Haustvindar

Haustvindar

Ástsæll listamaður nefndi á dögunum þá sem ganga um, með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni, en sjaldan er þó falsið svo augljóst.

Haustið er að ganga í garð, við finnum það á vindinum sem er ögn svalari og hviðurnar snarpari en verið hefur í sumar. En haustrokinu fylgir auðvitað eftirvænting eins gjarnan er þegar ein árstíð fylgir annarri. Kartöflugrösin standa upp úr moldinni og verður fróðlegt að sjá hvað undir þeim býr. Berin spretta fram á lyngi og trjám, já sumir eiga ávaxtatré í görðum sínum. Skotveiðimenn horfa til himins og bíða spenntir eftir því að halda megi út á tún eða upp á heiði í leit að gómsætum gæsunum.

Uppskera

Haustið er uppskerutími. Lítill og ræfilslegur ungi var á vappi í garðinum mínum í gærmorgun og eftir nokkrar tilraunir tókst okkur að ná honum og hefja til flugs upp á trén þar sem hann gat verið óhultur fyrir köttunum. Þetta er rétti tíminn til þess að yfirgefa hreiðrið, einmitt þegar farið er að roðna á ribsinu og senn verða reyniberin hæf til átu. Sannarlega boða haustvindarnir nýja tíma og nýtt upphaf eins og þeir hafa ætíð gert.

Haustið á sér ýmsar hliðstæður í lífi einstaklinga og þjóða. Víða gilda þau sömu lögmál. Uppskera er í raun nokkurs konar uppgjör þar sem í ljós kemur hvernig staðið var að öllum undirbúningi á fyrri árstíðum. Því fer fjarri að ávextirnir séu alltaf eins og vonir standa til. Ekki þarf að rekja það í smáatriðum hvernig haustar víða um heim nú. Uppskerutíminn ætlar að reynast erfiður niðurskurðartími, þar sem gengið verður á lífsgæðin hjá stórum hópum. Hann gæti jafnvel orðið tími fyrir algera endurskoðun á því hvernig lifað hefur verið og framkvæmt.

Uppskeran ræðst jú ekki aðeins af þeim dugnaði og þeirri útsjónarsemi sem við sýnum á haustin. Enginn bóndi myndi ligga í leti allt vorið og sumarið með það í huga að virkilega skyldi tekið til hendinni þegar haustaði! Hvaða vit væri í því að leggja til atlögu við túnin og garðana þegar ekki hefur verið sáð og ræktað, hlúð að og borið á, grisjað og reitt löngu áður en farið var að njóta ávaxtanna af öllu erfiðinu? Já, hver gæti sótt dilka upp á afréttir ef sauðburði hefði ekki verið sinnt að vori?

Undirstöðurnar

Að læðist sá uggur að niðurskurðartíðin stafi einmitt af því hversu við höfum vanrækt það að hlúa að undirstöðunum, leggja rækt við grunninn og vinna í þeim jarðvegi þaðan sem við ætlum hinu góða að vaxa upp úr. Þarf ekki mikla þekkingu til þess að greina það. Alltof lengi höfum við hampað því sem ber að forðast. Sóun á verðmætum gengur á gæði náttúrunnar. Yfirgengileg afþreying og tímasóun kemur í veg fyrir skapandi umræðu um framtíð okkar og valkosti. Í skeytingarleysi tala menn af vanvirðingu um þann lærdóm sem fortíðin færir okkur. Hver skyldi þá uppskeran vera? Og hvernig verður framhaldið ef ekki verður breyting á?

Hér áðan hlýddum við á sögu Krists af húsasmiðunum tveimur sem hvert mannsbarn á að þekkja. Hver kannast ekki við sönginn með hreyfingunum? Annar hygginn og hinn heimskur og laginu lýkur með orðunum „og húsið á sandinum það féll!“ Ekki uppbyggilegt eða hvað, nei sú er einmitt raunin. Söngurinn hlýtur dapran endi og þar er því þó hvergi lýst hvers eðlis sjálft húsið var. Efniviðurinn, burðarvirkið og klæðningin eru ekki nefnd í sögunni hvað þá söngnum. Nei þar er aðeins talað um undirstöðuna, bjargið eða sandinn. Valið þar á milli er það sem ræður örlögum bygginganna tveggja.

Þetta er auðvitað hverju orði sannara. Yfirborðið, hversu fagurt sem það kann að vera má sín lítils ef ræturnar eru feysknar. Boðskapurinn á erindi til okkar þegar við hugsum til framtíðar. Hér hefur víst ýmislegt fallið með látum, en við stöndum ennþá uppi og höfum tóm til að horfum skoða undirstöðuna. Sjálf stjórnarskráin er til endurskoðunar og í þeirri umræðu er sannarlega tekist á um grundvallaratriðin eins og vera ber. Í drögum stjórnlagaráðs eru margar þarfar ábendingar um aukið lýðræði, virkara frelsi og skýrara jafnrétti en nú er. Engin vanþörf er á því að taka á þeim málum og leita þess réttlætis sem setur alla menn við sama borð.

Stjórnarskráin

En um leið og við höldum inn í nýja tíma með nýjar reglur eigum við að horfa lengra og dýpra og horfa til þess jarðvegs sem menning okkar og líf er sprottið. Það væru mikil mistök að varpa þjóðkirkjunni okkar fyrir róða um leið og við horfum fram til nýrra tíma. Öll nýsköpun byggir á því sem fyrir er. Alltaf þarf að leggja upp frá ákveðnum upphafsreit og þar hefur kristin kirkja algera sérstöðu. Það á ekki síst við nú þegar samfélag okkar sem verður æ fjölbreyttara og litríkara og talar fleiri tungum. Þá verður enn ríkari krafan á að horfa til þeirra hugmynda sem það hefur vaxið upp úr. Siðferðið, tungumálið, skólakerfið og stjórnsýslan, allt hefur þetta fléttast saman við okkar kristna sið í gegnum kynslóðirnar.

Hér höfum við bjargfastan grunn til að byggja á og honum skulum við ekki skipta út fyrir hvikulan sandinn.

Gagnrýni á kirkjuna

Annað er það svo sem einkennir kristna kirkju og það er einmitt sú gagnrýni sem hún sjálf hefur í eigin garð. Jú, kirkjan situr undir harðri gagnrýni en mesta og virkasta endurskoðunin hefur þó komið að innan. Kirkjuna þarf stöðugt að siðbæta, sagði siðbótarmaðurinn Lúther. Kirkjan hefur líka gengið í gegnum hvert endurmatið á fætur öðru í gegnum aldirnar og risið upp ný og sterk á traustum grunni.

Þar höfum við jú fordæmi Krists sem var aldrei óvægnari en þegar kom að hinum skinhelgu og heilögu trúmönnum sem í kringum hann voru. Já, kæru vinir hugleiðum það, að sterkustu andmæli hans voru ekki sett fram gegn tollheimtumönnum og syndurum heldu faríseum, saddúkeum og öðrum þeim hópum sem hreyktu sér upp af þekkingu sinni og frómleika.

Textinn um húsin tvö á fyrst og fremst við þá sem vilja kenna sig við Krist. Hann beinist að þeim sem fylgja honum í orði kveðnu en láta þó ekki kærleiksboðskap hans móta líf sitt og háttu. Hann er um þá sem benda á réttu leiðina en fara hana ekki sjálfir, tala um kærleikann en láta sér hag náungans í léttu rúmi liggja, heyra orðin en fylgja þeim ekki eftir.

Biblían og byssan

Enda segir postulinn: „Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn.“ Já, margir eru falsspámennirnir og þá er ekki auðvelt að þekkja. Ástsæll listamaður nefndi á dögunum þá sem ganga um, með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni, en sjaldan er þó falsið svo augljóst. Oftar en ekki er það borið fram undir fögru yfirborði en við þekkjum greinarmuninn ef í ljós kemur að atorkan og starfið miðar að því einu að auka völd og vegferð þess sem boðskapinn flytur fremur en að styrkja og efla kærleiksríki Jesú Krists.

Kirkja Krists þarf að standast steypiregn og vinda óvæginnar gagnrýni og hún á að fagna svo frísklegum kviðum. Þar verða þó víða skriður og aur þar sem ekki hefur verið vandað til undirstöðunnar og þá þarf að hefjast handa við endurbótastarfið, siðbótina sístæðu. Kirkjuna þarf sífellt að siðbæta og sú siðbót mun engan endi taka. Það gerir hún ekki með því að varpa öllu því góða á glæ sem hún á í fórum sínum eftir langan reynslutíma, heldur með því að sækja í það góða sem hún á. Víða hefur verið sáð og hlúð að og uppskeran verður að sönnu góð ef lögð er rækt við það góða sem Kristur hefur miðlað okkur.

Kristnir leiðtogar

Við eigum jú svo ótal margt dýrmætt sem ekki aðeins er skráð á síður Biblíunnar heldur birtist í lifandi trú og starfi þeirra sem fylgja kalli Krists. Og eitt það mikilvægasta sem við eigum er köllun kristinna manna um að taka frumkvæði og forystu í kringum sig. Kristur er jú svo einstakur leiðtogi að hann skapar leiðtoga í þeim sem honum fylgja. Þetta eru leiðtogar af öðrum toga en þeir sem huga aðeins að því að maka eigin krók. Þetta eru leiðtogar sem hlusta í heimi sem verður sífellt háværari, skilja í veröld sem verður sífellt flóknari og þjóna í umhverfi þar sem hörmungar sérhyggju og eigingirni verða æ ljósari. Þetta eru leiðtogar sem gleðjast þegar umhverfi þeirra vex og dafnar og spyrja þá ekki að því hvernig þeim sjálfum er hampað.

Endurreisnarstarf kirkjunnar byggir á þeim grunni sem boðskapur Jesú Krists er og nú á tímum samdráttar og uppgjörs þarf hann að miða að því að efla þá einstaklinga sem flykkjast undir merkjum Krists. Slíkir leiðtogar munu ekki aðeins efla kirkjuna heldur gefa fordæmi að því að efla samfélag okkar og umhverfi.

Nú er haust í loftinu, norðanvindurinn næðir um landið. Hann er óvæginn og kaldur, eins og vindurinn í dæmisögunni en líka ferskur og hreinsandi. Því haustvindarnir kenna okkur það að uppskeran verður aldrei merkileg ef við ekki hlúum að þeim jarðvegi sem við ætlum að yrkja. Þetta eru tímar uppskeru en líka uppgjörs. Kirkjan okkar er vön slíku uppgjöri og í hvert skiptið hefur hún komið ný og endurbætt fram á sjónarsviðið. Við skulum ekki hafa áhyggjur að henni þótt útlitið virðist ekki alltaf bjart. Einmitt vegna þess að hún byggir á traustum grunni.