkur dags daglega lítið sem ekkert við og við hugsum lítið sem ekkert um. Við erum eins og segir í bókinni, fólkið sem er ekki í blöðunum, við lifum okkar lífi á auðum spássíum og á milli blaðafregna.

En þegar eitthvað snertir okkur, snertir raunverulega við okkur, þá höfum við skoðanir og margir hrópa á torgum þegar kennivaldi þeirra er ógnað líkt og þegar rætt hefur verið um réttindi kvenna í ákveðnum kirkjudeildum, prestsvígslu jafnvel og réttindi samkynhneigðra svo eitthvað sé nefnt. Þá erum við fljót að veifa kennivaldinu í óttablandinni lotningu og berja fólk með því miskunnarlaust. Við fyllumst ótta við að víkja frá meintum vilja Guðs og í þeirri stöðu stöndum við með tvær hendur tómar. Hugleysi við að víkja frá kennivaldinu og hugmyndafræðinni sem við lítum á hina einu og sönnu veldur því að við verðum þrælar eins og þernan og aðrar persónur bókarinnar. Við verðum eins og Heiðljúf sem hélt ræður um að eiginkonur ættu að fara aftur inn á heimilin fyrir byltinguna. Nú talar hún ekki meir af þvi að það sem hún boðar hefur orðið að raunveruleika. Hún er orðin fangi eigin boðunar.

Í fjallræðu Jesú Krists sjáum við boðun hans í sinni tærustu mynd. Þessi fallega ræða hefur verið mörgum umhugsunarefni. Breski guðfræðingurinn Adrian Thatcher spyr í einni af bókum sínum, hvaða rými er til fyrir Jesú Krist ef að Biblían öll er opinberun Guðs til manna. Nú vil ég ekki gera lítið út ritningunni sem slíkri og ég vil ekki að fólk fari héðan út með þá hugsun að ég telji ritninguna óþarfa og við eigum að fara að huga að öðru í leit að réttlæti og trú. Það er þó mín skoðun að í öllum þessum boðum og bönnum sem við finnum innan Biblíunnar og í óttanum við að víkja frá reglum sem meiða og kúga, þá höfum við gleymt Jesú Kristi. Við höfum rammað hann inn í fastmótaða kenningu, gert hann raddlausan og þar með komið á kyrrstöðu í boðun sem í upphafi var á sífelldri hreyfingu.

Hvað boða sæluboðin okkur, þau boða okkur veg krossins. Þau boða okkur andstöðu við óréttlæti, köllun eftir réttlæti, huggun í sorg og frið inn ófriðarins aðstæður. Kristin trú er ekki kyrrstæð, það ríkti ekki kyrrstaða í lífi Jesú sem var á stöðugri hreyfingu og það er ekki kyrrstaða við krossinn. Þar stóðu menn og konur frammi fyrir hrópandi óréttlæti, en mitt í allri sorginni þá vorum við þar hverju öðru falin. Við fengum boð um að halda áfram að bjóða keisaranum byrginn, halda áfram að bjóða kennivaldinu byrginn ef að það brýtur á mennsku fólks. Gleymum ekki hverja Jesú umgekkst í sínu lífi, hvaða fólki hann náði tengslum við, sýndi áhuga og gaf líf. Hann læknaði á hvíldardegi, bauð faríseunum byrginn og átti m.a samtal við samverska konu við brunn. Allt þetta ögraði ríkjandi háttum en gaf um leið líf en ekki dauða. Allt þetta varð til þess að kennivaldið fór að óttast hann. Á endanum stóð hann upp sem sigurvegari á páskadagsmorgun, hann hafði sigrað dauðann og gefið okkur líf.

Við höfum val. Við höfum alltaf átt val, alveg frá upphafi. Það hefur verið val manna að lesa frekar 2. sköpunarsöguna í 1. Mósebók sem myndar stigveldi karls og konu frekar en þá fyrstu sem lesin var hér áðan sem myndar jöfn tengsl kynjanna frammi fyrir Guði. Það hefur verið val að túlka konur út frá syndafallsfrásögunni og gefa þeim hjálpræði í gegnum barnsburð frekar en að skoða orð Páls í Galatabréfinu sem einnig voru lesin hér áðan. Við getum valið og hafnað. Við getum valið það í ritningunni sem deyðir og skemmir, því sem veldur tengslaleysi og samskiptaleysi. Við getum valið það sem skilur okkur eftir ein úti á berangri í ótta og þögn. Við getum valið að halda því fram að konur eigi að vera undirgefnar, það sé í lagi að halda þræla og útiloka samkynhneigða. Við getum valið óttann. Við getum þá að lokum staðið uppi ein líkt og persónur bókarinnar, án tengsla, án snertingar, án ástar. Á sama hátt getum við valið að fylgja hjartanu, við getum valið að fylgja Jesú inn í helgidóminn og hrinda um borðunum víxlaranna, við getum skorað kennivaldið á hólm. Við getum horft á manneskjuna sem stendur á móti okkur og séð hana með augum Guðs, með augum Krists og hjálpað henni að eignast líf í fullri gnægð, í kirkju sem innifelur hvern og einn í þann veruleika sem okkur öllum er falinn. Veruleikinn er einn og óskiptur, kirkjan er ein og fyrir alla. Orðið sem varð hold, tók á sig mannlegar byrðar og í holdtekjunni verður allt eitt. Heimurinn er ekki tvískiptur, hann skiptist ekki í okkur og hina. þar sem einn hópurinn nýtur forréttinda í mannlegu samfélagi og hinum er ýtt út á jaðarinn, sviptur réttindum. Í holdtekjunni teygði Guð sig til okkar í leit að tengslum og til að koma á samtali. Samtal sem frelsar, samtali sem umlykur og innifelur. Við sjáum það í Jesú Kristi, við sjáum það í hans boðun, við sjáum það í þeirri hefð sem okkur var falin í sinni tærustu mynd í lífi Jesú frá Nasaret. Ekki bara í því sem hann sagði heldur einnig í því sem hann gerði. Veljum að gefa þessari rödd líf. Veljum að gefa lífinu rödd. Ef við sýnum þetta hugrekki þá erum við ekki ein, við erum ekki í þögn og án tengsla. Þó að sú bók sem hér hefur verið til umfjöllunar sé skáldsaga, þá er hún þörf áminning um það sem gerist þegar farið er miskunnarlaust eftir boðun sem veldur ótta í mannlegum samskiptum og veldur dauða manneskjunnar. Þó að margt virðist langsótt í fyrstu, þá er það stundum ekki eins langt frá okkur og við höldum. Við höfum það tækifæri að geta valið lífið óttalaust. Höfum það í huga að í kristinni boðun er enginn gyðingur né annarrar þjóðar maður, enginn þræll né frjáls maður, karl né kona. Við erum öll, hvert og eitt okkar, eitt í Jesú Kristi. Amen.