Þegar fullorðin manneskja er skírð

Þegar fullorðin manneskja er skírð

Við munum detta stundum á leiðinni eða fara af réttum vegi af og til, en samt komumst aftur á réttan veg með Guðs hjálp. Það er gleðilegt að við erum skírð.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
28. júlí 2014
Flokkar

Textar dagsins eru hér.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1. Skírn er gleðilegur atburður. Hún er atburður sem fagnar nýju lífi og hátíð fjölskyldu og ættingja. Í íslenskri hefð er skírn nátengd nýfæddum börnum. Því er það mjög eðlilegt að í skírninni sé meiri áhersla lögð á nýtt líf en ,,dauða gamals manns sem lifað hefur í synd.“ Raunar grunar mig að fátt fólk hugsi um dauða gamals manns í syndinni í skírnarathöfnum. Skírn er gleðileg athöfn sem fagnar nýju lífi.

En staðan er talsvert öðruvísi í japanskri kirkju og söfnuðum. Ég hef talað oft um japanska kirkju hér í Seltjarnarneskirkju, og ég ætla að gera það aftur í dag.

Ég segi það í hvert skipti, en þetta er ekki til þess að skera úr um hvor kirkjan sé betri, heldur til þess að fá nýtt sjónarhorn. Með því að skoða japanska kirkju, sem býr við gjörólíkar aðstæður miðað við hina íslensku þjóðkirkju getum við lært ýmislegt, og öfugt.

Móðurkirkjan mín er lúthersk kirkja í Japan og þar fara fram skírnir að sjálfsögðu, en um 90% af þeim sem skírðir eru fullorðnir. Þetta er skiljanlegt ef við veltum því fyrir okkur að í Japan eru aðeins 1% af íbúafjöldanum kristnir, 99% eru það ekki.

2. Margir kynnast kristni fyrst á fullorðinsárum. Hvernig er þá ferlið frá því að fullorðin maður kemur í kirkju í fyrsta skipti og þangað til hann skírist til kristinnar trúar? Það gæti verið einhvern veginn svona:

Segjum að 35 ára karlmaður, Akira að nafni, komi í kirkju í fyrsta skipti. Akira þekkir eitthvað til kristinnar trúar, þekkir einhvern sem er kristinn, hefur lesið bók eða eitthvað. Samt veit hann ekki hverjar reglurnar eru í messu og hvernig á að haga sér.

Akira sækir messu nokkrum sinnum til að skoða og meta hvort þetta sé staður fyrir sig eða ekki. Fólkið í söfnuðinum tekur vel og hlýlega á móti honum. Það skiptir miklu máli að fá nýjan félaga í litlum söfnuði. Akira spjallar við fólkið og einnig við prestinn.

Eftir mánuð býður presturinn Akira á reglulegt námskeið til að skilja betur Bibíuna og kristni. Þetta er eins og fermingarnámskeið hérlendis. En í námskeiðinu fyrir Akira, er hann einn á móti prestinum. Akira lærir um kristni, og samtímis spyr hann prestinn spurninga og þeir eiga saman umræðu.

Akira er fullorðinn maður með nokkra lífsreynslu. Hann veit því hvernig raunveruleikinn í samfélaginu er og verður ekki aðeins sannfærður með fallegum orðum um Guð. Hann þarf að ná til kjarna kristindóms. Það tekur tíma.

Eftir ár eða tvö ár, tekur Akira ákvörðun og spyr prestinn: ,,Mig langar að skírast, en hvað finnst þér?“ Presturinn segir við hann að það sé í fínu lagi og þeir ákveða að halda skírnarathöfn í jólamessu, eða um páska. Það fer eftir árstíma.

Þannig er Akira skírður í jólamessu og söfnuðurinn fagnar því mikið. En enginn af fjölskyldumeðlimum Akira kemur í athöfnina, þar sem fjölskyldan hans á ekkert erindi við kirkjuna.

Yfirleitt er þessi háttur hafður á þegar fullorðin manneskja er skírð. Ég fór þennan veg sjálfur. Ég fór í kirkju í fyrsta skipti þegar ég var 18 ára. Ég var í miðju inngönguprófi til hákóla. Það gekk mjög illa og mér leið illa. Mér fannst ég vera einskis virði og mig langaði vita hver dýpri merking lífsins væri. Til þess vildi ég prófa að fara í kirkju.

Samt tók það mig hálft ár að sækja messu í fyrsta skipti. Ég var talsvert hræddur við að fara í kirkjuna, alveg ókunnugan heim! En eftir tvö og hálft ár, þegar ég var 21 árs, var ég skírður.

3. Fullorðið fólk heimsækir kirkju af ákveðinni ástæðu. Í langflestum tilfellum glímir það við erfiðleika. Fólkið getur verið með erfiðan sjúkdóm, verið einmana eða það hefur gert alvarleg mistök í lífi sínu og liðið illa vegna þess. Allir koma í kirkju til að finna eitthvað sem þeir sakna, allir leita að hjálpræði fyrir sig.

Eitt dæmi sem ég þekki er þetta. Ég heyrði þetta fyrir um 25 árum:

Maður kom í kirkju til að tala við prest nokkurn. Hann starfaði í fangakerfinu í Japan. Hann var skiptaráðandi, sem sé var hann í stöðu til að framkvæma dauðarefsingu. Raunar eru þar fimm menn til að framkvæma dauðarefsingu. Þetta er enn eins í dag. Og þeir eiga að ýta á hnapp sem er fyrir framan þá, samtals fimm, samstundis. Einn af fimm hnöppunum er tengdur við kerfið sem opnar hurð á gólfinu og fanginn verður hengdur. Það veit því enginn af fimm mönnunum hver í raun ,,drap“ fangann.

En viðkomandi leið mjög illa út af þessu og gat ekki flúið sektarkenndina vegna þessa. Mér skildist að hann hafði aðeins sinnt þessu verki einu sinni eða tvisvar. Samt var það alveg nóg til að vekja upp þessa kennd. Ég veit ekki hvort maðurinn gat fengið hjálpræði fyrir sig í kirkjunni eða ekki, en ég vona að Guð hafi gefið honum það.

Því miður, ekki öllum tekst að finna svarið fyrir sig eða hjálpræði í kirkjunni. Nokkrir halda að kristni sé ekki það sem þá vantar, og þeir fara kannski í annað trúfélag. Slíkt er mjög algengt í Japan. En sumum líður vel í kirkjunni og óska að hefja á einhverju stigi lífs síns að ganga með Jesú Krist. Það er oft stór ákvörðun og skref að stíga í lífi fólks. Og skírn er sýnilegt tákn fyrir það.

,,Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi. “(Róm. 6:4). Nákvæmlega þannig upplifir fólkið dauðann hins gamla sjálfs síns og upphaf nýja lífsins. Það er alls ekki skrítið að nýskírt fólk byrjar að gráta í skírnarathöfn sinni, en tárin eru vegna gleði og þakklætis.

4. Mér skilst að flest ykkar eða þið öll höfuð verið skírð sem börn og því eigið þið ekki minningu um skírnardaginn ykkar sjálfra. En það er engin vafi um að gleðin hafi umkringt skírnarbarnið þann daginn. Skírn er gleðilegur atburður. Af því að maður sem hefur fest sig í synd frelsast með skírn.

Synd er í stuttu máli sagt ,,að vera utan samskipta við Guð“, þó að Guð hafi verið að gefa okkur náð sína einhliða. En skírn er tímamót þess að frá þeim tíma er maður kominn í gagnkvæm samskipti við Guð. Og Guð tekur á móti manni eins og hann er núna. Maður má trúa því.

Þess vegna er það ekki þannig að maður mæti engum erfiðleikum eftir skírn sína eða maður falli aldrei í freistni. Við þurfum að lifa í raunveruleika í samfélaginu eins og áður, og eins og aðrir sem eru ,,óskírðir“. Samt er munurinn til. Við erum ekki eins og ,,gömlu við“ sem vorum ekki í fastasamskiptum við Guð. Páll postuli segir: ,,Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi ... Dauður maður er leystur frá syndinni“(Róm. 6:6-7).

Við erum, þess vegna, fullviss um það að við höfum verið leyst af syndinni og við erum í gagnkvæmum samskiptum við Guð og Jesús tekur á móti okkur eins og við erum núna. Þó að okkur mistakist í einhverju eða séum með ýmsa mannlega galla, hafnar Jesús okkur ekki. Við þurfum ekki að fela veikleika okkar og þykjast að vera sterk. Við erum ekki eins og annað ,,óskírt“ fólk þó að það sé jú sama virði og við sem manneskjur. Munurinn snýst ekki um virði manns, heldur um hvernig við ferðumst hér á jörðinni. Við erum fullviss um hvert við göngum hér á jörð. Okkar gangur er ekki óvissuferð. Við göngum leiðina sem leiðir okkur til Guðs ríkis og eilífs lífs. Páll postuli segir rétt eftir pistil dagisins: ,,En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum“(Róm. 6:22).

Við munum detta stundum á leiðinni eða fara af réttum vegi af og til, en samt komumst aftur á réttan veg með Guðs hjálp.

Það er gleðilegt að við erum skírð. Rifjum upp þá gleði. Sú gleði er ekki farin frá okkur eða týnd. Gleðin er með okkur alla tíð. Við megum gleyma henni stundum, en við megum ekki henda henni út. Rifjum upp gleði skírnar og höldum áfram að lifa nýju lífi í Kristi.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen