Hirðir á lakkskóm

Hirðir á lakkskóm

fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
24. desember 2007
Flokkar

Mikið óskaplega var ég fínn.  Spariklæddur og vatnsgreiddur þar sem ég gekk ákveðnum skrefum í snjónum í skólann um hádegisbilið með spariskóna í plastpoka því ekki máttu þeir verða óhreinir.  Litla coca cola glerflösku og smákökur sem mamma hafði bakað og ekki innsiglað í litrík smákökubox og dýrðin opinberuð seint á aðfangadagskvöld.  Ég var einungis með sýnishorn af þeirri dýrð  í nestiboxinu.

Þegar í skólann var komið, sem búið var að skreyta hátt og lágt með músarstigum sem liðuðust um alla ganga og ekki sé talað um kennslustofurnar sem við krakkarnir höfðum lagt mikla vinnu í að skreyta dagana á undan.   Kom ég fyrir litlum pakka hjá hinum litlu pökkunum sem bekkjasystkini mín höfðu komið fyrir og áttu fleiri eftir bættast við.  Framundan voru pakkaskipti og ekki spillti fyrir að þau skólalsystkini sem ekki voru í sama bekk og ég voru græn af öfund, því ekki var sami háttur hafður á í þeirra bekk. Eftirvæntingin skein úr andliti okkar allra þótt við gerðum okkar besta að vera ekki eins og litlu börnin í sjö ára bekk sem skottuðust um alla ganga eins og upptrekkt vélmenni ekki ósvipað því sem ég hafði fengið í jólagjöf árinu áður og endaði sína daga nokkrum dögum síðar þegar eldri bræður mínir vildu sjá hvernig væri að sprengja upp upptrekkt vélmenni og þeir létu verða af því.

Dagurinn sem við bekkjarsystkinin í sjötta bekk VD höfðum horft til að okkur fannst nítján hundruð eitthvað ár frá haustinu þegar við byrjuðum í sjötta bekk var runninn upp það var komið að litlu jólunum í skólanum.  Skólinn allur var með öðrum blæ þann daginn.  Ekki bara vegna skreytinganna heldur var andrúmsloftið mettað eftirvæntingu okkar allra.   Jafnvel gangavörðurinn brosti og bauð hátíðlega góðan dag.  Hápunktur dagsins var leiksýningin sem minn bekkur hafði veg og vanda að því að við gengum inn í þá hefð að ellefu ára bekkirnir sæu um skemmtiatriðin á litlu jólum skólans.   Leikritið hét "Jólastjarna" ég lék einn af hirðingjunum. 

Eftir hávært uppklapp æstra aðdáenda á leiksýningunni og blístur þeirra sem það kunnu spurði einn áhorfandinn mig baksviðs þegar ég var að þvo af mér leikhúsmeikið sem ég ótæpilega hafði borið á andlitið.  Spurði mig “afhverju ég hafi verið í spariskónum í leikritinu.”  Ég man ekki hverju ég svaraði en ég man hvað þessi einhver sagði með alvöruþrungni röddu:  "Ég er næstum viss að svona skór; og benti á svörtu lakkskóna mína,  voru ekki til þegar jésú fæddist."  Með öðrum orðum það var í skjön við raunveruleikann að vera í spariskóm í leikriti sem átti að gerast fyrir 19 hundruð eitthvað árum áður. 

Sem aftur leiðir hugan að því svo vikið sé að rétttrúnaði síðustu missera að ég held líka; reyndar held ég það ekki, að engillinn sem birtist hirðunum á Betlehemsvöllum forðum daga hafi heldur ekki hangið í bandi með skelfingarsvip, því honum – englinum í leikritinu forðum daga láðist að láta vita að hann engillin sjálfur væri lofthræddur, hangandi yfir leiksviðinu hálfa sýninguna.   Segir í jólsguðspjallinu að hirðarnir hafi verið skelfdir mjög.  Við hirðingjarnir vorum mjög sannfærandi í þeim hluta leikritisins, forðum daga hafa þeir ekki haft áhyggjur af því að engillinn sá dytti ofan á þá með tilheyrandi meiðingum eins og við hirðingjarnir á leiksviði austurbæjarskólans og ekki sé talað um  vitringana og forelda Jesú og ekki má gleyma honum Mása húsverði sem hélt lofthrædda englinum á lofti eina stundina uppi við rjáfur og á næsta augnabliki fríu falli í áttina að óttaslegnum hirðingjum sem láu á sviðinu  og einn þeirra í lakkskóm með skelfingarsvip.  Engillinn kom ekki upp orði, einungis ámótlegt væl þess sem vildi vera eitthvað allt annað en engill. En samt í  minningunni var örugglega jafn mikil hátiðleiki yfir atburðinum á leiksviði hátíðarsals austurbæjarskólans og fyrir rúmum tvö þúsund árum síðar sem við erum kölluð saman til að minnast.

Til þessa hátíðleika var nú fyrir stundu hringt öllum kirkjuklukkum landsins og að ekki sé talað um veröld alla.  Við erum ekkert spurð og engin athugasemd gerð með það hvort við erum berfætt fátæktar eða skínandi pússuðum spariskóm ríkidæmis.  Við komust þangað sem við erum kölluð til að vera á kvöldi sem þessu – aðfangadagskvöldi.  Á helgri hátíð sem engin orð af munni manneskju getur fangað svo vel fari.  Það er nefnilega svo á kvöldi sem þessu eigum við að leggja við hlustir.  Hlýða á rödd engilsins að við þurfum ekki vera hrædd, við þurfum ekki að óttast en samt erum við það í svo mörgu í kvöld.  Hirðarnir óttuðust það sem þeir sáu rjúfa kyrrláta nóttina með sínu flauelsmjúka myrkri aðeins snarkið í eldinum talaði inní nóttina sem varð aldrei söm aftur.  Það var eitthvað sem truflaði, eitthvað sem átti ekki að gerast en gerðist samt.   Til þessa einhvers er mér, þér og þínum kirkjugestur góður boðið til að vera þátttakandi. 

Það er ekki bankað á öxlina á þér og sagt við þig.  “Ég er viss um… að þetta hafi ekki verið svona þegar atburðir þeir sem við minnumst gerðust.  Þrátt fyrir að við reynum eftir mætti að hafa sama hátt á í jólaundirbúningnum og jólahaldinu sjálfu þá er það aldrei það sama hvernig sem við reynum.

Einhverjum kann að þykja það smávægilegt en það er það alls ekki í huga þess sem þessi ótti hefur tekið sér bólfestu hjá.

Jólin, jóhátíðin er stórfengleg, talar til okkar, snertir okkur hvernig sem ástatt er fyrir okkur.  Við lítum við og leggjum við hlustir.  Leggjum frá okkur amstur og hversdagsleika dagana.  

Myrkrið var yfir og allt um kring þegar frelsari heimsins, ljós heimsins fæddist í lágreistu fjárhúsi og lagður var í jötu eins og jólaguðspjall Lúkasar greinir frá.  Heimurinn varð ekki samur aftur.  Það er þessi kennd sem grípur okkur á jólum.  Það er allt öðruvísi en venjulega er.

Veraldlegur kraftur jólanna er ekki mikill.  Hátíðleiki jóla og kyrrð þess er vissulega í engu samræmi við dagana á undan. 

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.