Góðæri til framtíðar

Góðæri til framtíðar

Sex hundruð og þrír þátttakendur og leiðtogar frá 27 æskulýðsfélögum víðsvegar að af landinu taka þátt í Landsmóti ÆSKÞ á Egilsstöðum um helgina. Landsmótið skapar góðæri til framtíðar, í íslenskum ungmennum sem kynnast erindi kirkjunnar og í lífi þeirra sem aðstoð þurfa.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
25. október 2012

ÆSKÞ heldur í ár Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar í sjöunda sinn en landsmót kirkjunnar eiga sér yfir 60 ára sögu. Landsmót æskulýðsfélaga hafa frá upphafi verið fjölmennir viðburðir og töldu þátttakendur þeirra oft um 300 þátttakendur. Fyrstu Landsmót ÆSKÞ voru af þeirri stærðargráðu, Landsmót í Vatnaskógi 2006, á Hvammstanga 2007 og í Ólafsvík í október 2008.

Vatnsverkefni í Malaví - Landsmót ÆSKÞ 2012Þau Landsmót sem haldin hafa verið eftir efnahagshrun sýna með skýrum hætti að aðsókn ungmenna í æskulýðsstarf kirkjunnar er meiri nú en nokkru sinni. Á Landsmót í Vestmannaeyjum 2009 voru skráð um 600 ungmenni,* á Akureyri 2010 yfir 600 og á Selfossi í fyrra um 500. Á Landsmót ÆSKÞ 2012 sem haldið er á Austurlandi eru skráðir 603 þátttakendur og leiðtogar frá 27 æskulýðsfélögum víðsvegar að af landinu. Landsmót ÆSKÞ hefur fest sig í sessi sem stærsti viðburður í kristilegu æskulýðsstarfi á Íslandi og er með stærri vetrarviðburðum í æskulýðsstarfi sem ungmenni sækja án fjölskyldna sinna. Þessa jákvæðu þróun má að mínu mati rekja til þriggja samverkandi þátta. 1. Stofnun ÆSKÞ

Með tilkomu Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) breyttist mikið í skipulagi og framkvæmd Landsmóta. ÆSKÞ eru frjáls félagasamtök æskulýðsfélaga Þjóðkirkjunnar og öll vinna sem unnin er í þeirra þágu (utan framkvæmdarstjóra) er unnin í sjálfboðavinnu. Við framkvæmd Landsmóts starfa stjórn og varastjórn ÆSKÞ, landsmótsnefnd og hópur leiðtoga sem öll gefa vinnu sína í þágu mótsins. Án þessa öfluga sjálboðaliðastarfs væri ekki hægt að halda mót af þessari stærðargráðu fyrir þau fjárframlög sem sambandið hefur til starfsemi sinnar. 2. Aðstæður heimilanna í landinu

Aðstæður hjá barnafjölskyldum í landinu breyttust töluvert í lok árs 2008 og við sem störfum á vettvangi æskulýðsstarfs finnum marktækan mun. Æskulýðsstarf kirkjunnar er skipulagt frístundastarf sem er foreldrum að kostnaðarlausu og hefur á þann hátt sérstætt forvarnargildi fyrir efnaminni fjölskyldur. Frístundastarf barna- og unglinga er kostnaðarsamt og kirkjan er valkostur sem íþyngir ekki fjárhag fjölskyldna. Þá er í æskulýðsstarfi kirkjunnar ekki gerðar kröfur um hæfileika á ákveðnum sviðum, sem er dýrmætt þeim ungmennum sem ekki finna sig í tónlistar- og íþróttastarfi. Á erfiðum tímum er æskulýðsstarf kirkjunnar bandamaður uppalenda. 3. Uppbygging æskulýðsstarfs á Austurlandi

Þegar rætt er um aðsókn á mótin er vart hægt að líta fram hjá því að undanfarin ár hafa yfir hundrað þátttakendur sótt Landsmót ÆSKÞ af austurlandi. Sá árangur sem náðst hefur í uppbyggingu æskulýðsstarfs í austurlandsprófastsdæmi er öðrum svæðum til fyrirmyndar. Með það í huga var staðsetning Landsmóts valin í ár og nú streyma ungmenni af suður og norðurlandi austur á hérað til að halda Landsmót. Mótið sjálft beinir sjónum að Afríkuríkinu Malaví en Hjálparstarf kirkjunnar er með fjölmörg verkefni í Chikwawa héraði. Á mótinu munu börnin læra um það hvernig að íbúar þar hafa með aðkomu hjálparstarfs getað grafið brunna og öðlast þannig betra aðgengi að grundvallarþörf mannsins, hreinu vatni. Mótið sækja tvö ungmenni frá Malaví sem deila með þeim hvernig það er að alast upp í Malaví og þátttakendur safna fé til styrktar verkefninu.

Landsmót ÆSKÞ skapar góðæri til framtíðar, í íslenskum ungmennum sem kynnast erindi kirkjunnar og í lífi þeirra sem aðstoð þurfa.

* Mikil forföll urðu þó, af Austurlandi sökum svínaflensu og af Vestfjörðum vegna veðurs.