Vitlausir verðmiðar!

Vitlausir verðmiðar!

Þó kreppan skelli með heldur harkalegum hætti á okkur Íslendinga, þá er von mín sú að hún hjálpi okkur til þess opna augu okkar fyrir réttu verðmætamati.

Sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson

Þrettándanum er víða um land fagnað með álfagleði og brennum. Margar þjóðsögur tengjast þrettándanum og margt svipað á að hafa gerst á þeim degi og á nýársnótt. Selir fóru úr hömum sínum, álfar fluttust búferlum og kýrnar töluðu mannamál. En í hugum flestra markar þrettándinn lok heilagar jólahátíðar, sem mörgum þykir ekkert sérstakt hátíðarefni. Það dimmir þegar jólaljósin eru slökkt, steikur, gjafir og jólaboð að baki og við tekur janúarmánuðurinn sem í hugum margra er bæði langur og leiðinlegur. Þó eru sumir sem líta svo á að janúar marki ákveðið upphaf, nýtt ár feli í sér tækifæri og sé að sumu leyti eins og óskrifað blað.

En nú eru margir svartsýnir. Við höfum verið vöruð við árinu 2010 því það muni verða þjóðinni erfitt. Ekki verður gert lítið úr þeirri staðreynd að margir kvíða og sjá fram á erfiðleika með að greiða af lánum sínum. Þó er rétt að minna á þá staðreynd að áhyggjufullur maður hefur tilhneigingu til að sjá ekkert nema hindranir í kringum sig, en hefur augun lokuð fyrir þeim eignum eða auðæfum sem hann hefur þegar í höndum. Og á sama hátt er það þannig að þegar allt gengur vel að þá er tilhneigingin sú að maðurinn líti á eigur sínar sem sjálfsagða hluti og horfir frekar eftir því sem hann telur sig vanta heldur en það sem hann á. Það leiðir af sér sinnuleysi og vanrækslu.

Í febrúar árið 2007, þegar hið meinta góðæri var í hámarki, gerði barnahjálp Sameinuðu þjóðanna könnun um stöðu barna og unglinga í 27 ríkjum heimsins. Til að gera langa sögu stutta, má fullyrða að Ísland kom ekki alltof vel út úr þeirri könnun, t.d. áttu þá aðeins 40% íslenskra unglinga reglulegar spjallstundir við foreldra sína og miðað við önnur lönd voru hvergi eins mörg 15 ára ungmenni einmana eins og á Íslandi. Kannski voru foreldrarnir of uppteknir við að vinna sér fyrir fallegum húsgögnum, flottum bílum eða glæsilegra húsnæði.

Þó kreppan skelli með heldur harkalegum hætti á okkur Íslendinga, þá er von mín sú að hún hjálpi okkur til þess opna augu okkar fyrir réttu verðmætamati og líta ekki á börn eða fjölskyldu sjálfsögðum augum. Í henni eigum við hin sönnu verðmæti.

„Nótt eina brutust nokkrir þjófar inn í skartgripaverslun. En í stað þess að stela nokkru, víxluðu þeir öllum verðmiðunum. Næsta dag vissi enginn hvaða skartgripir voru dýrir og hverjir ódýrir. Þeir sem töldu sig vera að kaupa rándýra og vandaða dýrgripi voru í raun að kaupa verðlaust drasl. Þeir sem ekki höfðu efni á dýrum skartgripum fóru heim með gersemar“. Sören Kirkegaard

Þegar við horfum þrjú ár aftur í tímann er auðvelt að finna íslenska þjóð í dæmisögu Kirkegaard. Árið 2007 vildu margir kaupa dýrum dómi verðlaust drasl sem þó var merkt dýru verði og talið eftirsóknarvert. Megi árið 2010 verða ár þar sem réttir verðmiðar verði á réttum stöðum og við sækjumst fast eftir því sem dýrmætast er; eiga stundir með fjölskyldunni, spjalla við börnin og gefa okkur tíma til þess að rækta það sem mikilvægast er. Megi góður Guð gefa okkur styrk til þess.