Æskulýðsdagurinn

Æskulýðsdagurinn

Kirkjan hefur að geyma fjársjóð þeirra frásagna sem mannkynið hefur öðlast í frásögn Biblíunnar af Jesú. Trúin á Guð, mátt hans og vilja til þess að vera spor okkar í sandinum er sannarlega sístæð og mun aldrei gleymast einmitt vegna þess að hún er sönn.
fullname - andlitsmynd Erla Björk Jónsdóttir
05. mars 2011

Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar 2010

Við fetum lífsins æviskeið. Hvert ár og hver áratugur ber okkur inn á nýjar slóðir, nýja vegi sem við fetum ein og sjálf eða í fylgd hvers annars. Leiðirnar eru margar, sumar veljum við en sumar fáum við ekki valið.

Hvert æviár hefur mótandi áhrif á persónuleika okkar til framtíðar. Öll eigum við reynslu af lífinu. Bernskan er sennilega það æviskeið sem hefur mest mótandi áhrif á persónu okkar og viðhorf. Þar skapast minningar sem seinast gleymast. Minningar sem verða hluti af persónugrunni okkar, viðbrögðum okkar og úrvinnslu þess sem hver dagur hefur í för með sér.

Á þeirri reynslu hef ég sjálf þurft að byggja og ennfremur því veganesti sem mér hefur verið gefið á uppvaxtarárum mínum. Öll lifum við einhverskonar örlagastundir í lífinu. Tökumst á við sjálf okkur og aðra, Guð og menn. Þeim hef ég sannarlega mætt og dætur mínar tvær er við horfðum inn í myrkur sorgarinnar og missisins. Mitt í myrkri örvæntingarinnar birtist mér þó ljós minninganna. Upp kom mynd sem ég hafði ekki áður munað. Mynd sem hafði ferðast með mér og hvílt dúpt í undirmeðvtund minni. Myndin af Jesú.

Ég hafði misst alla von og sökk niður í myrkt djúp sorgarinnar en þá birtist mér þetta ljós. Mitt í örvæntingu minni sá ég svo skýrt mynd af Pétri þar sem hann fellur útbyrgðis af bát þeirra lærisveinanna. Hann sekkur dýpra og dýpra og stendur frammi fyrir vali þess að missa vonina eða eygja hana. Hann ákveður að trúa á lífið og honum birtist senn hönd Jesú sem teygir sig niður djúpið og grípur um úlnlið hans. Honum er bjargað og hann finnur til þess öryggis sem hann vissi að hann ætti í þessu handtaki sem engum myndi bregðast. Þessi mynd var ekki tilviljun háð. Hún er hluti af mér og átti sér stað í huga mínum vegna þess að ég hafði notið þess sem barn að sækja barnastarf kirkjunnar á sunnudögum. Þar hlustuðum við á sögurnar af Jesú og lærisveinunum og fengum litlar myndir með okkur heim. Það var ein af þessum myndum sem komu mér til bjargar. Ég vissi að ég gæti trúað á lífið.

Kirkjan hefur uppeldislegu hlutverki að gegna sem ein af stærstu stofnunum okkar þjóðfélags. Hún hjálpar okkur með því að kenna og miðla til okkar gildi þess og mikilvægi að trúa á lífið. Hún kennir okkur hvernig við megum finna þær leiðir sem okkur stendur til boða að velja. Leiðir sem öllum eru færar að feta í átt að farsælu lífshlaupi. Þessar gjafir á enginn að taka léttúðlega eða mæta af hroka. Þessar gjafir eru að mínu mati hverju mannsbarni dýrmætar.

Kirkjan hefur að geyma fjársjóð þeirra frásagna sem mannkynið hefur öðlast í frásögn Biblíunnar af Jesú. Trúin á Guð, mátt hans og vilja til þess að vera spor okkar í sandinum er sannarlega sístæð og mun aldrei gleymast einmitt vegna þess að hún er sönn. Hún er sönn af því að hún talar inn í aðstæður okkar hvern einasta dag. Sönn vegna þess að hún getur orðið saga okkar sjálfra þegar við njótum þess að dvelja í kærleiksríku umhverfi sem hefur það að markmiði að leiða þetta ljós inn í líf barnssálarinnar sem mun búa að því alla ævi. Og það er einmitt á vettvangi barna og æskulýðsstarfsins sem það á sér stað.