Eitt mark skildi á milli lífs og dauða

Eitt mark skildi á milli lífs og dauða

Ekki einvörðungu fyrir úrslit í körfuboltaleik, heldur fyrir líf margra í orðsins fyllstu merkingu. Þar munaði einu marki á milli lífs og dauða.

Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir. Jóh 10.11-16

Góður vinur minn var á ferð í Bandaríkjunum fyrir páska og kom m.a. til Atlanta borgar og dvaldi þar í nokkra daga. Á meðan á dvöl hans stóð reið yfir afmarkaðan hluta borgarinnar öflugur skýstrókur og olli skelfingu, manntjón varð og skemmdir á eignum urðu miklar. Í íþróttahúsi einu í borginni stóð yfir mikilvægur leikur í körfuboltakeppni og var þar samankomin mannfjöldi að fylgjast með. Á síðustu sekundu leiksins jafnaði annað liðið úrslitin, en jafntefli viðgangast ekki í körfubolta, svo framlengja þurfti leikinn. En á meðan framlengingunni stóð reið skýstrókurinn yfir skammt frá íþróttahúsinu. Áhorfendur og keppendur á leiknum urðu hans tæpast varir, en ef leiknum hefði lokið eftir venjulegan leiktíma, þá er ljóst að margir hefðu orðið fyrir mikilli raun á leið heim til sín, því leið flestra hefði legið yfir svæði þar sem strókurinn varð mestur og einmitt þegar hann reið yfir. En framlengingin kom í veg fyrir það

Hér skildi að eitt mark á ögurstund, ekki einvörðungu fyrir úrslit í körfuboltaleik, heldur fyrir líf margra í orðsins fyllstu merkingu. Þar munaði einu marki, eitt mark skildi á milli lífs og dauða.

Þessi saga hún opnar sýn á hve líf í dagsins önn getur verið háð óvæntum atvikum, stundum tilviljunum, og sumir segja örlögum. Þegar einstakt atvik sem hefur ekki merkingu nema fyrir fáa, en getur síðar skipt sköpum fyrir marga.

Mér er það minnisstætt þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst á Grænlandsmiðum með allri áhöfn í ofsaverði og ísingu um miðjan vetur árið 1959. Ég var þá á sjöunda ári. Það situr enn í minni mínu þögnin sem grúfði yfir bænum dagana eftir slysið, og ómurinn af orði og söng úr hátölurunum utan á kirkjunni þegar minningarathöfnin fór fram. En fljótlega fóru að berast frásagnir af mönnum sem áttu að vera um borð, en höfðu forfallast á síðustu stundu fyrir brottför togarans og ástæðurnar sumar taldar afar sérstakar. Við erum næm fyrir slíkum frásögum, og síðan eru inn þær túlkaðar ýmsar og mismunandi skýringar. Reynslufrásagnir hafa margar borist af fólki sem átti að vera um borð í flugvélunum sem beitt var í hryðjuverkunum 11.september í árið 2001 í Bandaríkjunum, en var af ýmsum ástæðum ekki, af því að það missti af eða mætti ekki til flugs.

Skýstrókar ganga oft yfir jörð án þess að valda skaða. Þeir gleymast. Einstök úrslit í flestum kappleikjum gleymast líka fljótt. Skip koma og fara og sigla um heimsins höf af farsæld. Og flugvélar fljúga um heiminn dag hvern með þúsundir manna innanborðs og allt gengur sem betur fer oftast vel. En fólk forfallast, mætir ekki til skips eða flugferðar. Það gleymist líka fljótt og hefur sjaldnast einhverja merkingu. En þegar útaf bregður, aðstæður breytast, þá getur saklaust atvik haft óumræðileg áhrif, sem enginn gat séð fyrir.

Það er svo margt mannlegri visku hulið. Máttur mannsins, þó mikill sé, hefur ekki vald á öllu. Það verða óvænt atvik sem enginn getur séð fyrir um né haft nokkurt vald á. En við leggjum okkur fram um að skilja, túlka og upplifa þegar við horfum til baka og metum það sem gerst hafði. Það er auðveldara að skilja eftirá, en að sjá fyrir um óorðna hluti og atvik.

Í slíku ljósi getum við hugleitt guðspjallið sem ég las frá altarinu. Jesús líkir sjálfum sér við góðan hirði og fólkinu við sauði. Og hann segist ganga svo langt í að vernda sauði sína, að hann myndi fórna lífi sínu fyrir þá. Eflaust hefur fólkið lagt almennan skilning í þessi orð og hugsað með sér: „Þetta segir hann til þess að við treystum honum betur. Það kemur aldrei til þess að reyni á þessi orð“. Og það er rétt. Þessi orð og fleiri dugðu ekki til. Margir sneru baki við Jesú og treystu honum ekki. Það kom glöggt í ljós á föstudaginn langa þegar mannfjöldinn hrópaði að Jesú saklausum: Krossfestið hann, krossfestið hann. Þar skildi á milli lífs og dauða.

Engum kom til hugar að þetta atvik, dómurinn á föstudaginn langa, ætti eftir að ráða svo miklum úrslitum og raun ber vitni. Það voru margir dæmdir til dauða á þeim tímum. En Jesús Kristur dó á krossi, en reis uppfrá dauðum. Það reyndi á orðin sem hann sagði forðum og við skiljum þau núna í ljósi atburðarásarinnar. „Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina“. Jesús gerði það og Guð stóð við orð sín. Lærisveinum Jesú kom ekki til hugar að Jesús myndi deyja á krossi, þrátt fyrir að hann segði þeim frá því. Þeir hvorki skildu né trúðu. Það var svo fjarri allri veruleikaskynjun. En eftir upprisuna opinberast þeim skilningur og þá fá orðin og atburðir nýja merkingu. Þá skildu þeir. Og við líka. Og enn ómar: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég þekki mína og mínir þekkja mig“. Og enn skilur á milli lífs og dauða.

Þetta er kirkjan, „mínir þekkja mig“, sem játast Guði í þekkingu og trú, meðal annarra við sem komum saman í hans nafni í guðsþjónustunni, lofum Guð, þökkum honum og langar að komast nær í þekkingu um vilja hans og boðskap. Það er einmitt það sem við erum að gera í fermingarfæðslunni, að styrkjast í upplýsingunni um Guð og hans einskason, Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, orðin hans, verk og fagnaðarerindi. Sagan um Jesú birtir okkur hver Guð er, var og verður um aldir af því að hann er samkvæmur sjálfum sér í orði og verki, hvað sem á dagana drífur.

En umfram allt er það kærleikurinn í frásögunni um góða hirðinn, sem ræður úrslitum og birtist svo skýr og klár. Maðurinn skiptir Guð óumræðilega miklu máli. Hvað sem gerist, þá er Guð nálægur, heldur í hönd þína bæði í gleði og sorg, farsæld og mótlæti. Og þá finnst mörgum Guð standa næst einmitt þegar hversdagsleg atvik ráða stórum úrslitum. Þegar við stöndum frammi fyrir stærstu spurningum sem vitið getur ekki útskýrt, þegar atburðir verða sem vald mannsins hafði enga stjórn á. Þegar við sjáum eins og í ráðgátu, en þráum að sjá augliti til auglitis. Hverju má þá treysta og hvar er þá haldreipi að finna? Þá óma orðin hans, sem er nálægur í raun og sannleika: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina“.

Hér grundvallast staðfastur kærleikur, ást og umhyggja, sem umvefur og glæðir von. Og þessi von er í blíðu og stríðu og þráir ekkert frekar en að mannsins líf megi njóta fegurðar og gæða, trausts og hamingju. Hverful atvik í dagsins önn breyta engu um tilvist Guðs og umhyggju hans fyrir lífinu, en geta skipt máli fyrir stöðu mannsins gagnvart Guði. Því Guð var, er og verða mun um aldir alda. Og hann skilur á milli lífs og dauða.

„Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf sinn einkason svo hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“.

Þetta er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Amen