Skriftaspegilsdagur

Skriftaspegilsdagur

Miðvikudagur í kyrruviku er skriftaspegilsdagur. Það er gott að staldra við stutta stund við slíkan spegil áður en höldum áfram föstugöngunni að krossi Krists. Við stöldrum við og íhugum hvers konar lærisveinar við erum.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
12. apríl 2006

Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn. Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri. Lúk 22.1-6

Kæri söfnuður. Miðvikudagur í kyrruviku er skriftaspegilsdagur. Það er gott að staldra við stutta stund við slíkan spegil áður en höldum áfram föstugöngunni að krossi Krists. Við stöldrum við og íhugum hvers konar lærisveinar við erum. Mig langar að gera nokkrar spurningar úr skriftaspegli af trúmálavefnum okkar – www.trú.is - að íhugunarefni okkar í dag. Hugleiðing dagsins verður þannig samvinnuverkefni okkar, ég les og við hugleiðum saman.

Á hvað treystir þú í lífi þínu?

Hvað hræðist þú?

Hverju tilheyrir hjarta þitt?

Hvað merkir í þínum huga nafnið Guð?

Hvað mótar bæn þína?

Hvernig lítur sunnudagurinn út?

Hvers leitar þú í kirkjunni?

Hvernig þjónar þú í söfnuðinum ?

Hvers virði eru þér foreldrar þínir?

Hver hefur áhrif á börnin þín?

Hvernig er samband þitt við yfirmann þinn?

Hvaða ábyrgð berð þú í opinberu lífi sem er í samræmi við gáfur þínar og eiginleika?

Anntu öðrum rýmis til að lifa?

Hindrar þig eitthvað í því að verja lífi þínu til heilla fyrir aðra?

Hvernig lítur hjúskapurinn út?

Hvað gerir þú fyrir heilbrigt líf safnaðarins?

Berðu virðingu fyrir eigum annara.

Hvernig eignast þú peninga?

Axlar þú þinn skerf í almennum byrðum?

Um hvað talar þú?

Hvernig mætir þú kröfu Guðs þegar hann gerir tilkall til lífs í þjónustu?

Kæri söfnuður, það er ekki til þess ætlast að við höfum stutt, aðgengileg og skýr svör á reiðum höndum – skriftaspeglar verða ekki árangursmældir með slíkum hætti. Og þessari prédikun er ekki lokið þótt lestrinum ljúki. Skriftaspegilsspurningar verða ekki afgreiddar á stuttum tíma (allra síst á þremur mínútum í árdegismessuprédikun). En nú höfum við hafið íhugun um þær, lítið svo á vefinn og fylgið þessu eftir, leyfið spurningum og ykkar eigin svörum að lifa með ykkur í gegnum þennan dag og aðra daga föstunnar. Guð leiði okkur öll í því.