Til þjónustu við lífið
Náð sé með ykkur og friður, frá Guði sem hefur skapað okkur og endurleyst, og gætir og leiðir allar stundir. Amen.
Á degi sem tileinkaður er Biblíunni höfum við heyrt texta lesna hér
frá altarinu sem allir fjalla um orð Guðs sem „er lifandi og kröftugt og
beittara hverju tvíeggjuðu sverði“, er „smýgur inn í innstu fylgsni
sálar og anda, liðamóta og mergjar“ og „dæmir hugsanir og hugrenningar
hjartans.“ Það er ljóst að hér er ekki um að ræða lýsingu á dauðum
bókstaf sem varðveittur er í aldagömlum og rykföllnum bókum, heldur mátt
eða kraft sem lætur ekkert stoppa sig, en vinnur verk sitt, nótt og
dag, leynt og ljóst, þar til markinu er náð – þar til það hefur borið
tilætlaðan árangur.
Biblían, trúarbók kristinna einstaklinga, og gyðinga að hluta til, er í
rauninni heilt bókasafn sem inniheldur alls 66 rit, 39 í Gamla
testamentinu og 27 í því Nýja. Það sem einkennir allar þessar bækur, sem
ritaðar eru í margbreytilegu samfélagi á ólíkum tímum, er reynsla
höfunda af samskiptum þeirra við Guð, „skapara himins og jarðar, alls
hins sýnilega og ósýnilega“. Það má líta á Biblíuna sem safn frásagna
eða vitnisburða um reynslu fólks af Guði, af guðlegri leiðsögn í lífinu
og guðlegum innblæstri í hversdagslegum og ekki svo hversdagslegum
aðstæðum. Þannig eru rit Biblíunnar ekki aðeins stórfengleg
bókmenntaverk, heldur líka einlægur vitnisburður fólks sem leitaðist við
að lifa sínu daglega lífi í samræmi við trúarsannfæringu sína.
Það má segja að rauður þráður í öllum þessum ritum sé staða mannsins,
konunnar og karlsins, í hinu stórkostlega sköpunarverki Guðs. Höfundur
8. Davíðssálms orðar svo vel þessa tilfinningu sem við mörg könnumst við
og hvelfist yfir okkur er við virðum fyrir okkur undur og stórmerki
lífsins og finnum um leið svo áþreifanlega fyrir smæð okkar andspænis
þeim stórbrotna veruleika sem blasir við okkur. Í 8. Davíðssálmi er
þessi tilfinning orðuð á eftirfarandi hátt:
Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þessi orð sálmaskáldsins lýsa vel grundvallarafstöðu Gyðing-kristinnar trúarhefðar þessefnis að lífið sjálft og allt sem því fylgir sé gjöf Guðs. Gjöf sem fylgir sú mikla ábyrgð að við stöndum vörð um lífið í margbreytileika þess, að við tökum okkur stöðu með því sem styður lífið, með hinu góða og gegn hinu illa sem leitast við að brjóta og bramla, eyðileggja og útrýma hinni góðu sköpun Guðs. Við þurfum ekki að leita lengi til að finna birtingarmyndir illskunnar í samfélagi og samtíma okkar. Þær birtast okkur jafnt í mannlegum samskiptum sem og í samskiptum manneskjunnar við náttúruna, og einkennast öðru fremur af eigingirni og sjálfhverfu, af græðgi og eiginhagsmunagæslu.
Í upphafi 21. aldar birtist illskan og eigingirnin, sjálfhverfan, græðgin og eiginhagsmunagæslan ekki síst í umgengni okkar við náttúruna og náttúruauðlindir okkar. Aðsteðjandi ógn vegna hlýnunar jarðar kallar á aðgerðir og breytta lífshætti til að sporna við gróðurhúsaáhrifunum sem hér á landi birtast helst í bráðnun jökla, súrnun sjávar og hækkun sjávarborðs, en einnig í breyttu veðurfari, sem aftur hefur langvarandi áhrif á gróðurfar og dýralíf. Annars staðar í heiminum er hlýnandi loftslag víða farið að hafa áhrif á daglegt líf fólks og möguleika kynslóða framtíðarinnar til að lifa af. Stórir hópar fólks eru nú þegar á flótta vegna þeirra breytinga sem hlýnandi loftslag hafa orsakað og allt bendir til þess að þeim fari fjölgandi á næstu árum.
Í tilefni konudagsins sem við höldum hátíðlegan í dag, er ástæða til að huga sérstaklega að áhrifum loftlagsbreytinga á líf kvenna, sér í lagi fátækra kvenna sem búsettar eru norður við heimsskautsbaug og á suðurhveli jarðar þar sem fátækt er útbreidd og íbúar eru af þeim sökum viðkvæmari fyrir þeim breytingum sem hlýnandi veður hefur á lífsskilyrði þeirra. Rannsóknir sýna að áhrif loftlagsbreytinga á líf kvenna í heiminum í dag eru önnur en á líf karla. Þannig búa fátækar konur við alvarlegar afleiðingar gróðurhúsaárhifa sem gera líf þeirra sífellt erfiðara, m.a. vegna skorts á vatni, minnkandi uppskeru, og þar af leiðandi aukins vinnuálags, þar sem þær sjá gjarnan einar um að framfleyta fjölskyldum sínum, á meðan eiginmenn þeirra þurfa í vaxandi mæli að sækja atvinnu fjarri heimahögum. Það er mikilvægt að auka meðvitund okkar á Vesturlöndum um þær skelfilegu aðstæður sem fátækar konur í fjarlægum löndum búa við, og það hvernig lífshættir okkar sem búa við velmegun og allsnægtir hafa áhrif á líf fólks í öðrum heimshlutum.
Í bréfi sem Frans páfi sendi frá sér nokkrum mánuðum fyrir fundinn sem haldinn var í París í lok árs 2015 og svokallað Parísarsamkomulag sem unnið var að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna var undirritað, leggur hann áherslu á það að jörðin sé okkar sameiginlega heimili sem við eigum öll að standa vörð um. Þannig sé það sameiginleg ábyrgð okkar að bregðast við yfirvofandi ógn sem jörðinni og íbúum hennar stafar af hlýnandi loftslagi og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja framtíð komandi kynslóða. Páfi vill sjá kristna einstaklinga verða virka í baráttunni gegn ógnvænlegum afleiðingum hlýnandi loftlags, og slást þannig í hóp með stjórnmálamönnum og sérfræðingum sem vinna að sömu markmiðum. Í þessu samhengi talar páfi um nauðsyn þess að innan kristinnar kirkju eigi sér stað siðbót, eða afturhvarf; að kristin kirkja vakni til meðvitundar um ábyrgð sína gagnvart hinu sameiginlega heimili okkar allra, jörðinni, sköpunarverki Guðs, sem Guð hefur gefið okkur til varðveislu, til að yrkja og njóta góðs af ávöxtum hennar, en ekki að fara illa með og nýta fyrst og fremst í eigin þágu.
Ófáar sögur í Biblíunni segja fá einstaklingum sem heyrðu orð Guðs en áttu erfitt með að trúa því að Guð væri að ávarpa þau og í stað þess að nema staðar og hlusta, töldu þau sér trú um að þetta væri misskilningur, þar sem Guð gæti ekki átt erindi við þau. En hvað gerum við, ég og þú, sem í dag heyrum orð Guðs og áskorun um að taka alvarlega og sinna af bestu getu hlutverki okkar sem tilsjónarmenn með sköpunarverki Guðs? Í hinu stóra samhengi erum við agnarsmá og því ekkert skrítið þó að það kunni að hvarfla að okkur að við getum svo sem litlu breytt í stóra samhenginu, ekki síst þegar kemur að því að stemma stigu við þeirri miklu ógn sem vofir yfir jörðinni, sameiginlegu heimili okkar allra. Af hverju ætti Guð svo sem að eiga erindi við okkur, mig og þig, í þessum tilgangi, en ekki bara þau sem fara með völdin og taka ákvarðanir sem skipta sköpum þegar kemur að framtíð komandi kynslóða hér á jörðu? Svar gyðing-kristinnar trúarhefðar er skýrt: Guð, sem hefur skapað himinn og jörð, allt hið sýnilega og ósýnilega, hefur einnig skapað manninn, hefur skapað konuna og karlinn, mig og þig, í sinni mynd, til að vera samverkamenn sínir, til þess vinna að framgangi Guðsríkisins á meðal okkar. Guð hefur með öðrum orðum áhuga á því sem við, ég og þú, höfum fram að færa í stóra samhenginu, þar sem margt smátt gerir eitt stórt og við getum hvert og eitt lagt okkar að mörkum til þess að gera lífið á jörðinni lífvænlegra fyrir þau sem koma á eftir okkur, börnin okkar, barnabörn, barnabarnabörn og svo framvegis. Þetta er einmitt það afturhvarf sem Frans páfi kallar eftir, sú nýja hugsun sem nauðsynleg er til að bregðast við breyttum aðstæðum í heiminum.
Til að hjálpa okkur við að sinna þessari köllun okkar til þjónustu við lífið, til þjónustu við Guð og gjörvallt sköpunarverkið, þá er mikilvægt að við gleymum ekki í amstri hversdagsins að staldra við og dást að mikilfengleik sköpunarverksins, að lífinu sem birtist okkur í margbreytileika sínum allt í kringum okkur. Gefum okkur, líkt og sálmaskáldið forðum, tíma til að horfa upp í himininn, á tunglið og stjörnurnar, og finna fyrir smæð okkar í stóra samhenginu; gefum okkur tíma til að íhuga þann stórkostlega leyndardóm sem felst í því að Guð, sem er hinn skapandi máttur að baki gjörvallrar tilverunnar, skuli eiga erindi við okkur, mig og þig, og kalli okkur til að vera samverkamenn sínir; til að hlúa að lífinu; til að ganga til liðs við hið góða og vinna að framgangi þess í hvívetna.
Dýrð sé Guði, skapara okkar og endurlausnara, og heilögum anda sem dvelur á meðal okkar. Amen.