Við höfum frelsi til að skapa okkar eigin guðfræði

Við höfum frelsi til að skapa okkar eigin guðfræði

Við þurfum að hugsa vel um greinarnar 95, sem Lúter hengdi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Við þurfum að spyrja okkur að því um hvað þær myndu snúast í dag. Það er mikilvægt að hvert og eitt okkar skrifi sínar eigin 95 greinar.

Kæru vinir!

Það er gott að koma saman til guðfræðidaga á Hólum að vori til á þessum dásamlega degi þegar sólin skin fram eftir kvöldum, fuglarnir farnir að syngja, grasið farið að grænka og blómin að springa út. Ég er búin að hlakka til þessara daga í allan vetur þegar snjórinn lá yfir með öllum sínum þunga alveg frá því í október og þar til í síðustu viku.

Já, það er gott að koma saman og fá brýningu frá Marteini Lúter í erindunum sem dr. Gunnar Kristjánsson hefur flutt okkur hér á þessum guðfræðidögum.

Þó ég hafi ferðast með Gunnari og Önnu konu hans á Lútersslóðir þá hefur verið svo gott að fá þessa djúpu innsýn inn í guðfræði Lúters.

Þegar við vorum á Lútersslóðum kom mér mest á óvart að finna fyrir því hve jarðvegurinn var tilbúinn fyrir boðskap hans og hvað fólk fékk að heyra nákvæmlega það sem það þurfti að heyra og því var fylgið við hugmyndir hans svo mikið og hreyfing hans barst svo fljótt út.

Þess vegna þurfum við að skoða vel hver jarðvegurinn er í dag. Við þurfum að spyrja okkur að því hvað það er sem þjóðin þarf að heyra og hvað þjóðin vill heyra. Hvað er það sem brennur á börnum og unglingum? Hvað er það sem þau þrá að heyra?

Þetta er meðal þeirra góðu spurning sem hafa vaknað með okkur þegar við höfum íhugað siðbótina. Við þurfum að vera vakandi fyrir því að skoða þetta sérstaklega allt til ársins 2017, þegar við höldum fimm alda siðbótarafmælið. Siðbótarafmælið á nefnilega ekki að vera aðeins eitt minningarár, heldur þurfum að við að vera með siðbótarprógram í gangi öll þessi ár eins og þekkist í nágrannalöndunum.

Það er hollt að lesa gagnrýni Marteins Lúters, sem birtist í bók hans: Til hins kristna aðals.

Það er gott að læra af honum gagnrýna hugsun. Við höfum mikið rætt um frelsið í umræðum okkar. Við þurfum að vita að við höfum frelsi til að skapa okkar eigin guðfræði. Það gerum við reyndar þegar við predikum. Við erum að skapa okkar eigin guðfræði í hverri einustu predikun, þegar við túlkum Guðs orð út frá okkar eigin trú og tjáum eigin trú og trúarreynslu. Við eigum að mega tjá miðmunandi trú og það höfum við gert hér og það er dásamlegt að finna það frelsi.

Ef Marteinn Lúter væri hér gætum við spurt okkur að því að hverju gagnrýni hans myndi beinast. Myndi hún beinast að okkur prestunum eða sóknarnefndarfólki eða kirkjuþingi og kirkjuráði? Myndi hún beinast gangvart biskupnum eða okkur vígslubiskunum? Við þurfum að þora að spyrja okkur slíkra spurning og við þurfum að þora að taka þann slag.

Við þurfum að hugsa vel um greinarnar 95, sem Lúter hengdi á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Við þurfum að spyrja okkur að því um hvað þær myndu snúast í dag. Það er mikilvægt að hvert og eitt okkar skrifi sínar eigin 95 greinar.

En þá er komið að guðspjalli dagsins, guðspjalli síðasta sunnudags sem var þrenningarhátíðin og þessi orð sem ég las áðan, skírnarskipunin, höfum við öll lesið svo oft. Við kunnum þau utanað og ætlumst jafnvel til að fermingarbörnin okkar kunni þau utanað. Við förum með þau við hverja einustu skírn. En hvað eru orð skírnarskipunarinnar að segja okkur?

Þau eru að segja okkur að fara út, skíra og kenna. Hér er áherslan á boðun, skírn og kennslu.

Það er skoðun mín að núna sé mikilvægast fyrir okkur að kenna.

Trúararfurinn er ekki drukkinn með móðurmjólkinni eins og var hér áður fyrr og ekki fá börnin trúararfinn í skólakerfinu. Þess vegna gengur það ekki lengur að það viðgangist að í mörgþúsund manna söfnuðum séu aðeins 15-20 börn í sunnudagaskólanum eins og kom frá í umræðum hér í dag.

Við þurfum að setja barna- og unglingastarf í algeran forgang í kirkjunni. Barna- og unglingastarf er gríðarlega mikilvægt, langmikilvægasta starfið sem við vinnum í kirkjunni.

Og svo er það annað: Við eigum að boða trú við jarðarfarir. Þá er fólk opið fyrir því að heyra kristinn boðskap. Þá hlustar fólk mjög vel og þarf á því að halda að heyra okkur boða upprisuboðskapinn. Það á ekki að þekkjast að upprisan sé ekki boðuð í hverri einustu jarðarför, upprisuboðskapurinn um að Kristur er upprisinn með okkur í öllu lífinu og tekur við okkur að loknu þessu lífi.

Það er gott að vera hér með ykkur á þessum guðfræðidögum þar sem ríkir vinátta og kærleikur þrátt fyrir opin skoðanaskipti. Þegar við förum héðan þá bið ég þess að við finnum fyrir handleiðslu Guðs í lífi okkar og störfum.

Við höfum öll nú í vor upplifað páskahátíðina þar sem við boðuðum upprisuna, við höfum lifað gleðidagana og nýlega haldið hvítasunnuna hátíðlega, hátíð heilags anda. Við þurfum að finna fyrir leiðsögn heilags anda í lífi okkar og störfum fyrir Guðs ríkið.

Til þess eru guðfræðidagar að fylla á tankinn. Við erum svo oft tóm eftir langan vetur og þá er svo gott að koma saman og endurnærast í samfélagi hvert við annað. Þannig verðum við betur í stakk búin undir áframhaldandi starf.

Guð blessi okkur öll í því í Jesú nafni. Amen.