Sögur skipa stóran sess í lífi okkar. Hver kann ekki sögu? Hver hefur ekki gaman af sögu?
Sögur geta sagt ótal margt – miklu meira en aðrar frásagnir því þær kalla fram myndi í huga okkar og skilja jafnvel margt eftir fyrir okkur til þess að brjóta heilann um og túlka.
Fjölskyldur eiga gjarnan sögur. Þær eru sagðar þegar fólk kemur saman, jafnvel aftur og aftur. Þegar prestur situr með hópi fólks og undirbýr útför fær hann gjarnan að heyra slíkar. Þær eru margar ógleymanlegar enda gegna þær stóru hlutverki fyrir hópinn.
Dönsk kona sem flutt hafði hingað til lands eftir stríð sagði oft frá fyrstu nóttinni sinni hér í Keflavík. Hún vakti alla nóttina því tveir hrútar slógust fyrir utan gluggann hennar. Hún var alin upp á Friðriksbergi í Kaupmannhöfn þar sem Hlyntrén og Álmurinn stíga til himins upp úr görðunum í þessu gróna borgaralega umhverfi. Þessari sögu deildi hópurinn með mér eftir að hún var fallin frá. Margir þar áttu jú tilvist sína því að þakka að hún skyldi falla fyrir íslenskum manni sem hafði verið við nám í Kaupmannahöfn á stríðsárunum og fallast á að flytja með honum hingað. Hún lýsir vel þeim andstæðum sem voru á milli hennar gömlu heimaslóða og þeirra nýju.
Sagan af hrútunum tveimur er í raun og veru ástarsaga. Hún lýsir þeim fórnum sem þessi háttprúða dama var tilbúin að færa til þess að geta verið með manninum sem kom frá þessum hrjóstrugu slóðum.
Svona eru sögur. Þær vísa í ýmsar áttir og hver áheyrandi getur fundið sinn flöt á þeim. En þeim er auðvitað hætt við að gleymast og tapast. Þá er samfélagið fátækara og hættara við því að fólk eigi sér færri sameiginlega þræði sem tengja það saman.
Og nú er tímabil hinna mögnuðu frásagna. Jólin eru full af sögum, alls kyns sögum reyndar. Þær flæða yfir okkur um þetta leyti. Jú bækurnar sem okkur þykir svo viðeigandi að lesa einmitt um þetta leyti árs.
Í morgun fengum við til okkar 150 börn frá leikskólunum í Reykjanesbæ sem fluttu fyrir okkur þá frásögn sem einkennir jólin hvað mest. Við vitum hvaða saga það er. Það er sagan af fæðingu Krists. Þessi klassíska saga sem er eins og sniðin fyrir hóp skapandi barna og fagfólks sem kallar fram hugmyndaauðgi þeirra og frásagnargleði.
Við þekkjum hana öll, ef til vill sjáum við einmitt fyrir okkur barnahóp í litríkum búningum, Jósef, María, einhvers konar jata með dúkku, dýr, hirðingjar, vitringar og auðvitað hvítklæddir englar.
Þetta er hin fyrsta jólasaga. Inntak hennar er ríkulegt. Hún lýsir því hvernig Guð mætir okkur í þeirri mynd sem ef til vill síst væri von á, sem lítið barn. Þótt það finni ekki afdrep í gistihúsum borgarinnar Bethlehem kemst það í öruggt skjól hjá dýrunum í fjárhúsinu. Rétt eins og náttúran öll fagni hinum stórkostlegu tíðindum. Og sagan berst út í haga þar sem annar hópur afskiptra og útskúfaðra hefst við – hirðarnir. Þeir fá fyrstir fregnina stóru.
Hún horfir í ýmsar áttir: Aftur til fornra spádóma og fram til þess starfs sem Kristur átti eftir að boða og hann lýsti sjálfur með þessum hætti: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindi.“
Þessi saga minnir okkur á það hvað það er að vera kristin manneskja. Það er einmitt að láta sér annt um þá sem þurfa á okkur að halda. Ef Kristur sjálfur fæddist við kröpp kjör hversu mikilvægir eru þeir þá ekki sem sjálfir eiga um sárt að binda. Og hún er kærleikssaga rétt eins og sú sem fyrr var sögð. Sagan af því hvernig Guð elskaði heiminn og gaf son sinn svo við myndum öll öðlast eilíft líf.
Einstaklingar og hópar hafa byggt á þessari sögu og mörgum öðrum sem Kristur sagði. Þær verða ekki bara frásagnir til að byggja á heldur eru þær lím sem tengir fólk hvert við annað og minnir það á uppruna sinn.
Stundum hefur þetta allt haldist saman af sjálfu sér.
Stundum hafa ytri kraftar verið mjög sterkir og þá reyndir á það hald sem við eigum. Sú er raunin núna eins og við vitum. Um leið og við þeytumst inn í nýja tíma sem á margan hátt eru spennandi og fullir tækifæra verður okkur enn mikilvægara að huga að okkar sameiginlegu sögum. Þessum boðskap sem við eigum úr fórum þess sem fæddist utangarðs og dó sem útskúfaður maður á krossi.
Á þeim byggir svo margt sem gerir okkur að því sem við erum og veitir okkur dýrmæta fótfestu á komandi tímum.
Hugleiðum þetta á helgri jólahátíð. Guð gefi okkur öllum bjarta og innihaldsríka tíma.