Holdtekja í Kaupfélagsgilinu

Holdtekja í Kaupfélagsgilinu

Frammi fyrir Einstæðri móður skynjar áhorfandinn bæði hversdag og helgi. Konan á svörtu sokkunum með Bónuspokana er tæpast nokkur Krist-gerfingur. Við stöndum frekar frammi fyrir hverdagshetju í reisn sinni og lægingu.
fullname - andlitsmynd Hjalti Hugason
29. maí 2011

Yfirlistssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur stendur nú yfir í Listasafni Akureyrar. Samtímis kom út bók — Undir rós (Eyja útgáfufélag 2011) — sem spannar feril Kristínar frá 1987. Myndheimurinn rúmar ótrúlega breidd frá hefðbundnum íkonum í eggtemperu og blaðgulli til stórgerðra verka í ull á grófum striga. Móðir Guðs frá Vladimir kallast á við Bredduna. Hér getur að líta bæði fæðingu og dauða. Myndirnar höfða til breiðs litrófs tilfinninga og kennda. Leiðin liggur um goðsögulegt landslag inn í heim helgisagna. Skyndilega stendur áhorfandinn síðan augliti til auglitis við eigin samtíð í kvöl sinni og sælu. Yfir öllu gnæfir Eilífðin, dulmögnuð í blárri birtu. Sýningin heillar í margræðni sinni.

Fyrir guðfræðing var stórbrotin reynsla að fylgjast með heimkomu Kristínar um 1995. Ung listakona kvaddi sér hljóðs með „nýjum“ tóni í íslenskri myndlist sem hún sótti til klassískrar íkonahefðar. Það veitti innblástur og djörfung að mögulegt væri flytja á þennan forna arf gegnum þær óravegalengdir í tíma og rúmi sem skilja að bysantíska menningu á fyrstu öldum kristni og Reykjavík undir aldamótin 2000. Þetta er einmitt sístætt hlutverk guðfræðinnar og kirkjunnar, að yfirfæra frumlæg tákn kristindómsins inn í samtímann. Að tefla saman tíma og eilífð.

Klassískur Kristsíkon er enginn venjuleg Jésúmynd heldur er hann farvegur og tákn fyrir nærveru Krists. Sérhver Kristsíkon er því tilvísun til þess að Orðið varð hold og bjó með oss. Í hefðarfestu sinni og óbreytanleika miðlar íkoninn jafnframt eilífðinni inn í síbreytilegt mannlíf. Kristín Gunnlaugsdóttir sýnir því gríðarlega dirfsku en jafnramt mikinn trúnað þegar hún yfirfærir tækni og hughrif íkonsins yfir á reynsluheim nútímakonunnar. Þetta líkist líka glímu kirkjunnar við miðla helgi á þann hátt að skiljist í kviku mannlífsins eftir Hrun.

Frammi fyrir Einstæðri móður (að ofan) skynjar áhorfandinn bæði hversdag og helgi. Konan á svörtu sokkunum með Bónuspokana er tæpast nokkur Krist-gerfingur. Við stöndum frekar frammi fyrir hverdagshetju í reisn sinni og lægingu. Konan er staðgengill allra þeirra sem erfiði og þunga eru hlaðnir en er heitið hvíld. — Í sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur má sannarlega sækja bæði ögrun og hvíld. Við erum öll í brýnni þörf fyrir hvort tveggja.

Bent skal á heimasíðu listakonunnar: www.kristing.is