Að láta ljós sitt skína

Að láta ljós sitt skína

Nú er skammdegið í essinu sínu og teygir svarta anga sína hvert sem það nær. Sum setja í herðarnar og hrylla sig á meðan önnur njóta dvínandi birtunnar. Hér á árum áður var ég í fyrrnefnda hópnum, fannst sumarið ósköp stutt og birtan sömuleiðis. Ég verð hins vegar að játa, að á seinni árum er ég farin að njóta meira skammdegis og þeirrar dulúðar sem það býr yfir.
fullname - andlitsmynd Guðný Hallgrímsdóttir
17. nóvember 2008

Nú er skammdegið í essinu sínu og teygir svarta anga sína hvert sem það nær. Sum setja í herðarnar og hrylla sig á meðan önnur njóta dvínandi birtunnar. Hér á árum áður var ég í fyrrnefnda hópnum, fannst sumarið ósköp stutt og birtan sömuleiðis. Ég verð hins vegar að játa, að á seinni árum er ég farin að njóta meira skammdegis og þeirrar dulúðar sem það býr yfir. Ég beinlínis hlakka til þessa tíma ársins þegar birtan tekur sér frí og myrkrið fær að njóta sín. Það er nefnilega aldrei eins notalegt að kveikja á kerti en í myrkrinu, hreiðra um sig með teppi og bók eða hlusta á fallega tónlist og horfa inn í kertalogann.

Með skammdeginu og vetrinum kemur líka annar taktur í samfélagið. Skólarnir iða af lífi og börnin á þönum milli skóla og tómstunda, oftast í fylgd foreldra í bílunum og þá gefst einmitt tími til að spjalla saman. Ég held nefnilega að það sé ekki endilega með öllu illt að þurfa nokkrum sinnum í viku að aka á milli tónlistarskóla, íþróttahúsa, heimilis og skóla. Hugsið ykkur bara allan þann góða tíma sem nýtist með barninu í bílnum!

Ljósin í skammdeginu verða önnur en þegar birtan ríkir og ég varð einmitt vitni af einu slíku ljósi um daginn þar sem ég sat á tónleikum og hlýddi á stóran hóp barna spila af hjartans list. Í röðinni stóð lítil stelpa í fallega rauðum skóm með stóran brúnan gosbrunn í hárinu umvafinn slaufu í stíl við skóna. Hún stóð stolt með litlu fiðluna sína undir handleggnum og beið eftir að röðin kæmi að sér. Þegar undirleikarinn gaf tóninn hneygði hún sig svo tignarlega að það lá við að nefið snerti fínu skóna og svo hóf hún fiðluna á loft. Hún spilaði af hjartans list og um salinn ómaði; Signir sól, Góða mamma og Kópavogur hopp, hopp. Þarna stóð hún fimm til sex ára gömul í rauðu spariskónum og lét ljós sitt skína. Ljós hennar umvafði okkur öll sem sátum og hlýddum á hana spila. Gleði hennar var bráðsmitandi og það var varla það andlit í salnum sem ekki brosti þegar hún hneygði sig á ný með nefið niður að skónum.

Það er nefnilega svo að þó svo að himinljósin skíni ekki svo skært þessa dagana og ljósin í hjartanu séu hálf mött af áhyggjum, krepputali og erfiðum tímum, þá megum við aldrei gleyma öllum þeim fallegu ljósum sem þrátt fyrir allt, lýsa upp veröld okkar allt í kringum okkur. Hvort sem það eru ljós okkar sjálfra, ljósin í augum barnanna okkar eða lítilla tónsnillinga í rauðum spariskóm.