Hæðir og lægðir - og allt þar á milli

Hæðir og lægðir - og allt þar á milli

Gleði, sorg. Ljós, myrkur. Lán, ólán. Meiri háttar, minni máttar. Veglegur, vesæll. Hátt upp hafin, lítils metin. Andstæðurnar eru margar sem við mætum í lífinu. Ein og sama manneskjan getur orðið fyrir mjög mismunandi lífsreynslu á ólíkum tímabilum lífs síns og stundum er stutt á milli hláturs og gráturs, hæða og lægða mannlífsins. Þetta þekkjum við sjálfsagt flest af eigin raun.

Gleði, sorg. Ljós, myrkur. Lán, ólán. Meiri háttar, minni máttar. Veglegur, vesæll. Hátt upp hafin, lítils metin. Andstæðurnar eru margar sem við mætum í lífinu. Ein og sama manneskjan getur orðið fyrir mjög mismunandi lífsreynslu á ólíkum tímabilum lífs síns og stundum er stutt á milli hláturs og gráturs, hæða og lægða mannlífsins. Þetta þekkjum við sjálfsagt flest af eigin raun.

Pólar lífsins Í dag heyrðum við lesið úr spádómsbók Jesaja, 52.13-15, orð sem oft eru heimfærð á Jesú Krist:

Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða, hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn. Eins og marga hryllti við honum, svo afskræmdur var hann ásýndum að vart var á honum mannsmynd, eins mun hann vekja undrun margra þjóða og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.
Þessar línur eru inngangur að fimmtugasta og þriðja kafla Jesajaritsins sem oft er talað um sem ljóðið um hinn líðandi þjón Drottins og kristið fólk sér sem spádóm um Jesú Krist. Þarna eru miklar andstæður á ferð, frá hinu hæsta til hins lægsta, frá upphafningu til hryllings og síðan til orðlausrar undrunar, skautað á milli póla.

Í síðari ritningarlestrinum, pistlinum úr fyrra Pétursbréfi, 3.18-22, er líka að finna miklar sveiflur: eitt skipti fyrir öll, réttlæti og ranglæti, dauði og líf, líkami og andi, að stíga niður og stíga upp, flóð og frelsi, óhreinindi líkamans og hrein samviska, æðri öfl undirlögð:

Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Segja má að bæði hjá Jesaja og Pétri sé lýst veruleika sem rúmar lífið allt, veruleikanum eins og hann er í sælu og sorg og öllu þar á milli. Þannig er lífið og þar er Jesús með okkur, Alfa og Ómega, upphafið og endirinn; Jesús sem gefur ókeypis af lind lífsins vatns okkur sem þyrst eru (Op Jóh 21.6) enda hefur hann gengið að fullu inn í okkar kjör.

Mér er þörf að skírast af þér! Í guðspjalli dagsins, Matt 3.13-17, er því lýst hvernig Jesús Kristur rúmar heildarveruleika manneskjunnar með því að gangast undir skírn Jóhannesar:

Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“ Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum. En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“
Jesús hafði ekki þörf fyrir að taka iðrunarskírn. Hann var án syndar þó hans hafi verið freistað „á allan hátt eins og okkar“ (Heb 4.15). Um það fjallar guðspjall næsta sunnudags, fyrsta sunnudags í föstu, Matt 4.1.11. Með því að gangast undir skírn Jóhannesar frænda síns fullnægði Jesús öllu réttlæti, eins og hann orðar það, gekk að fullu inn í okkar kjör sem búum við andstæður lífsins og sveiflur þess dags daglega. Þannig getur hann „séð aumur á veikleika okkar“ (Heb 4.15) og segja má að þarna sé forsmekkur að þjáningu Jesú og dauða, upprisu og uppstigningu þegar hann stígur niður í vatnið og upp úr því aftur. Þannig tengir Jesús Kristur saman ítrustu póla sem hugur rúmar, himnaskaut og jarðar.

Dúfa og rödd af himnum Fyrir örfáum vikum, sunnudaginn 17. janúar, heyrðum við sjónarvott lýsa reynslu sinni af dvöl með Jesú í hæstu hæðum mannlegrar tilveru, á fjalli nokkru, háu og helgu (2Pét 1.16-21, sbr. Matt 17.1-9). Þar var lærisveinninn Pétur með meistara sínum og vini ásamt nokkrum öðrum og heyrðu þeir rödd af himni sem sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á“ eftir að Jesús hafði ummyndast, skinið skært af himneskri birtu, fyrir augunum á þeim.

Í dag heyrum við sömu orð af himnum eftir skírn Jesú um leið og andi Guðs steig niður eins og dúfa. Þessi reynsla þarna í ánni Jórdan, nálægt dýpstu lægð jarðar, en staðurinn þar sem Jesús var skírður er talinn hafa verið tiltölulega stutt frá Dauðahafinu sem er fyrir neðan sjávarmál, hefur haft djúp áhrif á Jóhannes skírara, líkt og reynslan á fjallinu hafði á Pétur postula. Þannig lýsir Jóhannes sinni reynslu í meðförum nafna síns guðspjallamanns (Jóh 1.32-34): „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki en sá er sendi mig að skíra með vatni sagði mér: Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda. Þetta sá ég og ég vitna að hann er sonur Guðs.“

Hæst og lægst Þessi tákn af himnum hafa opinberast sem lifandi veruleiki fyrir þau sem voru nálæg á hæsta fjalli og lægsta árbakka. Þannig rúmar Jesús Kristur bæði hæðir okkar og lægðir. Hann er með okkur þegar okkur finnst við geta allt og líka þegar við finnum til vegna veikleika okkar og vanmáttar. Í honum nærist lífsgleði okkar og lífsþróttur. Og lífsorð Jesú Krists nær líka til andanna í varðhaldi, eins og það er orðað í pistlinum. Hann steig niður til heljar, segjum við í trúarjátningunni; ekkert mannlegt er honum óviðkomandi, „því ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum“ (Róm 8.38-39).

Og með Jóhannesi í Opinberunarbók hans heyrum við óminn þegar „allt sem skapað er á himni og jörðu, undir jörðunni og á hafinu, og allt sem í þeim er“ tekur undir rödd himnanna í lofsöng til lambsins sem leitt var til slátrunar (sbr. Jes 53.7): „Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lof og heiður, dýrð og kraftur um aldir alda“ (Op Jóh 5.13). Amen, segi ég nú bara, í Jesú nafni, amen, yfir og allt um kring.